Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Að liðnu löngu vori
Á faglegum nótum 20. júlí 2015

Að liðnu löngu vori

Höfundur: Jón Viðir Jónmundsson

Nú er lokið lengsta og vinnu­frekasta vori sem íslenskir sauðfjárbændur hafa búið við síðan vorið 1979. Þá kom síðan að vísu aldrei sumar í framhaldinu. Við vonum að í ár upplifum við hins vegar hið bærilegasta sumar þó að ætíð sé varlegt að spá um framtíðina. Síðla í vetur og í vor fengu of margir sauðfjárbændur reynslu í sambandi við fóðrun og heilsufar fjárins sem var því miður þungbær. Þess vegna er nauðsynlegt að menn hugleiði nú að sauðburðarönnum afstöðnum hvað megi af þessu öllu læra.

Á síðasta hluta síðustu aldar var rekinn mikil fræðsla og jafnvel áróður af leiðbeiningaþjónustu fyrir bættri heyverkun og þar með auknum gæðum gróffóður. Á sama tíma breytast heyverkunaraðferðir í grundvallaratriðum og rúllubaggar verða hin ríkjandi heyverkunaraðferð. Í fóðrun sauðfjár verður einnig á síðustu árum  grunnbreytingar við fóðrun þess mjög víða með tilkomu gjafagrindanna. Fóðurfræðingar hafa verið iðnir að skýra breytingar í fóðrun á grunni hinna breyttu aðstæðna. Stór hópur sauðfjárbænda hefur tileinkað sér nýjungarnar og náð á þeim góðum tökum. Á síðustu áratugum hafa gróffóðurgæði í landinu breyst feikilega mikið til batnaðar og fóðrun hefur tekið stakkaskiptum til jafnari og betri fóðrunar frá því sem því miður var alltaf algengt að sjá alveg fram á áttunda áratug síðustu aldar. Á enga er hallað þó að nöfn Bjarna Guðmundssonar og Þórarins Lárussonar sé öðrum fremur nefnd í sambandi við þessar breytingar.

Síðasta sumar var, sérstaklega um vesturhluta landsins, óvenjulega úrtakasamt til fóðuröflunar. Fóður fyrir sauðfé var því  óvenjuslakt alltof víða á þessu svæði og á einstaka búi um allt land sem því miður á sér of oft stað. Jafnvel virðist í einstaka tilvikum því miður að fremur hefði átt að tala um heyfenginn sem útvatnaðan hálm en  gróffóður fyrir sauðfé. Of margir bændur stóðu því frammi fyrir aðstæðum á síðasta hausti sem þeir góðu heilli höfðu ekki þurft að takast á við í marga áratugi.

Því miður berast nú fréttir af óvenjumiklum dauða á ám víða í vetur og vor. Ég hef sjálfur verið meira á ferðinni úti um sveitir og komið í fleiri fjárhús og rætt við fleiri fjárbændur en nokkru sinni áður á mínum langa starfstíma. Því miður taldi ég mig strax um miðjan maí á ferðum um vestanvert landið sjá skugga sem ég þóttist þekkja frá áttunda áratugnum úr Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Þá strax greindi ég mönnum, sem ég veit að geta vottað, hvað í vændum væri, sem því miður gekk of mikið eftir.

Mér er ljóst að hér muni í sumum tilvikum um talsvert flókið mál að ræða. Í mínum huga eru samt tvær meginástæður fyrir því sem gerðist. Annars vegar hið gríðarlega slæma fóður sem sumir bændur áttu frá síðasta sumri og tugir bænda sem fyrir skakkaföllum hafa orðið hafa lýst fyrir mér með nákvæmlega sömu setningu; „Við vissum síðastliðið haust að við vorum með alltof léleg hey en að þau væru jafnslæm og raunin varð er óralangt frá því sem okkur gat grunað.“ Hið síðara var óvanalegt vatnsveður sem gekk yfir víða á vesturhluta landsins fyrstu vikuna í júní þar sem fremur slakt fóðrunarástand gerði hættuna enn meiri. Eins og veðrinu  hefur verið lýst fyrir mér var þetta á verstu stöðum manndrápsveður. Þetta var orð sem ég aldrei hafði skilið á mínum yngri árum, alinn upp við þurrar stórhríðar norðanlands, en fyrst þegar ég mætti slíkum veðrum, hvassviðri og kaldri rigningu á fjallvegum vestanlands skildi ég orðið. Við slíkar aðstæður verður kæling það gífurleg að jafnvel best fóðraða fé nær ekki að lifa það af.

Því sem liðið er verður ekki breytt. Hins vegar held ég að varðandi fyrri þáttinn sem ræddur er hér að framan  þurfi bændur og þeir aðilar sem þá þjónusta að meta ýmsa þætti í ljósi reynslunnar og færa margt til betri vegar. Síðari þátturinn flokkast undir náttúruvá sem er ekki í hendi eins né neins að stýra. Líklega hafa sumar eftirhreytur fyrri þáttarins einhver áhrif til að magna áhrif þess síðari eins og áður segir.

Fyrsti þátturinn sem vekur athygli er hve seint ástandið kemur í dagsljósið, þó að sumum hafi verið ljóst nokkru fyrr hvað var að gerast. Af eðlilegum ástæðum beinast augun að þeim aðila sem falið er eftirlit þessara mála samkvæmt lögum, MAST, þaðan heyrðist hvorki hósti né stuna. Starfsmenn margir að vísu komnir í verkfall þegar á vorið leið. Einnig starfrækti RML Sauðfjárskóla vestanlands alveg fram á þann tíma sem vandamál í fóðrun voru farin að birtast einhverjum án þess að kveikja á perunni hjá kennurum þar eða nemendum. Vafalítið má velta fyrir sér hvort þetta fóðrunareftirlit í eldra formi, sem mikið var áður unnið af starfsfólki búnaðarsambandanna, hefði getað forðað talsverðu tjóni. Að sjálfsögðu þjónar engu að benda á sökudólga heldur benda á hvað betur hefði mátt fara.

Sofnuðu menn á verðinum varðandi það sem síðar gerðist?

Því miður held ég megi benda þar á nokkur atriði sem styðji það. Sumarið 2014 sáu fóðurfræðingar RML hámark fóðurgæða fyrr en oftast áður og hraðara fall fóðurgæðanna en áður hafði sést. Þannig segja þeir mér að í raun hafi mestur kraftur úr grösunum verið horfinn snemma í júlí. Síðan kemur ein afleitasta heyskapartíð sem bændur muna sérstaklega á vestanverðu landinu, stöðugar rigningar, mikil spretta og verulegt magn sauðfjárfóðurs ekki slegið og hirt fyrr en í ágúst. Í allmörgum tilfellum mun  til viðbótar orku- og efnasnauðu heyi hafa bæst við að verkun tókst ekki sem skyldi. Fóðrið varð blautt og þá um leið ólystugra og stækkaði þannig enn vítahringinn. Þarna hefðu viðvörunarbjöllur hjá fóðurráðgjöfum og fleiri ráðgjöfum bænda átt að hringja fyrr og meira en raunin var. Skarpari aðvaranir en áður hefðu þurft að heyrast strax síðastliðið haust.

Um áratuga skeið hefur leiðbeininga­þjónustan talið sig vera að brýna fyrir bændum nauðsyn heysýnatöku og byggja síðan skipulag vetrar- og vorfóðrunar ánna á þeim niðurstöðum. Eftirtekjan af þeirri vinnu meðal sauðfjárbænda er líkt og raun ber vitni alltof lítil. Hér tel ég bændur verði að horfa í eigin barm. Velta þarf fyrir sér hvort í raun sé mögulegt að tala um gæðastýrða framleiðslu ef menn vita jafn lítið um aðalrekstarþátt framleiðslunnar fyrir utan bústofninn og raun ber vitni. Verða menn ekki í fullri alvöru að velta fyrir sér hvort upplýsingar um gæði fóðursins verði ekki á komandi árum að teljast nauðsynlegt skilyrði gæðastýrðrar framleiðslu?

Um áratuga skeið annaðist ég skýrslur fjárræktarfélagann og ein öfugþróun sem ég horfi þar uppá var hve hratt menn drógu úr vigtun ánna að vetrinum. Biðlaði ég oft til bænda að snúa við þessari þróun en talaði þar mjög fyrir daufum eyrum og gott betur. Meðan þessi vigtun var almenn var hún oft bölvað púl vegna þeirrar tækni sem menn bjuggu þá við. Ég tók fram að þessar upplýsingar hefðu takmarkað ræktunarlegt gildi en væru nauðsynlegt reglubundið eftirlit með fóðrun og heilbrigði ánna. Betur hefðu einhverjir á sínum tíma lesið og breytt eftir ábendingum. Í dag er þessi framkvæmd á flestum búum orðin sáraeinföld, yfirleitt aðeins að reka ærnar gegnum meira og minna sjálfvirkar vogir og lesa þungan á tölvuskjá og ætla verður að flestir geti lesið úr samanburði við síðustu vigtun. Jafnvel enn betri en vigtun er holdastigun ánna, sem því miður allt of fáir bændur hafa lært og enn færri nota. Hvaða bóndi sem er á samt að geta gert sér grein fyrir mun á á í eðlilegum holdum og þeirri sem er mjög farin að tapa holdum.

Tilfinning mín eftir vorið er, að það sé nokkur hópur yngri bænda, jafnvel dýralækna, sem betur fer  þekkir ekki lengur fyrstu áhrif vanfóðrunar hjá sauðfé. Þess vegna hefur áreiðanlega einstaka aðili áttað sig full seint á ástandi fóðrunar í hjörðinni og því dregist of lengi að grípa til aðgerða.

Þar sem slök hey eru meginorsök vandans er áreiðanlega einn þáttur þess hve mikill hann varð á einstaka stað að menn meta ástandið rétt alltof seint. Þar hefði vigtun og/eða holdastigun komið að umtalsverðum notum. Á mörgum þessum búum uppgvötast vandinn ekki fyrr en snemma í eða um miðjan apríl. Þá eru ærnar komnar í hámarks fóðurþarfir og á viðkvæmasta stig fóðrunar. Margar tilraunir til að grípa þá í taumana til að leiðrétta þróunina eru því miður dæmdar til að mistakast. Mikil kjarnfóðurgjöf skyndilega við þessar aðstæður getur valdið röskun hjá gripum í misjöfnu fóðrunarástandi.

Einn viðbótarþáttur hins slaka fóðurs er áreiðanlega sá að mörg vítamín og steinefni hafa að stórum hluta tapast úr fóðrinu eða hlutföll þeirra í fóðrinu eru orðin snarrugluð. Slíkt gerir að sjálfsögðu slæmt ástand enn verra og þau hliðaráhrif eru áreiðanlega í sumum tilvikum ástæða þess sem margir tala um hve illa og langan tíma virtist oft taka eða jafnvel ekki takast að ná ám sem farnar voru að misgangast í eðlilegt ástand aftur. Efnaskiptarugl getur tekið langan tíma að leiðrétta. Það hefur alla tíð verið þekkt að einstaka bú þar sem fóðrun öll er til fyrirmyndar lenda í fóðrunarvandræðum vegna óútskýrðrar efnaruglunar í fóðri. Slíkt hefur trúlega gerst á einstaka stað í vetur líkt og dæmi eru um ætíð áður.

Ýmsir velta fyrir sér hvort hlutur breyttrar fóðurtækni sé einhver í því sem gerst hefur. Við fóðrun á slæmu fóðri er vart vafamál að gallar gjafagrindanna koma í ljós. Við þær aðstæður stóraukast líkurnar á að einstakar ær verði útundan og misgangist. Einnig er áreiðanlegt að hjá sumum bændum verður einstaklingseftirlitið í hjörðinni ekki jafn gott og það verður alla jafnan þar sem gefið er á garða.

Hjá sumum er skortur á aðstöðu til að gefa kjarnfóður þegar fóðrað er í gjafargrindum. Gríðarlega margir bændur hafa að vísu búið við það gott gróffóður um langt árabil að kjarnfóðurgjöf er með öllu óþörf. Sem betur fer er sá hópur bænda sem viðhélt slíkri fóðrun síðasta vetur með prýðisárangri miklu miklu stærri en þeir sem mögulega lentu í misalvarlegum útafakstri. Hins vegar er það fullkominn þekkingarskortur að trúa að mögulegt hafi verið að fóðra ær á síðasta mánuði meðgöngu og á sauðburði án kjarnfóðurgjafar á þeim búum þar sem heygæði voru allra lökust.

Margir gefa steinefni og vítamín úr steinefnastömpum með frjálsum aðgangi gripa. Mér hefur verið bent á af snjöllum fóðrurum að við gjafagrindafóðrun beri stundum á óeðlilegu áti einstakra áa sem útundan verða á grindinni úr stömpunum. Velta má fyrir sér hvort slíkt geti mögulega valdið efnaröskun. Líka er spurning hvort ástæða sé til að skoða nánar samsetningu þessa fóðurs, jafnvel út frá þeim möguleika að ofát geti skapað efnaeitrun vegna þess að fyrir einstaka steinefni eru þarfamörkin hjá sauðfé ekki mjög víð.

Rúningur ánna hlýtur að sjálfsögðu ætíð að verða umræðuefni í þessu sambandi. Hér er held ég varlegast að draga nokkrar algildar ályktanir. Vegna lakari fóðurgæða en oft þá sést að sjálfsögðu talsvert af ám sem hafa ullast alltof illa síðla vetrar og í vor eftir að snoðið var rúið. Ullarvöxturinn varð undir í samkeppni við takmarkað næringarframboð, auk mögulegs misgengis í próteinnámi úr fóðrinu. Þetta hefur áreiðanlega eitthvað komið niður á ánum í júníbyrjun í rigningunni þá þar sem hún varð mest. Nokkuð ljóst er að ær í ullu eða snoði koma betur frá þessu vori en hinar en hver og einn verður að meta þá tryggingu í ljósi tekjutaps í ullarsölu.

Einn þáttur sem við vitum að hefur gerbreyst á undanförnum áratugum er sauðfjárstofninn. Þess vegna er fátt eðlilegra en að því sé velt upp hvort slíkt geti verið áhrifaþáttur sem vert sé að huga að. Ég viðurkenni að það mál getur ekki að öllu verið mér óviðkomandi. Hér er að sjálfsögðu um að ræða þá miklu minnkun fitu sem orðið hefur í stofninum. Sigurður Sigurðarson, dýralæknir, nefnir þetta sem mögulegan áhrifavald. Nú hef ég komið á fjölda búa í vor sem náð hafa hvað mestum árangri í þessum efnum á síðustu áratugum án þess að sjá hin minnstu merki slíkra áhrifa. Hins vegar get ég alveg tekið undir með Sigurði að þetta er mál sem á að skoða. Við þær aðstæður að fóðrun hafi farið úr böndunum og veðuráhlaup eins og í byrjun júní þá þykir mér hins vegar með öllu órökrétt annað en gera ráð fyrir að fituleysið bæti ekki ástand gripanna og það verður reynt að skoða þegar gögn verða fyrir hendi. Slíkt er að vísu ekki einfalt mál. Hitt verðum við að muna að stefnan hlýtur ávallt að vera hjá bændum að fé sé vel fóðrað. Það gerði að sjálfsögðu meginþorri allra sauðfjárbænda á Íslandi á síðasta vori og komst með miklum sóma frá hinu langa, kalda og erfiða vori án nokkurra meiri eða minni áfalla en gerist í eðlilegu árferði.

Það sem hér hefur verið til umræðu er ástand hjá miklum minnihluta bænda sem urðu öðru fremur fyrir óvanalegum áföllum við fóðuröflun sumarið 2014. Þau eru hins vegar þess eðli að af þeim verða allir aðilar að læra sem þessi mál koma við, bæði bændur og þjónustulið þeirra.

Sérstakur kafli þessa máls er sú yfirlýsingagleði sem vaknaði hjá sumum aðilum úr dýralæknastétt. Í nokkra daga var því haldið að þjóðinni að mögulega væri á ferðinni nýr smitandi sauðfjársjúkdómur. Bestu menn eins og Jónas vinur minn í Fagradal og margir fleiri hafa lagt trúnað á þetta út frá því sem lesa má í fjölmiðlum. Hér átti að hafa vaknað upp ný tegund smitefnis sem virtist haldin greind þannig að það hafði fyrst og fremst viðkomu á búum þar sem fóðri var óbótavant frá sumrinu áður. Í framhaldinu bættist við yfirlýsingagleði dýralæknayfirvalda hjá MAST byggð á engri tölfræði og á sér nánast engar hliðstæður hér á landi, sem betur fer.  Þetta verður ekki frekar rætt hér, þó að það væri tilefni enn lengri greinar en þessara, en í þessu máli skulda fyrrnefndir aðilar íslenskum sauðfjárbændum auðmjúka afsökun á framkomu sinni.

Þetta túlkar eingöngu mínar skoðanir en ekki á neinn hátt skoðanir þeirra stofnana sem ég hef starfað við.

 

Skylt efni: Sauðfé | fjárdauði

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...