Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Hyundai Ioniq 6 er kóreskur fjölskyldubíll með mikið rými fyrir farþega miðað við hversu sportlegur hann er í útliti. Þetta er vel útbúið og vandað ökutæki sem stenst ágætlega samanburð.
Hyundai Ioniq 6 er kóreskur fjölskyldubíll með mikið rými fyrir farþega miðað við hversu sportlegur hann er í útliti. Þetta er vel útbúið og vandað ökutæki sem stenst ágætlega samanburð.
Mynd / ál
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með afgerandi útlit.

Hér er á ferðinni ökutæki sem er afar sportlegt á að líta. Þegar horft er á bílinn fyrst að framan gætu sumir þurft smátíma til að ákveða sig hvort þeim finnist bíllinn lúðalegur eða töff, en ekki er víst hvort framljósin höfði til allra. Undirritaður tók hann í sátt eftir nokkurra daga notkun.

Frá hlið sést hversu langur bíllinn er. Formið er jafnframt mjög einkennandi og minnir að vissu leyti á hvernig hugmyndabílar framtíðarinnar voru í huga hönnuða um miðja síðustu öld. Þökk sé afturljósinu sem nær yfir allan afturendann, hinu aflíðandi þaki og tveimur vindskeiðum er skiljanlegt ef einhverjir halda að þessi kóreski fjölskyldubíll sé í raun sportbíll frá Þýskalandi eða Ítalíu.

Klassísk innrétting

Innréttingin í þessum bíl er öll meira og minna svört eða í dökkgráum tónum. Misjafnt er hvort efnin eru mjúk eða stíf, en áferðin er yfirleitt áhugaverð. Hönnunin er mjög klassísk að því leyti að hér eru öll stjórntæki og takkar til staðar, eins og til að eiga við hljóðstyrk í útvarpi eða stilla hitann.

Stýrið er með hnappa fyrir útvarp, hraðastilli og akstursstillingu. Á bak við stýrishjólið eru tveir flipar til að auka eða minnka ákefð mótorbremsunnar. Þá eru stangirnar fyrir ljós og rúðuþurrkurnar á sínum stað og rétt hjá þeim gírstöngin.

Stýrikerfið í snertiskjánum er nokkuð viðamikið en aðgengilegt þannig að flestir ættu að ná tökum á því hratt og örugglega. Neðan við skjáinn eru flýtihnappar fyrir hinar og þessar valmyndir í snertiskjánum.

Eins og með stóran hluta nýrra bíla í dag gefur þessi frá sér píp þegar ekið er yfir hámarkshraða. Hægt er að slökkva á þessu væli, en til þess þarf alltaf að fara í gegnum nokkur skref í snertiskjánum í hvert skipti sem ökutækið er ræst.

Á milli sætanna eru tveir glasahaldarar og þar undir í gólfhæð er rúmgott geymslutrog þar sem er til að mynda hægt að geyma húfur, vettlinga og innkaupapoka. Aftast í miðjustokknum er lokað hólf. Hanskahólfið er dregið út á svipaðan hátt og eldhússkúffa og er rúmgott. Hurðavasarnir eru ekkert sérlega breiðir, en eru með smádæld svo hægt sé að koma fyrir einni flösku. Fremst í miðjustokknum er þráðlaus hleðsla fyrir síma og eru nokkur usb-tengi hér og þar.

Innréttingin er dökk en vönduð.

Lítill skotthleri

Skottið í bílnum er ágætlega stórt. Hlerinn er hins vegar lítill og getur því verið erfitt að koma fyrir stærri hlutum eða nálgast eitthvað sem er alveg innst. Undir húddinu er pínulítið geymsluhólf sem rúmar einn hleðslukapal, átta samlokur eða tvo snakkpoka.

Framsætin eru þægileg og stillanleg með rafmagni. Að auki við hinar
hefðbundnu stillingar er hægt að eiga við mjóbaksstuðninginn og afstöðu sessunnar. Eins og með alla Hyundai og Kia myndi undirritaður vilja að stýrið gæti teygst út aðeins lengra, en fyrir flesta er það ekki stórvægilegt atriði. Í aftursætunum er mikið fótapláss og er gólfið alveg flatt. Hið aflíðandi þak gerir það að verkum að höfuðrýmið er skert og munu farþegar í hærri kantinum kvarta á löngum ferðalögum, en miðað við hvað þetta er sportlegur bíll mætti rýmið aftur í teljast ágætt.

Skottið er stórt en hlerinn er lítill.

Afslappandi aksturseiginleikar

Upphaf ökuferða á þessum bíl er afar hefðbundið. Þegar bílstjórinn sest um borð er bifreiðin ræst með því að ýta á hnappa á sama tíma og bremsufetlinum er haldið inni og er akstursgír valinn með gírstönginni á bak við stýrið. Hljóðvistin inni í bílnum er prýðileg, jafnvel þó að ekið sé á grófum malarvegi. Fjöðrunin er í mýkra lagi miðað við rafmagnsbíl, þó að jarðefnaeldsneytisbílar hafi yfirleitt vinninginn í þeim efnum. Útsýnið er nokkuð skert þar sem framrúðan er lág og skynjararnir við baksýnisspegilinn gera stóran blindan punkt. A-bogarnir hefðu jafnframt mátt vera örlítið grennri.

Í stýrinu er hnappur til að velja á milli akstursstillinga sem eru nefndar Normal, Sport og Eco. Sú síðastnefnda er sérlega þægileg og var notuð megnið af þessum prufuakstri. Þá verður inngjöfin löt, stýrið létt og finnst hvernig púls ökumannsins lækkar sem leiðir af sér afslappað og virðulegt aksturslag. Í sportstillingunni
er þetta sprækur bíll, eins og við er að búast af 325 hestafla ökutæki. Hvor sinn takkinn er fyrir hraðastillinn og akstursaðstoðina. Því er hægt að láta bílinn eingöngu hjálpa til við að stýra á meðan ökumaðurinn sér um inngjöfina og öfugt. Þá dettur akstursaðstoðin ekki út þó svo að ýtt sé á bremsuna, ólíkt mörgum bílum þar sem slökknar á öllu við hemlun. Allt virkar þetta fumlaust og á bíllinn yfirleitt auðvelt með að halda sér á miðri akrein og vera í öruggri fjarlægð frá næstu bifreið.

Aflíðandi þak, tvö vindskeið og áberandi ljós.

Að lokum

Á undanförnum árum hefur Hyundai eingöngu gert afbragðsgóða bíla sem eru nánast allir fallegir. Sama um hvaða bíl ræðir finnst strax að það er ökutæki sem hægt er að treysta, enda bilanatíðnin lág. Það sem Hyundai Ioniq 6 hefur umfram aðra bíla frá sama framleiðanda er að þetta ökutæki er með afar sterkan karakter. Í þessum stærðarflokki eru fjölmargir rafbílar sem eru ýmist betur eða verr verðlagðir með tilliti til útbúnaðar. Helstu mál í millimetrum eru: Breidd, 1.880; lengd, 4.855; hæð 1.495.

Ódýrasta útgáfan af Ioniq 6 nefnist Comfort og fæst í afturhjóladrifinni útgáfu á 7.590.000 krónur með vsk. og styrk frá Orkusjóði. Bíllinn í þessum prufuakstri var fjórhjóladrifinn og af Style útfærslu, sem er næsta gerð þar fyrir ofan, og kostar með styrk Orkusjóðs 8.590.000 krónur með vsk. 77,4 kílóvattstunda rafhlaðan á að gefa allt að 519 kílómetra akstursdrægni.

Nánari upplýsingar fást hjá BL sem er með umboðið fyrir Hyundai á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...