Vínlandssetur opnað í Búðardal
Sýning um landnám norrænna manna á Grænlandi og fund Ameríku löngu fyrir daga Kristófers Kólumbusar hefur verið opnuð í Búðardal. Hún er til húsa á efri hæð í Leifsbúð, gömlu vöru- og verslunarhúsi í námunda við höfnina í Búðardal.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði sýninguna. „Öll þessi saga getur sagt okkur margt um hver við erum því maður kynnist einmitt sjálfum sér best í samskiptum við aðra. Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga snúast einmitt öðrum þræði um samskipti norrænna manna við þá sem bjuggu í þessum löndum,“ sagði forsætisráðherra við opnunina.