Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja
Matarkrókurinn 29. júlí 2024

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Hásumar á Íslandinu fagra, á góðum degi, sólin skín jafnvel, kannski er ekki hávaðarok, við njótum okkar í tveggja stafa hitatölum, þá er nú gott til að magna upp stemninguna að rífa fram grillið og svellkaldan drykk til að kæla okkar besta fólk.

Grilldrottningar, -kónga og -kvár, hvort sem þau smella grilltöngum í takt við sumarsmellinn í útvarpinu heima eða í útilegunni. Á grillinu í þetta skiptið eru íslensk nautasteik og bleikja. Nánar tiltekið nautahryggvöðvi og heilt bleikjuflak, meðlætið er afskaplega einfalt því við nennum engu veseni núna, við erum bara að njóta sumarsins.

Bleikja er afskaplega góður matfiskur, hvort sem hún er villt eða úr eldi og uppáhalds á grillið. Ég ráðlegg fólki að kaupa ekki marineraðan fisk í búðinni, heldur hrein flök. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður, þið viljið ráða bragðinu sjálf, og svo hitt að fiskurinn sem liggur í marineringu og sósum í fiskborðinu er ekki alltaf sá ferskasti í búðinni þann daginn.

Nautahryggvöðvi er oftast borin fram „medium rare“ en smekkur okkar er auðvitað misjafn, til að ná réttri niðurstöðu fyrir ykkar smekk er nauðsyn að nota rafrænan kjarnhitamæli sem er hægt að nálgast víða fyrir litla peninga, bestir eru mælar sem hafa langan vír sem leyfir að stjórnborðið sem er úr plasti sé utan við grillið eða ofninn. Það er óþarfi að kaupa slíka mæla merkta amerísku grillmerki sem kosta alla jafna hálfan handlegg. Heldur t.d. bara það sem finnst í næstu matvöruverslun eða hjá sænsku húsgagnabúðinni í hrauninu í gamla Garðahreppi.

Grilluð bleikja, kryddjurtasósa og salat með sultuðum rauðlauk

1 kg bleikjuflök
Matarolía
Salt
1⁄2 sítróna

Skolið og þerrið flökin vel, penslið með olíu og saltið. Grillið á meðalheitu grilli sem hefur verið hreinsað vel, látið roðið snúa upp. Notið góðan spaða og snúið flakinu og klárið eldun með roðið niður. Penslið sítrónuna og grillið með fiskinum, kreistið safann yfir fiskinn eftir eldun.

Sultaður rauðlaukur

1 rauðlaukur
1 dl eplaedik
1 dl vatn
100 g sykur

Blandið ediki,vatni og sykri í pott og hitið að suðu, sneiðið laukinn þunnt. Hellið heitum vökvanum yfir og látið standa. Athugið að hér er tilvalið að margfalda magnið, sultaður laukur geymist vikum saman í kæli og passar vel með mörgu.

Kryddjurtasósa

Hnefafylli fersk steinselja
Hnefafylli ferskur graslaukur
1 hvítlauksrif
2 dl matarolía
Salt
1⁄2 sítróna

Saxið fínt jurtir og hvítlauk, eða maukið með olíunni í blandara, smakkið til með sítrónusafa og salti.

Ferskt salat með sultuðum rauðlauk

Gott salat
Smátómatar
Fræ og eða hnetur
Sultaður rauðlaukur
Blandið eftir smekk.

Grillaður íslenskur nautahryggvöðvi og kartöflur

1 kg nautahryggvöði, 4 steikur
Matarolía
Garðablóðberg
Hvítlaukur
Salt
Nýmulinn svartur pipar
Bökunarkartöflur

Veljið helst fitusprengt naut hvort sem þið grillið eða steikið, hér sem við önnur tilefni er best að leyfa steikinni að ná stofuhita í 1–2 klst. áður en hún er elduð. Takið úr umbúðum, þerrið og marinerið í olíu, með garðablóðbergi og mörðum hvítlauksrifjum. Skerið bökunarkartöflur í sneiðar eða báta, penslið með olíu. Hitið grillið vel og grillið kartöflurnar á báðum hliðum og saltið, færið á eldfastan bakka og klárið eldun á óbeinum hita á grillinu, eða í ofni.

Takið steikina úr marineringunni, saltið ríflega á öllum hliðum og látið standa í 5 mínútur. Grillið á háum hita í upphafi til að fá fallegar rendur í steikina, færið á lægri hita og eldið eftir smekk, fyrir minn smekk tek ég steikina af í 53–45°C kjarnhita, pipra steikina fyrst þá vegna þess að pipar brennur auðveldlega á grilli, og læt steikina hvíla undir álpappír við stofuhita í 15 mínútur áður en ég ber matinn fram.

Grænpipar majo

4 dl gott majones
1 dl grísk jógúrt 
1 msk. grænpipar (niðursoðinn)
1 msk. hunang
Sítrónusafi

Notið niðursoðinn grænpipar, sem er í vatni og fæst ýmist í litlum krukkum eða niðursuðudósum. Saxið fínt helminginn af piparnum og hrærið saman við majones, jógúrt og hunang. Smakkið til með salti og sítrónusafa. Ef þið eigin ferskan graslauk eða vorkauk er tilvalið að bæta honum við til að fríska upp á sósuna.

Steiktir sveppir

Kjörsveppir
Kastaníusveppir
Matarolía
Smjör
Salt

Mér finnst að allir sveppir eigi skilið gott smjörbað áður en þeir eru borðaðir, steikið sveppina á vel heitri pönnu, fyrst með olíu og bætið svo smjöri við og saltið. Best er ef þið getið haft pönnuna á grillinu á meðan þið eldið steikina.

Vandamál eplabónda í Kópavogi
Matarkrókurinn 16. október 2024

Vandamál eplabónda í Kópavogi

Ég segi ekki að Bændasamtökin séu á bakinu á mér með að skrá mig í félagið en tæ...

Kjötsúpa
Matarkrókurinn 2. október 2024

Kjötsúpa

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins en samt ekki. Allir og allar fjölsk...

Subbu-Jobbi
Matarkrókurinn 18. september 2024

Subbu-Jobbi

Nú þegar skólarnir eru að byrja veitir ekki af því að æfa sig í frægustu samloku...

Piparosta-grísapasta
Matarkrókurinn 21. ágúst 2024

Piparosta-grísapasta

Eftir gular viðvaranir og alla þessa rigningu hættir sér ekki nokkur út að grill...

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja
Matarkrókurinn 29. júlí 2024

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja

Hásumar á Íslandinu fagra, á góðum degi, sólin skín jafnvel, kannski er ekki háv...

Stórkarlasteik
Matarkrókurinn 5. júlí 2024

Stórkarlasteik

Nú fara jafnvel eldavélafælnustu karlpungar landsins að taka sér stöðu við grill...

Reykt svín og remúlaði
Matarkrókurinn 6. júní 2024

Reykt svín og remúlaði

Munurinn á heitreyktum og kaldreyktum mat er heilmikill.

Eitthvað ofan á brauð
Matarkrókurinn 10. maí 2024

Eitthvað ofan á brauð

Ef smjör er ekki eitt af sjö undrum veraldar þá hlýtur það að vera númer átta. N...