Enn skemmdir á kornökrum á Norðausturlandi vegna næturfrosts á vaxtartíma
Í þessari grein verður fyrst og fremst fjallað um frostskemmdir sem urðu á kornökrum á Norðausturlandi sumarið 2022, en jafnframt komið með ábendingar um val á landi til að minnka líkur á slíkum skemmdum, þannig að gæði verði betri og jafnari en nú er ef auka á kornrækt hér á landi.
Þegar hér er talað um að enn séu skemmdir á kornökrum á þessu svæði, er skemmst að minnast þess að nær allir kornakrar eyðilögðust í næturfrosti 20. ágúst 2015 á svæðinu. Þetta haust var korntilraunin á Tilraunastöðinni á Möðruvöllum ekki uppskorin vegna skemmdanna og er það eina árið sem það hefur gerst, en korntilraunir voru samfellt á Möðruvöllum á árunum 2004 til 2020, en áður var tilraunin framkvæmd í Miðgerði í Eyjafirði eða frá árinu 1996 til 2003. Engir kornakrar né korntilraunir eru lengur á Möðruvöllum, þó gott væri að vera með tilraunir á sama svæði og veðurstöðinni er.
Á árunum 2017 til 2019 voru korntilraunir niður á mýrunum á Möðruvöllum sem liggja töluvert neðar í landinu en túnin þar sem veðurstöðin er og þar er meiri hætta á næturfrostum og öll árin þ.e. 2017- 2019 urðu frostskemmdir á tilrauninni þar og einnig víða hjá bændum á þessum árum. Á þessum árum voru bændurnir sem leigðu túnin að endurrækta mýrarnar og þess vegna var tilraunin staðsett þar, því ekkert land var opið á móa-/melatúnunum sem liggja ofar í landinu. Uppskera í tilrauninni á Möðruvöllum var yfirleitt mjög góð og meðaltal 6 bestu yrkja árin 2005-2014 var frá 5,2-10,0 tonn þe/ha, lakasta árið var 2013, sem var lélegt kornár á Norðurlandi. (Samantekt Jónatan Hermannsson 2015.) Undirritaður tók alltaf ákvörðun um hvenær sáð var, þ.e. þegar jarðvegur var orðinn hæfilega þurr og sá yfirleitt um alla jarðvinnslu hvað varðaði korntilraunirnar. Á 1. mynd má sjá uppskeru á árinu 2008 á Möðruvöllum, en það er besta uppskera sem þar hefur fengist og trúlega í eina skiptið sem fengist hefur fullþroskað korn.
Tíðarfar hér á Norðausturlandi 2022 var e.t.v. ekki það besta hvað kornrækt varðar, en þó gátu bændur sums staðar byrjað að sá tiltölulega snemma þ.e. fyrstu vikuna í maí, en annars staðar drógst sáning nokkuð og alveg fram yfir 20. maí vegna hversu maí var úrkomusamur. Þrátt fyrir það var spretta og sprotamyndun mjög góð, allavega á þeim ökrum sem undirritaður fylgdist með (þ.e. 3-4 sprotar pr. plöntu), enda meðalhiti á Akureyri mánuðina maí-júlí á pari við meðaltal áranna 1991-2020, en ágúst var undir meðaltali þessara ára, en síðan kom mjög góður kafli þ.e. frá 30. ágúst og fram um miðjan september. En þá var skaðinn skeður á öllum kornökrum sem lægstir liggja í landinu vegna frostnótta í ágúst. Í Eyjafirði eru menn svo vel settir að vera með þrjár síritandi veðurstöðvar, þ.e. á Akureyri, Möðruvöllum og Torfum. Á veðurstöðinni á Akureyri mælist yfirleitt ekki næturfrost yfir sumarmánuðina vegna nálægðar við sjó og einnig vegna hæðarlegu, en á Möðruvöllum í Hörgárdal og Torfum í Eyjafirði, sem eru niður í dalabotnunum þar sem kalda loftið safnast fyrir og næturfrost verður hvenær sem er sumars á köldum heiðríkjum dögum.
Samkvæmt veðurgögnum frá Torfum er fyrsta frostið aðfaranótt 5. ágúst, sjá 2. mynd. Þá fór frostið niður í -1,6 °C og varaði nokkuð lengi eða frá því milli kl. 1 og 2 um nóttina og fram til kl. 7 um morguninn. Þarna gætu hafa orðið einhverjar skemmdir á þeim ökrum sem lægst stóðu og einnig er þetta á mjög viðkvæmum tíma fyrir kornið, þ.e. stuttu eftir frjóvgun og frostþolið mjög lítið. Næsta frostnótt á Torfum var 15-16. ágúst og fór þá frostið niður í – 3,0 °C, sjá 3. mynd, og varaði frá miðnætti og fram til kl. 7 um morguninn. Við þetta frost hafa trúlega orðið nokkuð miklar skemmdir á öllum ökrum í Eyjafjarðardalnum sem lægstir stóðu, en akrar sem ofar voru í landinu urðu fyrir litlum sem engum skemmdum og er það í samræmi við reynslu þeirra sem unnu við þreskingu í Eyjafirðinum sl. haust samkv. samtali við Aðalstein Hallgrímsson, bónda í Garði.
Undirritaður fór þann 26. ágúst að skoða nokkra akra í Eyjafirðinum til að athuga hugsanlegar skemmdir, þ.e. um 10 dögum eftir frostnóttina, og kom m.a. við á Grund í Eyjafirði sem er næsti bær norðan við Torfur þar sem veðurstöðin er og mátti sjá skemmdir á neðstu ökrunum, þ.e. næst Eyjafjarðaránni, en akur sem var um 20 m ofar/hærra í landinu virtist óskemmdur. Kornfylling var komin vel af stað á þessum ökrum enda sáð í þá um mánaðamótin apríl/maí og því frostþol orðið meira, en fyrr á þroskaferlinu. Það getur stundum verið erfitt að sjá þessar skemmdir úti á akri, sérstaklega þegar aðeins hluti af smáöxunum í axinu skemmist en kemur vel í ljós þegar farið er að mæla rúmþyngdina, en einnig hvítnar títan fyrr á dauðu smáöxunum (sjá mynd 4, tekin daginn eftir sýnatöku) og hægt er að sjá svona skemmdir í smásjá eða með góðu stækkunargleri.
Á Möðruvöllum var fyrsta frostnóttin þann 16. ágúst (sjá 5. mynd) og hafa þá trúlega orðið einhverjar skemmdir á ökrum í Hörgársveit, en 21.–22. ágúst var meira næturfrost og urðu þá þeir akrar sem lægst lágu fyrir verulegum skemmdum og dæmi um akra sem eyðilögðust alveg enda sáð seinna þar en í Eyjafjarðarsveitinni (sjá 6. mynd). Þriðja frostnóttin á Möðruvöllum var svo 26.–27. ágúst og fór þá frostið niður í -3 °C og stóð mjög lengi.
Veðurstöðin á Staðarhóli í Aðaldal getur gefið nokkuð góðar upplýsingar um veðurfar á aðalkornræktarsvæði í Suður-Þing., en fyrsta frostnóttin þar var 16. ágúst, -1,6 °C, en meira frost var svo 16.–17. ágúst og fer þá niður í -1,8 °C og varir lengur sjá 7. mynd. Meira næturfrost er svo 21.-22. ágúst og fer þá niður í -3,2 °C og varir mjög lengi, þ.e. frá því um kl. 11 um kvöldið 21. til um kl. 8 morguninn 22. ágúst (sjá 8. mynd). Á þeim ökrum á þessu svæði sem frostið var svona mikið hefur trúlega öll kornfylling stöðvast og má sjá það á uppskerutölum sem skráðar eru í jarðræktarforritið Jörð á þessu svæði, en þó geta skemmdir vegna mikils vinds 24. september haft áhrif líka. Allar hitatölur sem hér hafa verið uppgefnar eru miðað við 2 m hæð frá jörðu og getur því frostið hafa verið nokkru meira í axhæð á ökrunum.
Tilgangurinn með að birta þessar hitatölur hér er til að benda á að staðsetning kornakra skiptir máli með tilliti til hættu á skemmdum af næturfrostum, hafi menn val um það á jörðum sínum að taka tillit til þess. Eftir þessi næturfrost kom nefnilega besti kafli sumarsins, þ.e. frá 30. ágúst til 14. september, með góðum meðalhita, á Möðruvöllum 10,4 °C og trúlega svipað á Torfum og daga með um og yfir 20 stiga hita. Þetta má sjá á rúmþyngd á korni mótteknu af Bústólpa á Akureyri sl. haust þar sem sumt af korninu er með mjög góða rúmþyngd, þ.e. tfur 600 g/líter (sjá 9. mynd). Þannig að á sl. sumri var hægt að ná uppskeru með góðum gæðum hér á Norðurlandi.
Við val á ræktunarlandi fyrir korn þarf að forðast lægðir og flatlendi í dalabotnum þar sem hætta er á næturfrostum á vaxtartímanum og velja frekar land sem hærra liggur í landinu ef möguleikar eru á því og jafnvel í halla að þeim mörkum sem þreskivélar ráða við. Best ef landið er hæfilega frjósamt svo hægt sé að hafa betri stjórn á framboði af köfnunarefni, sem getur verið erfitt í frjósömu mýrlendi vegna losunar á N síðsumars á óheppilegum tíma fyrir kornþroskann. Sama gildir ef lífrænn áburður, þ.e. mykja eða molta, er plægð niður í akrana og hef ég ráðlagt mönnum frá því, heldur vinna hann saman við yfirborðið og bæta svo við tilbúnum áburði eftir þörfum. Jarðvegsdýpt þarf að vera minnst 40-50 cm til að minnka líkur á þurrkskemmdum og náttúrulegt framræsluástand þarf að vera gott þar sem laust vatn og rigningarvatn hripar fljótt í gegnum jarðveginn þegar klaki fer úr jörðu. Vanda þarf alla jarðvinnslu og forðast að vinna of blautt land að vori sem kemur alltaf niður á uppskeru og sama gildir um sáningu að hún þarf að vera í sem jafnastri dýpt (2-3 cm) og ætti það að vera hægt með þeim fullkomnu vélum sem menn hafa yfir að ráða núorðið með valta á undan sáðrörunum og einnig með búnað til að fella áburðinn niður með fræinu, sem flýtir fyrir spírun og vöxt á korninu.
Mikil umræða um kornrækt hér á landi á sér stað um þessar mundir og ekki síst á síðum Bændablaðsins og finnst undirrituðum hún nokkuð óraunhæf á köflum. Það á að auka kornrækt hvað sem það kostar t.d. með auknu jarðræktarframlagi og kynbótum sem eru jú góðu gjaldi gefnar, en þær koma ekki í veg fyrir afföll eins og hefur verið lýst hér að framan. Það þarf að bæta öryggi í ræktuninni t.d. með réttu vali á landi, ekki nýta kornrækt sem lið í endurræktun nema það henti vel til þess og ekki nota sama akurinn nema 2–3 ár (hámark 3) til að minnka líkur á illgresisvandamálum og sveppasmiti, nema menn vilji fara að nota varnarefni (eiturefni) í meira mæli við ræktunina en nú er. Einnig kemur upp svokölluð jarðvegsþreyta (jordtrætthed) eins og þekkt er þar sem sama korntegund er ræktuð í sama akri mörg ár í röð. Við höfum ekki mikla möguleika á sáðskiptum nema þá fyrir gras sem getur hentað vel fyrir kúabændur þ.e. rækta korn í 2–3 ár og svo gras t.d. fjölært rýgresi eða vallarfoxgras í 3–4 ár og svo í sama landi aftur korn. Það verður ekki fyrr en búið er að kynbæta hafrayrki sem geta náð þroska víðar hér á landi en við bestu aðstæður á Suðurlandi, sem mögulega verður hægt að hafa sáðskipti milli byggs og hafra. Búið er að kynbæta byggyrki (Jónatan Hermannsson) sem hægt er að ná þokkalegri uppskeru af í flestum árum og einnig af erlendum yrkjum sem í boði eru, ef rétt er staðið að ræktuninni þ.e. um 4 tonnum af hektara eða meira, því allt undir því er lélegt og ekki ásættanlegt.
Miðað við verð hjá Bústólpa á byggi til bænda sl. haust gæfu 4 tonn/ha ekki nema rétt liðlega fyrir útlögðum kostnaði við ræktun, þreskingu, þurrkun og flutning án tillits til jarðræktarframlags. Til að viðskipti geti átt sér stað með kornið þurfa gæðin að verða betri og jafnari en nú er. Þá þarf að bæta innviði eins og talað er um, eins og t.d. við kornþurrkun og geymslur fyrir það og tækjabúnað. Gott ef fengjust fjárfestingarstyrkir til þess, frekar en auka styrki við ræktunina sjálfa. Ef á að auka við jarðræktarframlag vegna kornræktar og einnig flýta greiðslu þess jafnvel til 15. júní, eins og kom fram í grein í Bændablaðinu þann 15. des. 2022 eftir Helga Eyleif Þorvaldsson og sem einnig hefur komið fram á fundum með bændum sem starfshópur á vegum matvælaráðherra hefur haldið að undanförnu. Miðað við núverandi reglur um greiðslur á framlögum til jarðræktar, þarf úttekt að hafa farið fram svo framlag sé greitt. Það getur verið erfitt að ljúka úttekt á öllum kornökrum fyrir 15. júní og þyrftu þá fleiri skilyrði að koma til, t.d. að bændur skiluðu inn reikningum fyrir stærstu útgjaldaliðum eins og t.d. fyrir kaupum á sáðkorni, áburði og greiðslum til verktaka ef þeir hafa verið fengnir til verksins. Verði teknar upp greiðslur vegna þurrkunar á korninu þá þarf það að uppfylla einhver lágmarksgæði hvað varðar kornfyllingu sem gæti verið þrepaskipt miðað við þá nýtingu sem möguleg er hjá fóðurblöndunarstöðvum.
Bændur þurfa svo að geta tryggt sig fyrir óvæntum áföllum í kornræktinni, t.d. vegna veðurfars, eins og kom fram í viðtali við þá á síðum Bændablaðsins í október 2022.