Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
 Hörður Sigurðarson, framkvæmdastjóri BÍL.
Hörður Sigurðarson, framkvæmdastjóri BÍL.
Menning 16. janúar 2023

Allt á uppleið með nýju ári

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Hörður Sigurðarson , framkvæmdastjóri BÍL, gefur okkur stöðuna á áhugaleikhúsum landsins eftir að starfsemin hefur legið í dvala í rúm tvö ár.

Já, öll starfsemi litaðist fram á sumar síðasta árs af Covid-veirunni en mikið líf hefur verið í áhugaleikhúsunum frá því í haust og félögin virðast hafa hrist þetta alveg af sér,“ segir Hörður Sigurðarson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leikfélaga.

„Staðan núna er mjög ánægjuleg eins og gefur að skilja og gaman að segja frá því að nokkur ný félög hafa verið sett á laggirnar, þá bæði glæný svo og önnur sem hafa vaknað úr dvala eftir mörg ár. Það hefur ef til vill kitlað fólk að endurvekja félög, eftir að hafa þurft að þreyja tíð Covid sem hefur í mörgum tilvikum lagst á sálina. Andinn þarf einhverja útrás!“ segir Hörður brosandi.

Starfsemin komin á réttan kjöl

Hörður segir starfsemina eins og hún er núna svo að segja komna á réttan kjöl. Hann útbjó nú í haust einblöðung sem skýrir stjórnum félaga áhugaleikhúsa þær skyldur sem þær hafa gagnvart Bandalaginu, svo og þær skyldur sem Bandalagið ber gagnvart félögunum. „Þetta ekki síst ætlað stjórnum nýrra félaga,“ heldur Hörður áfram, „en svo er nokkuð um að verið sé að skipta um stjórnir í eldri félögum og þá er gott að vera upplýstur um hvernig þetta fer allt fram. Þeir sem hafa áhuga á að fá þessar upplýsingar mega gjarnan hafa samband við mig.“

Árið í heild

„Árið hjá okkur núna lítur vel út,“ heldur Hörður áfram, „flest í föstum skorðum og bjart fram undan. Við bjóðum að venju upp á Leiklistarskólann okkar sem rekinn hefur verið á sumrin í rúm 25 ár. Mögulega verður skólinn núna á nýjum stað. Hann hefur verið rekinn að Reykjum í Hrútafirði í mörg ár en við færum okkur nú líklega að Laugum í Sælingsdal.“

Nýr staður þýðir breytingar og nýjar áskoranir og það er ákveðin spenna í kringum það. Meðal annars er Bandalag íslenskra leikfélaga meðlimur norrænu samtakanna NEATA, North European Amateur Theatre Association (Samtök sam- banda áhugaleikhúsa á Norður- löndunum og í Eystrasaltsríkjunum).

Starfsemi NEATA leið fyrir Covid eins og víða en samtökin hlutu þó nýverið styrk til þess að halda fundaröð með það fyrir augum að leggja línurnar fyrir samstarfið næstu ár.

Hátíðir og húllumhæ

„Þetta er í raun þriggja funda röð, segir Hörður, fyrsti fundur var í Helsinki nú í nóvember, sá næsti verður í Litáen í mars og sá þriðji áætlaður hér í Reykjavík nk. október. Þetta eru níu lönd sem eru í samtökum NEATA og samtals tólf manns sem mæta á fundina til skipulagningar. Samtök NEATA hafa haldið með jöfnu millibili leiklistarhátíðir þar sem löndin koma saman og sýna valin verk. Þetta raskaðist auðvitað vegna ástandsins, síðasta stóra hátíð var haldin árið 2018 en vonast er til að hægt verði að taka upp þráðinn, og þá í Noregi, árið 2024. Þannig að það er allt á uppleið,“ segir Hörður. „Að lokum vil ég þó endurtaka hversu ánægjulegt er að sjá hve mikið líf hefur færst í starfsemi áhugaleikhúsanna eftir erfiða tíð. Starfsemin er að komast í eðlilegt horf ef svo má segja og nýir sprotar að spretta upp.“

Með það í huga er rétt að hvetja sem flesta til að kynna sér starfsemi áhugaleikhúsanna og jafnvel athuga hvort væri ekki skemmtilegt að ganga til liðs við eitt slíkt, enda mikið um að vera, allir velkomnir að rétta fram hönd eða jafnvel stíga á sviðið.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...