Er lífrænt dýrara?
Oft kemur verð á matvælum fram í almennri umræðu hér á landi, ekki síst á verðbólgutímum sem nú. Sú skoðun er ríkjandi að lífrænt vottuð matvæli séu dýrari, og að sumra mati of dýr til að geta orðið almennur valkostur.
En í hverju felst sá mögulegi verðmunur og fyrir hvað er verið að greiða ? Á þessum skrýtnu tímum þar sem sjálfbærni er lykilhugtak er mikilvægt að hugleiða aðra mælikvarða á verðmæti matvæla en verð pr. kg, og framtíðin getur oltið á því.
Á þessu hvílir sú skoðun að merkja matvæli með kolefnisspori sem dæmi. Lífrænir bændur nota ræktunaraðferðir sem eru mildari fyrir umhverfið. Lífræn ræktun er hringrásarkerfi í framkvæmd, sem m.a. felst í að nýta lífrænt efni úr nærumhverfi og vinna úr því áburð í stað þess að notaður sé sá tilbúni áburður sem framleiddur er með miklum umhverfiskostnaði í öðrum löndum og fluttur um langa leið. Lífrænn jarðvegur sem fóðraður er á lífrænum áburði og án eiturefna er ríkari af líffræðilegri fjölbreytni, og á því hangir allt annað líf til framtíðar. Þetta eru mikil verðmæti sem eðlilegt er að sé greitt fyrir. Þeir sem þarna koma til greina til að borga brúsann eru lífrænir framleiðendur sjálfir sem taka þá af sinni framlegð eða eignum, neytendur í gegnum hærra verð og yfirvöld í gegnum landbúnaðarstefnu og styrkjakerfi.
Í búfjárrækt hafa dýrin meira rými til hreyfingar þegar þau eru á húsi, og hafa aðgang að útisvæði allt árið. Þessi augljósi munur á aðstöðu og rými dýranna kemur fram í hærri kostnaði á kíló af kjöti eða lítra af mjólk, og þ.a.l. hærra verði til neytenda, nema að þeim kostnaðarauka sé mætt með öðrum hætti. Rannsóknir hafa sýnt að lífrænt vottað nautakjöt inniheldur meiri næringu, t.a.m. um 50% meira magn af Omega- 3 fitusýrum er að finna í lífrænt vottuðu kjöti og mjólk. Frá þessu sjónarhorni mætti draga úr kjötneyslu um 30% en þó innbyrða sama magn af Omega- 3 fitusýrum. Framlag lífræns landbúnaðar til dýravelferðar og minnkunar á kjötmagni í neyslu getur því verið umtalsvert.
Í lífrænni grænmetisræktun er ekki úðað tilbúnum eiturefnum gegn skordýrum, illgresi eða til að fella grös áður en stórvirkar vélar keyra yfir akra. Oft þarf meira vinnuafl við slík verk s.s. til að halda illgresi í skefjum, og oft er uppskorið í smáum stíl, s.s hér á landi. Neytendur finna meira bragð af lífrænt ræktuðu grænmeti og nýta hráefnið betur þar sem ekki þarf að skafa eitrið utan af áður en þess er neytt. Eiturefnaleifar er einn af megin áhættuþáttum í myndun krabbameina og því skiptir þetta neytendur miklu máli. Í lífrænni grænmetisræktun erlendis hafa framleiðendur náð að auka framleiðslumagn með miklum stuðningi frá stjórnvöldum, s.s. álagi á stuðningsgreiðslur, tækjastuðningi og leiðbeiningaþjónustu. Árangur Dana er eftirtektarverður þar sem nýjustu tækni og sjálfvirkni er beitt til að framleiða lífrænt grænmeti í stórum stíl utandyra til útflutnings.
Erfðabreyttar lífverur eru óheimilar í lífrænni ræktun sem er mikið grundvallaratriði í lífrænni kornrækt og lýðheilsumál. Nýverið var sýnd heimildarmynd á RÚV um glúten sem fjallaði um hvernig stórræktendur á korni úða akrana kerfisbundið með glýfosati í því skyni að flýta þurrkun og ná niður kostnaði. Gildi lífrænnar vottunar á korni er því ótvírætt til að verja neytendur fyrir slíkum eituráhrifum í matvælum og á lífríkið. Á Lífrænt Ísland hefur auk þess verið fjallað um fjölþjóðlegar rannsóknir sem draga skýrt í ljós aukið næringargildi í lífrænt ræktuðu korni í samanburði við ræktun með tilbúnum áburði.
Ísland er nú eina landið í Evrópu sem ekki hefur mótað sér aðgerðaráætlun um lífræna framleiðslu og styður ekki kerfisbundið við sína framleiðendur til lengri tíma til að vega upp þann „kostnaðarauka“ sem felst í lífrænum framleiðsluháttum. Ríkið tekur m.ö.o. ekki þátt í að greiða fyrir þau almannagæði sem lífræn framleiðsla veitir, sem þó mun skipta komandi kynslóðir öllu máli. Hér á landi er framleiðendum gert að bera kostnaðinn eða velta út í verðlagið að fullu. Eftir því sem innflutningur eykst á lífrænt vottuðum afurðum sem njóta slíks stuðnings í sínu heimalandi sést glöggt hvað samkeppnisstaðan getur orðið skökk og hamlandi fyrir nýliðun þar sem framleiðendur hér á landi treysta sér ekki inn á leikvanginn við slíkan aðstöðumun.Tillögu matvælaráðuneytisins um aðgerðaráætlun fyrir lífræna framleiðslu er nú beðið með eftirvæntingu sem vonandi mun endurspegla breytta afstöðu til greinarinnar hér á landi.