Bréf frá Önnu
Leikfélagið Lauga á Snæfellsbæ, stendur nú fyrir æsilegri morðgátu sem bæði kitlar hláturtaugarnar og fær hárin til að rísa.
Var leikfélagið endurreist í fyrra á stoðum Leikfélags Ólafsvíkur eins og frægt er orðið og muna glöggir lesendur eftir því að nafngiftin Lauga var til heiðurs Sigurlaugu Heiðrúnu Jóhannsdóttur heitinni, formanni Leikfélags Ólafsvíkur til margra ára.
Völdu leikhúsmenn að þessu sinni að fara alveg í öfuga átt við síðast, þegar gamanleikritið Sex í sama rúmi var sett í sýningu, og setja nú á svið „morðgátu“ sem þau staðfærðu og gerist í þeirra nærumhverfi á Snæfellsnesinu.
Leikstjóri að þessu sinni er Halldóra Unnarsdóttir en þetta er í fyrsta sinn sem hún tekur svona verkefni að sér. Nafn leikritsins er Bréf frá Önnu og er eins og áður sagði morðgáta en með glettnu ívafi.
Sýningar verða að þessu sinni í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík og áætlað er að sýna fjórar sýningar.
Svipað og í fyrra munu leikhúsgestir njóta hæfileika leikara sem sumir hafa aldrei farið á svið og
annarra sem hafa mikla reynslu.
Þarna er frábær hópur á ferð sem hlakkar mikið til að taka á móti sýningargestum og valda þeim heilabrotum um hver morðinginn er ... alla sýninguna!
Frumsýning var 17. nóvember önnur. sýning 18. nóvember, og þriðja sýning verður 22. nóvember og sú fjórða áætluð þann 24. nóvember. Miða er hægt að nálgast hjá þeim Sóleyju í síma 848 1505 og Nönnu í síma 865 7491 en miðaverð er 3.900 og posi á staðnum. Og nú er bara að skella sér á miða sem fyrst!