Ætlar að verða hestatemjari og bóndi
Eva Rut Tryggvadóttir, 12 ára, hafði samband við ritstjórn Bændablaðsins og vildi gerast áskrifandi. Það er ekki á hverjum degi sem svo ánægjuleg áskriftarbeiðni berst þannig að ákveðið var að gefa Evu Rut áskriftina í það minnsta næsta hálfa árið.
Eva Rut hefur alltaf haft mikinn áhuga á dýrum. Hún á langömmu og -afa í Grindavík sem eru með kindur og hefur hún því tekið virkan þátt í sauðburði og réttum frá því hún man eftir sér. Hún á eina kind hjá þeim sem heitir Gullbrá en hana dreymir um að eignast hest og hund.
Nafn: Eva Rut Tryggvadóttir.
Aldur: 12 ára.
Stjörnumerki: Hrútur.
Búseta: Björtusalir 6 í Kópavogi.
Skóli: Salaskóli.
Hvað finnst þér skemmtilegast í skólanum? Íþróttir, smiðjur, náttúrufræði og frímínútur.
Hvert er uppáhaldsdýrið þitt? Hestur.
Uppáhaldsmatur: Píta.
Uppáhaldshljómsveit: Skólahljómsveit Kópavogs.
Uppáhaldskvikmynd: Spirit (hestamynd).
Fyrsta minning þín? Þegar sósan sem átti að fara á pitsuna sprautaðist í hárið á mér.
Æfir þú íþróttir eða spilarðu á hljóðfæri? Ég æfi djassballett, er í skátum og svo spila ég á klarinett. En svo langar mig að æfa hestaíþróttir.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Hestatemjari og bóndi.
Hvað er það klikkaðasta sem þú hefur gert? Að vera á berbaki og fara á stökk.
Gerðir þú eitthvað skemmtilegt í sumar? Ég fór í hestasumarbúðir í Hestheimum, fór til Vestmannaeyja, til útlanda, á skátamót og í bústað.