Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Gömul tún
Menning 13. maí 2024

Gömul tún

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Jóni Trausta. Guðmundur Magnússon (1873–1918) bar skáldanafnið Jón Trausti.

Jón Trausti

Hann fæddist á Rifi á Melrakkasléttu, missti föður sinn ungur og ólst upp í fátækt með móður sinni, síðast á bænum Núpskötlu, austan Rauðanúps á norðvesturhorni Melrakkasléttu.

Jón Trausti hóf ungur prentnám hjá ritstjóra Austra á Seyðisfirði og starfaði við Ísafoldarprentsmiðju í Reykjavík 1895. Hann kynntist Daniel Bruun, dönskum fornleifafræðingi og rithöfundi, og fór árið eftir til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði prentnám í tvö ár. Árið 1898 kvæntist hann Guðrúnu Sigurðardóttur og áttu þau kjördótturina Mörtu Magnúsdóttur. Þau voru búsett í Reykjavík, en þar starfaði Jón Trausti m.a. við prentiðn, verslun, kennslu og var skrifari í Stjórnarráðinu, auk ritstarfa. Hann var jafnframt myndlistarmaður og málaði einkum landslag.

Jón Trausti skrifaði fjölda skáldsagna, langar og stuttar, auk smásagna. Hann sendi fyrst frá sér kvæðasafnið Heima og erlendis árið 1899 og eftir það rak hver bókin aðra. M.a. önnur ljóðabók hans, Íslandsvísur, árið 1903, sem prýdd er myndum eftir hann sjálfan og Þórarin B. Þorláksson listmálara. Þar er til dæmis að finna Íslandsvísur, sem hefjast á ljóðlínunni Ég vil elska mitt land, og Draumalandið, en bæðu urðu vinsæl sönglög.

Þekktustu skáldsögur hans eru Halla, framhald hennar Heiðarbýlið og Anna frá Stóruborg. Hann var ekki óumdeildur og þóttist fólk t.d. iðulega þekkja persónur og leikendur í sögum hans úr raunheimum og hnjóðaði í hann fyrir.

Jón Trausti lést úr spænsku veikinni árið 1918, aðeins hálffimmtugur. Guðmundur G. Hagalín, rithöfundur og ritstjóri, lýsti honum í minningargrein í öndverðum desember 1918 sem manni „sem er höfði hærri fjöldanum, tendrar kyndla á brautum hans og verða þess valdandi, að hann litast um á vegum sínum og í sál sinni“. Einnig: „Með Guðmundi hefst hin lengri skáldsagnaritun í bókmenntum vorum. Veldur hann þar því straumhvörfum.“

„... Líti menn yfir þessi heiðalönd á sumrin, ber fyrir augu þeirra ljósgula bletti til og frá, sem stinga í stúf við holtin og móana, víðirunna og birkibrekkurnar. Það eru gömul tún. Þar liggja heiðabýlin - í eyði. Túnin bera enn þá valllendislit; þar, sem einu sinni hefir verið rækt í jarðveginum, er hún sein að hverfa með öllu. Heiðabýlin hafa staðið í hvömmunum við rætur fjallanna, á bökkum lækjanna eða nesjum veiðivatnanna - ætíð þar, sem fegurst er og bjargvænlegast. Alls staðar eru garðabrot umhverfis túnin; sums staðar hver girðingin annarri utar. Þær sýna, að starfsamar hendur hafa þar að unnið. En í túnunum miðjum eru vallgrónar tóftir, signar saman og sokknar í jörðina. Undarlegar tilfinningar grípa flesta, sem staldra við hjá þessum eyðibýlum. Þar hafa menn búið fyrir öldum eða áratugum. Enginn veit, hve gömul mannvirkin eru. Hvað hefir rekið þessa menn eða dregið hingað upp í óbyggðir? Hvernig hefir búskapur þeirra gengið? Hvernig hefir honum lokið? Spurningar eru nægar. Svör engin. Oft veit enginn, hver búið hefir þar síðast. Stundum er bæjarnafnið glatað líka. Byggðamenn hafa oft haft ímugust á þessum býlum og litið á þá menn tortryggnisaugum, sem þangað hafa flutt. Það hefir gert þeim baráttuna tvöfalt þyngri. Það hefir einnig fælt aðra frá að flytja á eftir þeim, svipt þá nágrannahjálpinni. Almenningsálitið er máttugt - hvað vitlaust sem það er. Stundum hefir þessi tortryggni ekki verið ástæðulaus. Oftar hefir hún þó verið því einu að kenna, að þessir menn voru einrænir í lund, sjálfstæðir og framgjarnir, hirtu ekki um leið fjöldans. Ástæður manna geta verið margar og sundurleitar. ...“

Heiðarbýlið I - Barnið, 1908, inngangur.

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...