Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Þegar heilfóður er rétt blandað ættu gripirnir að éta ofan af strengnum en ekki grafa sig niður í hann í leit að góðgæti.
Þegar heilfóður er rétt blandað ættu gripirnir að éta ofan af strengnum en ekki grafa sig niður í hann í leit að góðgæti.
Mynd / Trioliet
Á faglegum nótum 5. desember 2023

Af hverju að gefa nautgripum heilfóður?

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Þegar farið er í fjós í helstu nágrannalöndum okkar má nánast alltaf finna heilfóður fyrir framan nautgripi, þ.e. gróffóður og fóðurbætisefni í einni blöndu.

Þessi aðferð við fóðrun nautgripa hefur einnig aukist hratt á Íslandi, en af hverju er þessi aðferð við fóðrun nautgripa svona vinsæl?

Svarið er í raun tvíþætt þar sem annars vegar má með heilfóðri, þ.e. með því að blanda saman alls konar efnum í einn „hrærigraut“, koma ofan í nautgripi hinu og þessu sem þeir myndu ella mögulega fúlsa við. Þannig hefur t.d. fundist farvegur fyrir margs konar úrgang frá matvælavinnslu, sem mögulega ekki nokkur skepna hefði litið við.

Hins vegar snýst heilfóðurgjöf einnig um að skapa þeim milljörðum örvera, sem búa í meltingarvegi kúa, stöðugt og gott umhverfi enda því betur sem kúabændur hlúa að örverunum inni í nautgripunum því betur gengur að fóðra og ná árangri.

Fóðrun örvera

Fóðrun nautgripa er í raun fóðrun örvera, þar sem vömbin skiptir höfuðmáli enda inniheldur hún marga milljarða af örverum sem hafa það hlutverk að brjóta niður fóðurefnin. Þessar örverur eru einkar slungnar við að brjóta niður ólík fóðurefni og því má í raun gefa nautgripum harla tormelt fóður og jafnvel mjög ólystugt, sem örverurnar takast á við og brjóta niður. Því betur sem við hlúum í raun að fóðrun þessara örvera, því betur tekst til með fóðrun nautgripanna.

Þetta er meginskýringin á því að heilfóður er jafn útbreitt og raun ber vitni enda er heilfóður stöðugt að gæðum, eða ætti a.m.k. að vera það, og fyrir vikið verður „vinnuumhverfi“ örveranna gott enda eru þær viðkvæmar fyrir breytingum. Ef sýrustig t.d. breytist þá hefur það mikil áhrif á örverurnar annaðhvort til aukningar á fjölda þeirra eða mikilli fækkun þeirra.

En með því að hafa fóðrið sem jafnast að gæðum og innihaldi verður umhverfið fyrir örverurnar þannig að þær ná að hámarka afköst sín og þar með nýtast fóðurefnin sem best sem næring fyrir nautgripina.

Heilfóðrun er algengasta fóðrunaraðferðin sem er notuð í dag á afurðameiri kúabúum heimsins. Mynd/Aðsend - All about feeding

Hver munnbiti eins

Hin gullna regla við heilfóðrun nautgripa er að fóðrið sé eins og að hver munnbiti verði sem líkastur þeim sem á undan fer, rétt eins og sá sem kemur á eftir. Í raun ætti moðið frá nautgripum að vera nánast eins að gæðum og upphaflega fóðrið. Það er þó eiginlega óraunhæft að gera þessa kröfu í raun, en það er afar gott að skoða vel moðið og sé það harla ólíkt því fóðri sem upphaflega var sett fyrir framan nautgripina bendir það til þess að bæta megi fóðurblöndunina.

Góð þumalfingursregla er að þegar búið er að gefa á fóðurganginn þá ættu nautgripirnir að éta jafnt ofan af fóðurstrengnum.

Ef gripirnir leitast við að „grafa“ sig niður í fóðurstrenginn bendir það til þess að fóðurblöndunin sé ekki nógu góð, að einstök gómsæt fóðurefni séu þannig aðgengileg sem gripirnir eru þá að sækjast í.

Til þess að minnka líkurnar á því að þetta gerist er lausnin oft fólgin í því að bæta vatni út í blönduna. Þá verður heilfóðrið meira klístrað og einstök fóðurefni hanga utan í gróffóðrinu í stað þess að hrynja niður í gengum fóðurstrenginn og niður á gólf.

Gott heilfóður

Til þess að útbúa rétt og gott heilfóður þarf að vera með góða uppskrift að blöndunni. Þetta er í raun í engu frábrugðið uppskrift að köku eða góðum kvöldverði.

Til þess að fá sömu niðurstöðuna þegar bakari bakar köku, eða kokkur mat, er farið af nákvæmni eftir uppskrift því ef ekki þá verður útkoman ekki einsleit frá einum degi til annars. Nákvæmlega sömu aðferðarfræði á að nota við blöndun á heilfóðri. Gera þarf uppskrift sem segir til nákvæmlega um hvaða fóðurefni á að nota, í hvaða hlutföllum og hvernig eigi að blanda þessu saman.

Svona uppskriftir eru oftast gerðar af sérfræðingum í fóðrun nautgripa og t.d. þá kemur sá sem þessa grein skrifar ekki nálægt gerð á heilfóðuruppskriftum þrátt fyrir þriggja áratuga starf á sviði nautgriparæktar.

Þetta er einfaldlega svo sérhæft fag að gerð uppskrifta á að láta sérfræðinga sjá um. Að fara eftir góðri uppskrift er aftur á móti einfalt mál, sé hún vel gerð.

Margar blöndur

Á minni kúabúum er óraunhæft að ætlast til þess að gerðar séu margar mismunandi uppskriftir fyrir ólíka hópa innan búsins og þarf þá að fara einhvern meðalveg.

Fyrir vikið verður stundum um offóðrun að ræða fyrir ákveðna hópa eða einstaklinga innan fjóssins og að sama skapi lenda aðrir í því að fá minna en þeir gætu í raun nýtt. Þess vegna hefur oftast hentað best á minni búum að gefa kjarnfóður í kjarnfóðurbás samhliða.

Þá er heilfóðurblandan með ákveðið grunnfóðrunargildi, sem líklega hentar þorra gripanna en þeir sem þurfa heldur meira geta þá sótt það í kjarnfóðurbás. Þetta veldur þó sveiflum á framangreindu nærumhverfi örveranna og nýtir ekki til fullnustu þá möguleika sem örverumeltingin býður upp á.

Á stærri búum er þetta ekki vandamál og þá eru búnar til nokkrar blöndur yfir daginn. Algengt er að gerðar séu þrjár heilfóðurblöndur á meðalstórum búum þ.e. fyrir gripi í vexti, kýr í geldstöðu og mjólkandi kýr. Sé um mjög stór bú að ræða eru oft gerðar sjö til átta mismunandi heilfóðurblöndur og þá er fyrst og fremst verið að skipta geldstöðuhópnum í tvo hópa: fyrrihluta geldstöðu og síðari hluta geldstöðu.

Svo er þá mjólkurkúnum skipt upp í þrjá fóðrunarhópa eftir stöðu á mjaltaskeiði og afurðasemi. Auk þess eru þá gerðar nokkrar mismunandi heilfóðurblöndur fyrir geldneytin.

Minnkar sóun

Einn af höfuðkostum heilfóðrunar er að hægt er að nýta matarleifar með góðum hætti með því að koma þeim í nautgripi og sem dæmi má nefna alls konar úrelt og ónýtt grænmeti, sem ekki er hægt að selja til manneldis.

En það er margt fleira sem nautgripum, sérstaklega erlendis, er boðið upp á sem annars væri í raun hrein sóun. Líklega er það sem fyrst kemur upp í hugann, þegar þetta ber á góma, bjórgerðarhratið en gerjað byggið sem fellur til við bjórgerð hentar einkar vel sem fóður fyrir nautgripi.

Þetta færi annars beint í landfyllingu þ.e. ef ekki væru til skepnur sem nýttu þetta. Ótal fleiri fóðurefni má nefna, svo sem:

Bómullarfræ, en við vinnslu á bómull fellur til mikið magn af fræjum sem hliðarafurð vinnslunnar og þau nýtast í raun ekki í neina markverða framleiðslu en nautgripir geta nýtt fóðurefnin úr fræjunum mjög vel.

Hnetu- og möndlukökur, sem er hratið sem fellur til við olíugerð.

Maís-hismi, sem fellur til við maísmjölgerð.

Cítrusávaxtabörkur og hrat, sem fellur til við djúsgerð.

Sojaplantan, þegar sojafræ eru unnin er plantan sem sojablómin vaxa á ekki nýtanleg til manneldis en skepnur geta vel nýtt þessa afganga frá sojavinnslunni.

Margt fleira mætti nefna en sameiginlegt með ofangreindu er þó að almennt myndu nautgripirnir fúlsa við þessu „fóðri“ nema því væri blandað í gróffóður og þannig
„smyglað“ ofan í þá.

Sjá nánara lesefni í köflum7-10 í Nautgriparæktarbókinni sem hægt er að lesa á vef deildar kúabænda hjá BÍ: www.naut.is

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...