Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Eftirfarandi upplýsingar eru hugsaðar sem hvatning og gagnlegar upplýsingar, til þeirra sem sjá möguleika á að hefja eða auka sæðingar á kvígum.
Eftirfarandi upplýsingar eru hugsaðar sem hvatning og gagnlegar upplýsingar, til þeirra sem sjá möguleika á að hefja eða auka sæðingar á kvígum.
Mynd / Halla Eygló Sveinsdóttir.
Á faglegum nótum 21. desember 2023

Aukum kvígusæðingar – bætum árangur

Höfundur: Höskuldur Jensson, dýralæknir á Nautastöð Bændasamtaka Íslands

Lengi hefur verið hamrað á mikilvægi kvígusæðinga fyrir ræktun íslenskra mjólkurkúa. Því miður hefur allt of lítið áorkast. Í frétt á vefsíðu NBÍ (nautaskra. is) 20. nóvember sl. mátti lesa eftirfarandi: „Við horfum líka upp á þá dapurlegu staðreynd að innan við 30% kvígna eru sæddar í dag, nokkuð sem íslensk nautgriparækt fær algjöra falleinkunn fyrir.“

Sæðingar gegna lykilhlutverki í ræktuninni. Í litlum stofni er mikilvægt að sem flestir gripir séu virkur hluti af ræktunarstofninum. Ræktun verður alltaf langhlaup, en stytting ættliðabils er eitt öflugasta tækið sem við höfum til að hraða erfðaframförum. Ræktunin er samstarfsverkefni allra kúabænda. Allir njóta ávinningsins og æskilegt að sem flestir leggist á árarnar.

Öruggara erfðamat með arfgerðargreiningu hvetur enn frekar til sæðinga á kvígum.

Sæðingar eru skráðar og því er meiri vissa um væntanlegan burðardag. Þetta einfaldar mikilvægt eftirlit með kvígunum þegar kemur að burði!

Íslenskar kýr standa höllum fæti í samanburði við erlend kúakyn. Þeim mun mikilvægara er, að beita öllum ráðum til að flýta erfðaframförum. Því eru bændur eindregið hvattir til að sæða kvígur í auknum mæli og leggja þar með sín lóð á vogarskálarnar.

Eftirfarandi upplýsingar eru hugsaðar sem hvatning og gagnlegar upplýsingar, til þeirra sem sjá möguleika á að hefja eða auka sæðingar á kvígum. Engin tvö bú eru eins. Því getur þurft að skipuleggja eftir aðstæðum hvers og eins. Hér verður reynt að lýsa grundvallaratriðum sem vonandi gagnast öllum.

Skynsamlegt er að setja raunhæf markmið út frá fjölda gripa og aðstöðu. Í sumum tilvikum kann að vera skynsamlegra að velja úr bestu kvígurnar og geta sinnt þeim vel.

Þó verður að gera ráð fyrir afföllum m.a. vegna ófrjósemi.

Gott getur verið að skilgreina tímaramma fyrir verkefni eins og þetta. Gróflega má segja að upphaf tímarammans markist af kynþroskaaldri. Lok rammans markast af efri mörkum aldurs við sæðingu.

Til að undirstrika mikilvæga þætti í ferlinu, er hér valið að skipta rammanum í 2 tímabil. Annars vegar undirbúningstímabil og hins vegar sæðingatímabil.

Undirbúningstímabil

Hvenær þarf að hefja undirbúning?

Segja má að undirbúningur hefjist strax við fæðingu kvígunnar. Vel heppnað eldi kvígukálfa allt frá fæðingu verður seint ofmetið. Lokaundirbúning fyrir sæðingar ætti að hefja eigi síðar en við kynþroskaaldur kvígnanna. Talsverður breytileiki getur verið á kynþroskaaldri. Nefndar eru tölur frá 7-15 mánuðum. Æskilegur aldur kvígna við fyrsta burð er 22-24 mánuðir. Miðað við það þurfa kvígurnar að festa fang við 13-15 mánaða aldur. Til að ná því marki þyrfti sennilega að hefja fyrstu sæðingar á vel þroskuðum kvígum við 12-13 mánaða aldur. Athugið að samkvæmt reglugerð er óheimilt að kelfa kvígur yngri en 11 mánaða!

Æskilegt er að gefa kvígum a.m.k. 1-2 mánaða undirbúningstímabil við kjöraðstæður áður en byrjað er að huga að sæðingum.

Undirbúning ætti því að hefja við 10-12 mánaða aldur.

Almenn atriði sem gott er að hafa í huga:

Gott er að velja kvígur í hóp eða hópa strax í upphafi og halda samsetningu óbreyttri út sæðingatímabilið. Ef kvígurnar fá að venjast saman raða þær sér í virðingarröð og jafnvægi næst innan hópsins. Kvígurnar verða þá öruggari með sig. Þetta getur haft margvísleg jákvæð áhrif og m.a. aukið líkurnar á greinilegum beiðsliseinkennum.

Hafa hæfilegan fjölda í hópi/ stíu. Gæta þess að legu- og átpláss sé nægjanlegt fyrir alla gripi. Gott er að nota undirbúningstímann til að spekja kvígurnar og venja við læsigrindur.

Of stórir hópar auka hættu á að einstakar kvígur verði afskiptar eða útskúfaðar. Það tefur fyrir því að jafnvægi náist innan hópsins og hefur truflandi áhrif á beiðsligreiningu. Of litlir hópar geta líka haft þau neikvæðu áhrif að kvígurnar sýna ekki eins glögg beiðsli. Oft verða einkennin ákafari og greinilegri þegar fleiri kvígur eru að beiða á sama tíma.

Fóðrun

Meta verður ástand hvers hóps við upphaf undirbúnings. Æskilegt er að kvígurnar taki hæfilegum bata allt undirbúnings- og sæðingatímabilið án þess þó að verða of feitar. Þegar kemur að sæðingum ættu kvígurnar að vera í meðalholdum. Fróðleikur um uppeldi kvígna er aðgengilegur víða.

Í samtölum við frjótækna hefur komið fram að í dag séu margar kvígur óhóflega feitar þegar kemur að sæðingu. Þetta hefur bein neikvæð áhrif á frjósemi en gerir líka sæðinguna sjálfa erfiðari í framkvæmd. Líklegasta skýringin er að kvígurnar séu að jafnaði orðnar óþarflega gamlar. Samkvæmt gögnum er meðaldur íslenskra kvígna við fyrsta burð nú 27 mánuðir. Til að fleiri kvígur nái að bera 1. kálfi á kjöraldri þyrfti að jafnaði að hefja sæðingar fyrr en gert hefur verið.

Ormalyf?

Gera má ráð fyrir því að nautgripir smitist af iðraormum á beit. Mismikið eftir aðstæðum. Hafi kvígur, sem á að sæða, verið á beit en ekki fengið ormalyf, er eindregið mælt með að gera það.

Vítamín, steinefni og snefilefni

Skortur á þessum efnum getur m.a. haft neikvæð áhrif á frjósemi. Því er mikilvægt að huga vel að þessu á undirbúningstímanum og tryggja aðgang og upptöku eftir því sem hægt er. Taka þarf tillit til gæða og efnasamsetningar heyja hverju sinni. Ef kvígunum er gefið kjarnfóður eða korn getur verið valkostur að blanda við það steinefnablöndu.

Algengt er að láta kvígurnar hafa frjálsan aðgang að snefilefnabættum saltsteinum og/eða bætiefnafötum. Einnig má benda á þann kost að gefa forðastauta. Þeir hafa þá kosti umfram fötur og steina að tryggja öllum gripum jafna upptöku yfir lengri tíma.

Lýsing

Þrátt fyrir að kýr haldi að jafnaði uppi gangmálum allt árið, er þekkt að myrkur getur haft neikvæð áhrif á frjósemi. Sérstök ástæða er til að huga að þessu yfir vetrartímann. Mælt er með fullri lýsingu (75 lux) 12-16 tíma á sólarhring en daufri næturlýsingu. Sjálfvirk tímastilling er góður kostur.

Sæðingatímabil

Hvað þarf sæðingatímabilið að vera langt?

Ef vel tekst til, ættu flestar kvígur að vera farnar að sýna beiðsli að loknu undirbúningstímabilinu. Þá er ekki óraunhæft að koma kálfi í meirihluta þeirra á 2-3 mánaða sæðingatímabili. Eflaust munu skiptar skoðanir á því hve lengi er skynsamlegt að halda áfram sæðingum á kvígum sem ekki halda innan skikkanlegs tíma. Færa má nokkur rök gegn því að þráast of lengi við. Með hækkandi aldri er hætt við að þessar kvígur verið óhóflega feitar við burð. Þær taka líka pláss í fjósi og éta fóður sem e.t.v. væri betur varið í annað. Svo má spyrja sig hvers vegna þær hafa ekki haldið. Er skýringa að leita í erfðaþáttum? Er skynsamlegt að framrækta þannig galla?

Hvenær á að byrja að sæða?

Farsælast er að byrja ekki að sæða fyrr en regla er komin á beiðsli kvígunnar. Því er æskilegt að hefja eftirlit með beiðslum strax á undirbúningstíma.

Skrá á gangmáladagatal eða halda sérstaka skrá.

Kvígurnar geta að sjálfsögðu haldið við sæðingu á fyrsta beiðsli en almennt er ekki mælt með að reyna það.

Fyrstu beiðsli geta verið óregluleg og erfitt að tímasetja sæðingu rétt. Æskilegt er að kvígan sé farin að halda upp reglulegum beiðslum og sæða fyrst þegar kvígan hefur sýnt 2 eða fleiri greinileg beiðsli með eðlilegu millibili.

Góð beiðslisgreining er forsenda fyrir árangri. Bændur eru hvattir til að kynna sér og fylgjast með þróun á sjálfvirkum skynjurum. Skynjaratæknin hefur þróast þannig að margir bændur t.d. bæði í Danmörku og Noregi byggja beiðslisgreiningar nánast alfarið á slíkri tækni og hafa góða reynslu af því.

Eftir að sæðingar hefjast er rétt að minna á mikilvægi þess að vera á varðbergi gagnvart uppbeiðslum. Fylgjast vel með þegar líður að því að kvígan gæti beitt upp. Vonast eftir því besta en gera alltaf ráð fyrir hinu.

Samstillingar

Samstillingar geta verið valkostur sérstaklega þar sem kvígur eru ekki hýstar með kúm í fjósi og beiðsliseftirlit e.t.v erfiðara í framkvæmd. Samstillingar eru þó engin töfralausn en hafa líka stundum fengið ósanngjarna gagnrýni. Mikilvægt er að þekkja kosti og takmörk samstillinga.

Ástæðan fyrir lakri útkomu sæðinga eftir samstillingar er í mörgum tilvikum sú, að kvígurnar hafa ekki verið nægjanlega vel undirbúnar. Samstilling er tæki til að stýra tímasetningu beiðsla hjá kvígum með virk og regluleg beiðsli. Stundum heyrist talað um að gangsetja kýr/kvígur. Í því getur falist sá misskilningur að lyfin geti sett í gang beiðsli hjá óvirkum kvígum. Kvígum sem annaðhvort eru ekki orðnar kynþroska eða eru með óvirka eggjastokka af öðrum orsökum. Forsenda fyrir góðum árangri við samstillingu er að kvígurnar séu þegar með virkan gangferil!

Aðstaða til sæðinga

Við hönnun á aðstöðu ætti að hafa eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

  1. Að sæðing geti farið fram átakalaust og valdi kvígunni sem minnstri streitu.
  2. Að frjótæknir hafi þægilega og örugga aðstöðu til verksins.
  3. Að fyrirhöfn bóndans við einstakar sæðingar sé sem minnst.

Þar sem kvígur eru lausar í stíum er eindregið mælt með að koma upp læsigrindum. Helst þannig að hægt sé að læsa allan hópinn í stíunni fram í grind samtímis. Best er að geta fyrirhafnarlítið lokkað allan hópinn fram í læsigrind t.d. með því að strá fyrir þær korni eða kögglum. Verkið verður einfaldara, fljótlegra og öruggara. Við slíkar aðstæður stendur kvígan sem er sædd yfirleitt róleg með stuðning til beggja hliða.

Kvígur og kyngreint sæði:

Kvígur eru markhópur nr.1 við sæðingar með kyngreindu sæði. Rökin fyrir því felast í styttingu ættliðabils og því að þær eru almennt frjósamari en eldri kýr. Árangur sæðinga með kyngreindu sæði hefur fram að þessu verið lakari en með hefðbundnu sæði. Því er almennt mælt með notkun þess á frjósömustu gripina. Þar eru kvígurnar efstar á blaði!

Forsenda fyrir því að hægt sé að réttlæta framleiðslu og notkun á kyngreindu sæði fyrir okkar litla markað er að fleiri kvígur verði sæddar!

Skylt efni: kvígusæðingar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...