Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Dairy Campus í Hollandi.
Dairy Campus í Hollandi.
Á faglegum nótum 18. september 2019

Dairy Campus – Þróunarsetur hollenskrar mjólkurframleiðslu

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Það dylst fáum að Hollendingar eru afar framarlega þegar kemur að mjólkurframleiðslu og þó svo afurðasemi kúnna þar sé ekki sérlega mikil, þá hafa hollenskir kúabændur náð að aðlagast afar vel að breyttum framleiðsluskilyrðum og nýjum áskorunum frá Evrópusambandinu. Þrátt fyrir smæð landsins hefur það getað keppt við stór mjólkurframleiðslulönd á útflutnings­mörkuðum mjólkur­vara og í dag er stór hluti hollenskra mjólkurafurða fluttur úr landi.
 
Einn megin skýringarþáttur þess hve vel hollenskri mjólkurframleiðslu vegnar er m.a. sterk samstaða á milli búgreinarinnar, stofnana og ýmissa fyrirtækja landsins sem sinna mjólkurframleiðslu með einum eða öðrum hætti. Svona þverfaglegt samstarf háskólasamfélags, fyrirtækja og hagsmunaaðila í mjólkurframleiðslu er nokkuð óvenjulegt á heimsvísu og kristallast m.a. í starfsemi Dairy Campus sem kalla mætti Þróunarsetur hollenskrar mjólkurframleiðslu.
 
Kýrnar gera meira en að mjólka, þær safna gögnum segir fólkið sem vinnur á Dairy Campus gjarnan. Hér er verið að taka mjólkursýni úr kúnum.
 
Umsvifamikil búgrein
 
Hollenska mjólkurframleiðslan og mjólkuriðnaðurinn skipta sköpum fyrir Holland en í þessu litla landi, sem er ekki nema um 40% af stærð Íslands, starfa um 45 þúsund manns við mjólkurframleiðslu og -vinnslu. Framleiðsluverðmæti þarlendra mjólkurvara voru í fyrra 6,6 milljarðar evra, eða um 910 milljarðar íslenskra króna. Vegna mikils útflutnings ráða Hollendingar í dag 5% af heimsmarkaðinum með mjólkurvörur, sem er stærri hlutdeild en nokkurt annað land í Evrópu! 
 
Holland hefur undanfarin ár verið með einn hæsta jákvæða vöruskiptajöfnuð í heimi og mjólkurvörurnar skipta þar miklu máli en 8% af hinum jákvæða vöruskiptajöfnuði landsins koma frá mjólkurvörum og raunar má rekja meira en helming hins jákvæða vöruskiptajöfnuðar til útflutnings landbúnaðarvara, sem sýnir vel hve mikilvæga stöðu landbúnaður í Hollandi skipar.
 
14 milljarðar lítra
 
Árleg mjólkurframleiðsla Hollands er um 14 milljarðar lítra en á bak við þá framleiðslu standa nærri 18 þúsund kúabú með um 1,7 milljónir kúa. Hvert bú er því að jafnaði með rétt tæplega 100 kýr og rétt rúmlega 780 þúsund lítra framleiðslu. Þessi mikla landsframleiðsla mjólkur setur Holland í fjórða sæti yfir mestu mjólkurframleiðslulönd Evrópusambandsins, rétt á eftir Stóra-Bretlandi, Frakklandi og svo Þýskalandi sem er með mestu framleiðsluna. Það er einnig áhugavert að sjá hvernig mjólkin er notuð hjá afurðastöðvum landsins en 56% hennar fer til framleiðslu á ostum, 14% í mjólkurduft, 7% í ferskvöruframleiðslu eins og drykkjarmjólk og rjóma svo dæmi sé tekið. Þá fer 6% af mjólkinni í mjólkurþykkni, 2% í smjörgerð og svo fer afgangurinn í ýmsa aðra framleiðslu.
 
Mörg heimsþekkt fyrirtæki
 
Þó svo að þegar talað er um mjólkurframleiðslu og útflutning mjólkurvara þá komi fyrst og fremst upp eitt fyrirtækjanafn, þ.e. nafn samvinnufélagsins FrieslandCampina, þá eru fleiri fyrirtæki í öðrum geirum landbúnaðarins sem hafa beintengingu við mjólkurfram-leiðsluna. 
 
Þannig má nefna fyrirtækið Lely, sem er bæði í framleiðslu vinnuvéla og mjaltaþjóna. Kynbótafyrirtækið CRV er heimsþekkt innan nautgriparæktar og eitt af tveimur stærstu fyrirtækjum heimsins á þessu sviði. Þá er hollenski samvinnubankinn Rabobank heimsþekktur fyrir bæði faglega dýpt og þekkingu á landbúnaði og fullyrða má að engin fjármálastofnun í heiminum sé á áþekkum stað þegar horft er til landbúnaðar og síðast en ekki síst mætti hér nefna háskólann í Wageningen sem er talinn einn allra besti landbúnaðarháskóli í heimi. Ýmis önnur fyrirtæki og stofnanir mætti nefna en þessi einfalda upptalning sýnir einfaldlega hve faglega sterkt landið er á þessu sviði.
 
Sterkari saman
 
Það var einmitt hin auðsjáanlega faglega sterka staða ótal aðila í Hollandi sem ýtti úr vör hugmynd hjá nokkrum starfsmönnum Wageningen háskólans á sínum tíma. Hugmyndin var að kanna hvort hægt væri að fá alla þessa aðila til að vinna saman með einhverjum hætti jafnvel þótt sumir þeirra væru e.t.v. í samkeppni sín á milli. 
 
Ákveðið var að stofna samstarfsvettvanginn Dairy Campus sem er sjálfstæð stofnun sem bæði er með eigin tekjur vegna landbúnaðarstarfsemi og auk þess fær stofnunin rekstrarfé frá þeim ótal aðilum sem að stofnuninni standa en núna eru meira en 40 meðlimir, bæði fyrirtæki og stofnanir sem eru með aðild að Dairy Campus.
 
Byggðu nýja aðstöðu
 
Markmiðið með Dairy Campus var að samtvinna rannsóknir, kennslu, nýsköpun og þróun með því að skapa sameiginlegan vettvang fyrir alla þá aðila sem að stofnuninni stóðu og standa. Til þess að gera þetta þurfti að byggja upp nýja aðstöðu og úr varð að halda til sveitarfélagsins Leeuwarden í Frísland-fylki í norðurhluta landsins og byggja þar allt frá grunni. Dairy Campus fékk úthlutað rúmlega 300 hektara jörð og svo var ráðist í framkvæmdir sem báru með sér að byggja 6 mismunandi fjósbyggingar til að hýsa allar 550 kýrnar sem þangað átti að flytja auk gripa í uppeldi. Hin nýja aðstaða var tekin í notkun í maí 2016.
Ástæða þess að ekki var byggt eitt stórt fjós var vegna ólíkra þarfa þeirra sem að stofnuninni koma. Sumir vilja sérhæfðar rannsóknir á sótspori framleiðslunnar, aðrir vilja láta skoða fóðurefni, enn aðrir atferli og svona má lengi telja. Þessum ólíku þörfum er erfitt að fullnægja með einu fjósi og því voru byggð minni og sérhæfðari einingar. Þannig er t.d. eitt fjósið með afar fullkominn búnað fyrir mælingar á umhverfisáhrifum framleiðslunnar og kúnna og annað fjós er með sérhæfðan búnað fyrir fóðrunarrannsóknir svo dæmi sé tekið. Þá er á Dairy Campus einnig afar glæsileg aðstaða fyrir ráð-stefnur, kennslu og námskeiðahald auk sérstakrar aðstöðu fyrir bæði meistara- og doktorsnema og enn fremur er á Dairy Campus mjög fín móttökuaðstaða fyrir gesti.
 
Öll aðstaða í tilrauna- og rannsóknafjósum Dairy Campus er hreint til fyrirmyndar. Hér er t.d. fóðurrannsóknadeildin, þar sem hægt er að fylgjast með af mikilli nákvæmni hve mikið kýrnar í lausagöngunni éta.
 
Kennsla, rannsóknir, nýsköpun og þróunarstarf
 
Hjá Dairy Campus, sem í dag er stýrt af Íslandsvininum Kees de Koning, er nú til einstakur samvinnuvettvangur kennslustofnana, rannsóknaaðila, fyrirtækja og hagsmunaaðila innan mjólkurframleiðslunnar og þrátt fyrir ungan aldur stofnunarinnar hefur þetta samstarf þegar leitt til þróunar á nýjungum og búnaði.
 
Fyrirtæki sem vilja prófa nýjungar sínar eða breytingar á fyrri tækni geta þarna fengið prófun í fullum trúnaði og þá geta háskólarnir fengið inni fyrir rannsóknir sínar með ódýrari hætti en skólarnir ella gætu þar sem þeir þurfa þá ekki að vera með fjós í rekstri. Þá hefur kennsluaðstaðan virkilega staðið undir nafni og bæði skólar og fyrirtæki nýta sér aðstöðuna reglubundið fyrir kennslu og námskeiðahald. Þó svo að Dairy Campus leggi áherslu á alla virðiskeðju mjólkurinnar, þ.e. frá grasi í glas, þá eru það samt kýrnar sem höfuðáhersla er lögð á. Þær gera nefnilega mun meira en að að framleiða mjólk, þær framleiða mikið af gögnum á hverjum degi sem er safnað með atferlismælum og öðrum búnaði. Með fullkomnum tölvubúnaði er hægt að afla mikilvægra gagna sem eru í raun mikil verðmæti fyrir stofnunina og einn lykillinn að því að fyrirtæki og rannsóknaaðilar vilja nýta sér aðstöðuna og borga fyrir þjónustuna.
 
Stefna að alþjóðlegu samstarfi
 
Hollendingar eru afar framsýnir og þó svo að Dairy Campus sé í dag fyrst og fremst með aðild hollenskra fyrirtækja og stofnana þá er stefnt að því að víkka út hópinn og bjóða erlendum aðilum að slást í hópinn. Það geti ekki gert neitt annað en að styrkja starfsemina og efla til lengri tíma litið.

8 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...