Ærinnralæri með íslenskum jurtum
Gott ærkjöt stendur alltaf fyrir sínu. Það er bragðmikið og með réttri eldun vekur það alltaf góða lukku í veislum. Nú er um að gera að nýta sér þær fjölbreyttu kryddjurtir sem vaxa í íslenskri náttúru og leyfa hugmyndafluginu að ráða við kryddun kjötsins. Með kjötinu er síðan kjörið að útbúa bragðgóða sósu.
Fyrir 4
- 800 g ærinnralæri
- 1 dós maltöl (soðið niður um ¾)
- 2 msk. hunang
- Krydd: Blóðberg, hvönn, birkilauf, te
- 1 stk. ristuð sellerírót
- safi úr 1 sítrónu
- 2 marin hvítlauksrif
- og 50 ml ólífuolía
Aðferð
Innralæri kryddað. Kryddið með íslensku te sem inniheldur, birki, hvönn og blóðberg eða öðru kryddi, helst kvöldið áður. Fyrirtækið Íslensk hollusta er með tilbúið bragðgott te sem er tilvalið sem krydd. Það er líka hægt að tína fersk krydd úti í náttúrunni eða nota það sem ræktað er heima við.
Grillið á vel heitu grilli í tvær mínútur á hvorri hlið eða þar til kjötið er orðið fallega brúnt. Kryddið með salti og pipar og ögn af hvítlauk í ólífuolíu.
Lækkið þá hitann á grillinu eða hækkið grillgrindina og grillið í 8-10 mín. í viðbót. Passið að snúa kjötinu reglulega á meðan. Penslið með niðursoðnu maltöli með ögn af hunangi, látið hvíla. Setjið á fat með kartöflum að eigin vali eða jafnvel grillaðri sellerírót sem er búið að pensla með olíu. Hana þarf að grilla þar til hún er hálfelduð í gegn, þá er hún skorin í þunna strimla og borðuð eins og hrásalat með ögn af salti og sítrónu og hvítlauksolíunni góðu.
- Vorlauks engifer-
- og sveppasósa
- 150 g sveppir
- 1 lítið knippi vorlaukur
- 250 ml rjómi
- 1 msk. smjör
- 1 cm engifer
- salt og pipar
- ferskur graslaukur
Stilkur af vorlauk og sveppir saxaðir smátt. Steikt á pönnu með smjöri í nokkrar mínútur. Rjóma bætt við og þegar suða kemur upp er slökkt undir og hrært í sósunni. Saltað og piprað eftir smekk. Rífið ferskan engifer og fínsaxaðan graslauk í sósuna (best er að taka hýðið af engifernum áður með skeið, það er auðveldlega skafið af).