Að vaða um allt á skítugum skónum
Nokkur umræða hefur verið um smitvarnir að undanförnu í fjölmiðlum. Öll þessi umræða á fyllilega rétt á sér sama frá hvoru sjónarhorninu hún er skoðuð.
Íslendingum hefur í gegnum árin tekist að halda frá ýmsum sjúkdómum vegna strangra laga og reglna um innflutning dýra. Það er vissulega hagur neytandans að kjöt sé til sölu á hagstæðu verði, en það er ekki hagur neins ef hugsanlega kæmi smitað kjöt til landsins og legðist á búfénað eða gæludýr um ókomna framtíð. Kjúklingabændur og gæludýraeigendur hafa hingað til sætt sig að mestu við lögin eins og þau eru, en samt kemur alltaf upp af og til smitveiki í dýrum, hrossum, fiðurfénaði og gæludýrum.
Lítið land sem hefur sérstöðu
Í mörg ár hefur verið barist við riðu, mæðuveiki og garnaveiki í sauðfé. Með mikilli vinnu og rannsóknum hefur náðst góður árangur í smitvörnum í sauðfé með varnargirðingum og ágætis forvarnarvinnu. Hestapestin fyrir nokkrum árum var viðvörun sem sýndi vel hvað getur gerst. Ef slakað er á í forvörnum til varnar smitsjúkdómum í dýrum hafa dæmin sýnt að sjúkdómar eru fljótir að fara um landið. Það er grátlegt að vita til þess að varnarveikigirðingar eru í lélegu ástandi og að ekki fáist fjármagn til þess að viðhalda þeim. Nú eru sauðfjárbændur að kaupa líflömb af ósýktum svæðum og er vert að skoða það aðeins. Að fara eftir reglum um ósýkt svæði er á ábyrgð þeirra sem inn á þau koma, það þarf að gera það með réttu hugarfari og hugsa út í að koma ekki með eitthvað sem hugsanlega gæti borið með smit og skaðað ósýkta svæðið til framtíðarinnar.
Þarf að hugsa um framtíðina fremur en núið
Fyrir rúmu ári, þegar ég byrjaði að skrifa um forvarnir hér í Bændablaðinu, var mér sögð saga sem mér verður oft hugsað til. Sagan er af bónda sem í mörg ár hefur fengið vin sinn til að hjálpa sér við smalamennsku. Eitt árið kom vinurinn með kjölturakka með sér nokkrum dögum fyrir smalamennsku á býlið. Eins og hundum er tamt byrjuðu þeir á að þefa af óæðri enda hvor annars. Sennilega hefur kjölturakkinn verið með einhvern smitsjúkdóm því að smalahundur bónda varð nánast ónothæfur til smölunar sökum ormapestar og niðurgangs. Ekki er ólíklegt að kjölturakkinn hafi verið orsökin að þessari pest. Óheftur innflutningur á dýrum og kjöti til landsins er eitthvað sem þarf að hugsa til enda. Sá sem mælir með því þarf fyrir mér að svara því hvort það sé 100% öruggt að ekki berist smit í dýr sem hugsanlega gæti breiðst út.