Einu sinni á Eyrarbakka
Rúm áttatíu ár eru liðin frá stofnun Leikfélags Eyrarbakka sem var afar virkt fram á 6. áratuginn.
Hafði leikfélagið legið í dvala þar til snemma hausts í fyrra, er þær stöllur Hera Fjord, Sesselja Pálsdóttir og Hulda Ólafsdóttir tóku af skarið og boðuðu stofnfund sem vel var mætt á og félagar í dag yfir þriðja tug talsins. Leikfélagið hlaut á dögunum styrkveitingu Uppbyggingarsjóðs Suðurlands, alls 800.000kr., með það fyrir augum að setja upp stuttverkadagskrá nú í mars.
Segir Sesselja, nú formaður, að leiksýningin, sem hlaut nafnið Einu sinni á Eyrarbakka, sé samin af félögum leikfélagsins og standi alls þrettán leikarar á sviði undir leikstjórn Huldu Ólafsdóttur. Semur Hulda einnig samsöngslögin auk söngtextanna í Eyrarbakkasyrpunni, en tónlist er eftir Birki Örvarsson. Eftirfarandi sýning telur þessa þætti:
Óhugur eftir Guðmund Brynjólfsson. Fjallar verkið um lífsbaráttu sjávarþorpa, enda um aldir hörð og sambúð manns og sjávar ströng. Brugðið er upp svipmynd alþýðuheimilis á Eyrarbakka um aldamótin 1900 þar sem fylgst er með þremur ættliðum kvenna.
Eyrarbakkasyrpa eftir Huldu Ólafsdóttur. Um ræðir fjóra leikna þætti um líf og starf fólks síðustu alda, þ.á m. leikgerð upp úr bók Eyrúnar Ingadóttur um Þórdísi ljósmóður, ásamt rímuðum brag sem tengir þættina saman.
Myndbandið Lilja mín, eftir Sesselju Pálsdóttur. Þar má sjá skáldað líf Lilju frá æsku, búsettri á Eyrarbakka. Söngtexti er einnig eftir höfund en lag eftir Norbert Schultze og söngur í flutningi Gerðar Eðvarðsdóttir.
Bíltúrinn, einnig eftir Sesselju Pálsdóttur. Þar segir frá þegar Ölfusárbrú brast þann 6. september árið 1944 og þurfti að ferja bæði fólk og vörur yfir. Um viku síðar hljóp svo mikill vöxtur í ána að öll umferð yfir hana stöðvaðist og mjólkurlaust varð á Eyrarbakka.
Sýningar og miðakaup
Sýnt verður í Byggðasafni Árnesinga, miðaverð kr. 3900, en miða má panta á vefsíðu tix eða í síma 551 3800 á milli klukkan 12–16. Athugið að miðasala verður ekki við innganginn.
Uppselt er á frumsýninguna þann 9. mars, en sýnt verður áfram þann 16. mars kl. 20 og svo 17., 23. og 24. mars kl. 16.