Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Veðurglöggur jaðrakan
Menning 12. júní 2024

Veðurglöggur jaðrakan

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Sigurði Ægissyni.

Sigurður Ægisson

Sigurður er fæddur árið 1958, prestur, þjóðfræðingur og rithöfundur. Sóknarprestur á Siglufirði frá 2001. Hafði áður verið sóknarprestur á Djúpavogi, Bolungarvík og Grenjaðarstað og aðstoðarprestur í Noregi um skeið.

Sigurður hefur sent frá sér fjölmargar fróðlegar bækur, svo sem: Völvur á Íslandi, Hrafninn - þjóðin, sagan, þjóðtrúin, Íslenskar kynjaskepnur, Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin, Gústi alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn, Hvalir, Fugladagbókin, Íslenska Biblían, ágrip rúmlega fjögurra alda sögu, auk bóka með fleiri höfundum.

Hann vinnur nú að skrifum æviminninga Karólínu Elísabetardóttur í Hvammshlíð, þýsks bónda, frumkvöðuls og verkfræðings, nú með íslenskan ríkisborgararétt. Segir Sigurður sögu hennar m.a. merka fyrir að hún hafi leitt saman alþjóðlegt teymi sérfræðinga til að vinna bug á riðuveikinni.

... „Þegar jaðrakan kom í nýslegin og hirt tún seinni hluta dags, sem var honum eðlilegast, var hægt að ráða veður næstu daga af látbragði hans. Væri hann kvikur og vappaði hratt um túnið og léti eins og hann hefði ekki tíma til að gæta vel að æti sínu, vissi það á rosa, og því lengur sem hann var órólegri. Væri hann mjög hnarreistur og bæri sig fatt og stikaði löngum sporum um túnið, en hann er fugla hálslengstur og fótahæstur, þá vissi það á langan rosa. Sumir sögðu jafnvel langan rosakafla. Sumir sögðu og, að hann sönglaði þá með gleði hljómmikilli rödd: „Santuí“.

En kæmi hann með hægð í túnin, færi að tínslu sinni á ánamöðkum og öðru með gætni og hógværð, kroppaði með rólegheitum og stikaði ekki löngum skrefum um túnið, heldur færi hægt og rólega, án þess að sýna á sér nokkurn hraða, þá vissi það á þerri og jafnvel langan, því lengri, sem jaðrakan var rólegri. Hann söng þá með hvellri röddu og oft hljómmikilli: „Turruí“. Söngur hans var þá oft tilkomumikill, og var ánægja að heyra í hann.

Á engjaslætti kom jaðrakan á stundum í nýhirtan teig. Hann leitaði sér þar að æti, og var hann alltaf látinn í friði við það, eins og heima á túnum. Hann hafði þá yfir sama sönginn, og hér er greint að framan. Veittu bændur honum athygli og fóru eftir honum og spádómum hans. Spádómar hans brugðust aldrei, og var hann veðurglöggur með afbrigðum, og ég held, að enginn fugl hafi tekið honum fram í þeirri grein, nema ef vera skyldi himbriminn. Þess má geta, að oftar þegar jaðrakan kom í teig á sumrin, nýhirtan, vissi það á rosa, eða réttara sagt hann spáði rosa. Var hann því ekki eins mikill aufúsugestur þar og í nýhirt tún.

Fleiri voru einnig spádómsmerki flóajaðrakans, er þeir skildu einir, er glöggir voru og færir í fuglafræðum og miklir veðurfarsmenn, eins og það var nefnt áður fyrr. Á stundum er glíjur voru, var jaðrakan oft mjög nærgöngull í teigi og settist jafnvel milli flekka til að tína sér æti. Brást þá aldrei, að langur rosi var í vændum.

Sama var að segja, ef hann var mjög nærgöngull við menn í teigi seinni hluta dags, ef brá af um stund er þurrklaust var. Vissi það á gott veður daginn eftir og þurrk. Sumir sögðu, að það síðarnefnda vissi á skúrir daginn eftir og nokkra glíju eða flæsu, lina og gagnslausa.“ (Jón Gíslason frá Stóru Reykjum í Hraungerðishreppi í Flóa (Úr farvegi aldanna, 1974)). ...

Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin, Sigurður Ægisson, Bókaútgáfan Hólar efh., 2020, bls. 173-4.

Rosi: regn, óþurrkar og vindasöm veðrátta.
Glíja (glýja) og flæsa: þurrkflæsur, daufur þerrir eða þokuslæða, skammvinnur heyþurrkur, léleg þerrigola, glatt en skammvinnt sólskin.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...