Maríuerla
Maríuerla er lítill, kvikur og flugfimur spörfugl. Hún er útbreidd um mest allt land, einkum niðri á láglendi en einnig finnast fuglar nærri mannabústöðum á hálendinu. Hún er skordýraæta og veiðir helst flugur, bjöllur og fiðrildi. Hún veiðir skordýrin á flugi eða á jörðinni þar sem þær geta hlaupið mjög hratt. Þær hafa langt stél sem þær veifa í sífellu þegar þær sitja eða eru bröltandi á jörðinni. Þessi hegðun er reyndar einkennandi fyrir tegundir af erluætt og draga þær enska heitið sitt, wagtail, af þessari hegðun. Maríuerlur eiga það til að gera sér hreiður í mannabústöðum, klettum eða jafnvel grenitrjám. Venjulega gerir hún hreiðrin frekar hátt uppi og í grenitrjám getur það verið 4-5 m frá jörðinni. Hún er að öllu leyti farfugl hérna á Íslandi enda er hún sérhæfð skordýraæta og lítið er af skordýrum á Íslandi yfir vetrartímann. Þær koma venjulega til landsins í maí þótt fyrstu fuglarnir komi jafnvel upp úr miðjum apríl. Þær fljúga síðan til Vestur-Afríku á haustin og eru venjulega allir fuglar farnir í síðasta lagi í september. Það er ekki hægt að segja að maríuerla sé beint hljóðlátur fugl en hljóðið er engu að síður fjörlegt og vinalegt.