Ýruskjótt folald með einkennilega blesu
Ýruskjóttur blesóttur kallast litasamsetning þessa fallega folalds.
„Hann er eini hesturinn með þessa samsetningu á Íslandi eða brún ýruskjóttur og varblesóttur,“ segir Bríet Auður Baldursdóttir á Akurey 2 í Rangárþingi eystra, einn eigenda folaldsins Prins, sem er með þessa einstöku litasamsetningu. Prins fæddist þann 18. júní síðastliðinn. Litaafbrigðið ýruskjótt kemur frá afa hans, Ellert ifrá Baldurshaga, sem var fyrsti hesturinn sem skilgreindur var ýruskjóttur. Foreldrar Prins eru Ófeigur frá Baldurshaga, móálóttur ýruskjóttur með vagl í auga, og móðir er Ekkja frá Nesi, sótrauð, breiðblesótt, leistótt með grásprengt fax og tagl. Auk Bríetar eru María Brá og Ronja Bella Baldursdætur eigendur Prins.
Blesa Prins þykir sérstaklega athyglisverð en þekkist í erlendum hestakynjum og nefnist þar „Badger face“ en hefur ekki sést áður á Íslandi.