Gerum okkur dagamun
Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það til hliðsjónar mun í næstu blöðum birtast yfirlit yfir helstu skemmtanir og húllumhæ hérlendis.
Hér fyrir neðan er svo örlítið yfirlit það sem helst er á döfinni í júnímánuði, fyrir þá sem vilja gera sér dagamun, en uppákomur næstu vikna verða á dagskrá í næstu blöðum. Hér er um auðugan garð að gresja og næsta víst að ekki komist allt á lista.
Hins vegar fyrir þá sem vilja koma á framfæri hvers konar skemmtunum, opnunum eða uppákomum, má hafa samband í gegnum netfangið sigrunpeturs@bondi.is og við reynum okkar besta til að koma því að.
Í júníbyrjun ár hvert, nánar tiltekið fyrsta sunnudag júnímánaðar, hefur sjómannadagurinn verið haldinn hátíðlegur síðan árið 1938. (Rétt er að geta þess að ef hvítasunnu ber upp á þann dag, eru hátíðahöld sjómannadagsins annan sunnudag mánaðarins).
Um ræðir hátíðisdag allra sjómanna, nú fjölskylduhátíð, en frá árinu 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna.Verða hátíðahöldin í ár þann 2. júní.
Aðstandendur metalfestivalsins SÁTAN bjóða gesti velkomna á þriggja daga þungarokkshátíð sem haldin verður í Stykkishólmi á Snæfellsnesi dagana 6.-8. júní.
Lögð er áhersla á að bjóða upp á fjölbreytt og þétt úrval hljómsveita, bæði íslenskra sem og erlendis frá, en samkvæmt vefsíðu hátíðarinnar er markmiðið að viðstaddir fari heim með bros á vör og gleði í hjarta. Skýrt er tekið fram að ofbeldi ógildi aðgangsmiðann og munu vökul augu starfsmanna taka fyrir slíka hegðan. Hægt er að kaupa bæði dags- og helgarpassa en alls verða 24 hljómsveitir á sviðinu.
Bíladagar á Akureyri, einn stærsti íþróttaviðburður sinnar tegundar sem haldinn er hérlendis, býður upp á ógrynni áhugaverðra viðburða fyrir bílaáhugamenn, unga sem aldna, enda árleg hátíð bílaáhugafólks um áraraðir.
Hefur hátíð Bíladaga á Akureyri sem slík verið haldin frá árinu 1996 en sýningin sjálf, þann 17. júní, haldin frá árinu 1974. Sífellt stækkandi hátíðahöld fjölbreyttra viðburða þar sem aðsókn eykst með hverju árinu.
Opnun sýningar Baskaseturs á Djúpavík dagana 6.-8. júní tengir saman íslenskan og baskneskan menningararf.
Xabier Agote, forstjóri Albaola, mun leiðbeina við smíði „txalupa“ léttabáts á bátasmíðanámskeiði sem haldið verður dagana 3.-5. júní í Iðunni fræðslusetri. Dagana 7.–8. júní verður málþing á ensku um sögu Baska á Íslandi, að viðstöddum Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands, og José Carlos Esteso Lema, sendifulltrúa Spánar. Verður meðal annars farið yfir samskipti Baska og Íslendinga, Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur kortleggur viðveru Baska á Ströndum, bæði ofan- og neðansjávar, basknesk-íslensk orðasöfn verða kynnt, svo og basknesk matargerð.
Xabier Agote, forstjóri Albaola í Baskahéruðum Spánar, segir frá leyndardómum hinna basknesku léttabáta, „txalupa“, sjá má eftirlíkingu af einum slíkum og áfram mætti lengi telja.
Júnímánuður
Fyrsta helgin, 30. maí–2. júní
Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa í Flóahrepp býður gestum upp á notalegar móttökur dagana 31. maí–2. júní, auk þess sem spákonan Jóhanna les í tarotspil og rúnir. Kvöldvaka, grill og tónlist, opin hús og kökuskreytingarkeppni barna eru meðal atriða.
Listahátíð verður haldin í Reykjavík dagana 1.–16. júní. Meðal annars taka Listahátíð í Reykjavík, sirkuslistahópurinn Hringleikur og leikgervastúdíóið Pilkington Props höndum saman í nýju, íslensku götuleikhúsverki fyrir alla fjölskylduna, Sæskrímslin, og kynna viðstöddum hinar ótrúlegustu kynjaverur þann 1. júní í Reykjavík. Fara kynjaverurnar víðar um landið, t.a.m. á Akranes þann 4. júní, á Ísafjörð 8. júní, Húsavík 12. júní og í Neskaupstað þann 15. júní.
Þann 1. júní fer matarupplifunin GRÁSLEPPAN fram á Bakkafirði, verkefnið „Grásleppugæði – sælgæti sjávar“, sem unnið er í samstarfi Bakkasystra ehf., Bjargsins ehf. á Bakkafirði, ásamt Biopol ehf. á Skagaströnd og Háskólans á Akureyri.
Í kringum 30. maí–2. júní má finna sjómannadagshátíðir í hverjum landshluta enda viðburður allrar þjóðarinnar. Á Suðureyri verður fjölskyldubingó björgunarsveitarinnar Bjargar í FSÚ á milli kl. 20–22 þann 31. maí og full dagskrá frá kl. 10 þann 1. júní sem endar með dansleik Papa og Celebs klukkan 22.30. Á sunnudeginum er svo dagskrá frá kl. 14. Heljarinnar gleði verður á Patreksfirði sem hefst 30. maí á víðavangshlaupi, götugrilli og skemmtun. Viðamikil dagskrá heldur áfram fram á sunnudag og lýkur með hnallþórukaffi í boði kvenfélagsins. Ókeypis tónleikar Siggu Beinteins og Páls Óskars ásamt Stuðlabandinu verða á föstudeginum en daginn eftir verður selt inn á stórdansleik Stuðlabandsins og aldurstakmark 18 ára.
Önnur helgin, 6.–9. júní
Þriggja daga þungarokkshátíðin SÁTAN verður haldin í Stykkishólmi dagana 6.–8. júní.
Þann 6. júní hefst Sumarlestur, skemmtilegt lestrarátak Bókasafns Árborgar á Selfossi fyrir börn, en þema þessa sumars er Barnabóka- hetjur heimsins. Bókasöfn víða um land standa að sama skapi fyrir viðlíku og um að gera að tékka á því.
Prjónahátíðin Prjónagleði verður haldin á Blönduósi en um ræðir vettvang til að miðla prjónagleði í öllum sínum fjölbreytileika 7.–9. júní.
Litahlaupið – The Color Run fer fram í Reykjavík þann 8. júní.
7.–9. júní verður þriggja daga listahátíð, INTO festival, haldin í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Um ræðir alþjóðlega hátíð skapandi fólks og er m.a. boðið upp á myndlistarsýningar, gjörninga, útilistaverk, tónleika og ljóðalestur.
Opnun sýningar Baskaseturs á Djúpavík með vinnustofu, málþingi og tónleikum, dagana 6.–8. júní og gestum boðið upp á áhugaverða kynningu sameiginlegs menningararfs Íslendinga og Baska.
8. júní – Sæskrímslin mætt á Ísafjörð!
Þann 8. júní verður gengið á Reyðarfirði í fararstjórn Kristins Þorsteinssonar. Haldið verður frá Karlsskála út með Brúnum undir Karlsskáladal og upp undir Snæfugl. Mæting klukkan 10 við afleggjarann að Vöðlavík, en frekari uppl. má fá í síma 864 7694.
12. júní – Sæskrímslin mætt á Húsavík!
Þriðja helgin, 13.–16. júní
Bíladagar á Akureyri fara fram með pomp og prakt í tæpa viku, 13.–17. júní nk. en um ræðir einn stærsta íþróttaviðburð sinnar tegundar sem haldinn er hérlendis.
Dagana 13.–18. júní fer Víkingahátíðin í Hafnarfirði fram á Víðistaðatúni þar sem gestir geta m.a. upplifað eldsmíði, jurtalitun og bogfimi auk tónlistar hljómsveitanna Krauku og Hrafnboða.
Bráðskemmtileg bæjarhátíð, Hofsós heim, verður haldin dagana 14.–16. júní, dansiböll, gleði og glaumur.
Berjadagar á Ólafsfirði dagana 14.–17. júní er fjölskylduvæn tónlistar- hátíð klassískrar tónlistar, djass, brasilískrar tónlistar, þjóðlaga, íslenskra sönglaga og óperu.
Þjóðhátíðardagur Íslands, 17. júní, er haldinn hátíðlegur ár hvert um allt land svo má nærri geta að heilmikil stemning verði hvarvetna.
Salthúsmarkaðurinn á Stöðvarfirði opnar dyr sínar þann 18. júní en opið verður alla daga í sumar frá kl. 10–17. Er markaðurinn rekinn af félagi eldri borgara á Stöðvarfirði, en versla má m.a. íslenskt handverk, bakstur og annað. Fyrir heimsóknir utan venjulegs opnunartíma má hringja í 8960349/8938861.
15. júní- Sæskrímslin mætt í Neskaupstað!