Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku - fyrsti hluti
Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Hið árlega og þekkta danska fagþing nautgriparæktarinnar var haldið á dögunum og venju samkvæmt voru þar flutt mörg áhugaverð og framsækin erindi og þó svo að mörg þeirra lúti sér í lagi að danskri nautgriparækt eru alltaf margir fyrirlestrar sem eiga ekki síður erindi við alla þá sem stunda nautgriparækt í Evrópu.
Að þessu sinni voru erindin alls 68 talsins í tíu ólíkum málstofum. Hér verður gerð grein fyrir nokkrum af þeim fróðlegu erindum sem flutt voru í málstofunum sem fjölluðu um fóður, holdanautaeldi og bústjórn.
1. Fóður
Í þessari málstofu voru flutt sex erindi og þar á meðal var eitt afar fróðlegt sem sneri að nýrri nálgun við fóðrun geldkúa. Undanfarna áratugi hafa vísindamenn víða um heim komið með afar ólíkar ráðleggingar um hvernig sé best að fóðra kýr í geldstöðu og heimildir um slík ráð ná reyndar rúmlega 100 ár aftur í tímann! Nú virðist sem sjáist til lands varðandi þetta gamla þrætuepli og flestir eru á því að skipta skuli geldstöðunni upp í tvö megin tímabil, þ.e. fyrri hluta og síðari hluta geldstöðu. Fyrri hlutinn, sem nefnist „Far-off“ á ensku, stendur þar til þrjár vikur eru í burð og tekur þá síðari hlutinn við sem nefnist „Close-up“ á ensku.
Í þessu erindi var skýrt frá því af hverju það sé mikilvægt að skipta fóðruninni upp í tvö aðskilin tímabil en það felst í afar ólíkum þörfum kúnna sjálfra en flestir kúabændur þekkja það af eigin reynslu að nýbærur eru oft viðkvæmar fyrir áföllum en því betur sem þær eru búnar undir að hefja mjólkurframleiðslu, því minni líkur eru á því að þær lendi í einhverju áfalli eins og efnaskiptasjúkdómi svo dæmi sé tekið. Margir kúabændur hafa til þessa stundað það að flytja kýr í burðarstíur stuttu fyrir burð en í dag er bændum ráðlagt að hverfa frá slíku vinnulagi en færa þær frekar í velferðarstíur þremur vikum fyrir burð. Sé það gert eru kýrnar og kvígurnar rólegri, auk þess sem það gefur færi á því að fóðra þennan geldkúahóp sérstaklega.
Í stuttu máli sagt er munurinn á fóðrinu sá að í fyrri hluta geldstöðu eru kýrnar að fá mun lægri orkustyrk í fóðrinu en í síðari hlutanum og þá er geldstöðufóðrið í síðari hluta geldstöðunnar sýrt aukalega en það hefur jákvæð fyrirbyggjandi áhrif á efnaskiptasjúkdóma. Það er hins vegar ekki mælt með því að gefa kúm á fyrri hluta geldstöðu slíkt aukalega súrsað fóður og mæla danskir ráðunautar með því að bændur fylgist með sýrustigi hlands geldkúnna til þess að meta hvort breyta þurfi sýrustigi fóðursins. Rétt er að benda lesendum á að leita ráða hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins varðandi allar nánari upplýsingar um þessa þrepaskiptu fóðrun geldkúa.
Hærra prótein fyrir kýr
Annað áhugavert erindi fjallaði um breytta próteinfóðrun mjólkurkúa en um tilraunaverkefni var að ræða á vegum háskólans í Árósum. Gerð var tilraun með að þrepaskipta próteinfóðrun kúa þannig að þær fengu hátt hlutfall af fóðurpróteini á fyrri hluta mjaltaskeiðsins en lægra á síðari hluta þess.
Kýr eru alla jafnan í neikvæðu AAT-jafnvægi eftir burð og lægst í kringum viku eftir burð og gekk tilraunin út á að reyna að bæta úr þessu með því að gefa kúnum 23% prótein fyrstu 30 dagana eftir burð, þá 17% fram að 150. degi eftir burð og svo lækka hlutfallið niður í 15,4% á síðasta hluta mjaltaskeiðsins. Útreikningar háskólans sýna að þessi þrepaskipta próteinfóðrun skilar nytaukningu um 14% í samanburði við afurðir kúa sem fá 17% prótein allt mjaltaskeiðið. Þessi nytaukning þýðir jafnframt að 2/3 af því viðbótarpróteini sem kýrnar fengu skilaði sér sem mjólkurprótein í mjólkinni sem kýrnar mjólkuðu aukalega umfram hinar kýrnar. Með þá vitneskju í farteskinu hefur það verið reiknað út að þessi þrepafóðrun getur borgað sig, þrátt fyrir að fóðurpróteinið kunni að vera nokkuð dýrt. Það skal þó tekið fram að um tilraun var að ræða og enn er ekki búið að reyna þetta fóðrunarlag við hefðbundnar aðstæður.
2. Holdanautaeldi
Í þessari málstofu voru flutt fimm erindi en dönsk holdanautarækt er afar mikilvæg búgrein og er hún víða stunduð sem hliðarbúgrein samhliða öðrum búrekstri, en einnig eru til þónokkur bú sem eingöngu eru í holdanautarækt.
Flest erindin sneru í raun beint að dönskum skilyrðum til holdanautaframleiðslu og því ekki beint gagnleg íslenskum bændum en eitt erindið var þó áhugavert en það sneri að notkun holdanauta til varðveislu á náttúrunni!
Í mörgum löndum Evrópusambandsins eru veittir sérstakir umönnunarstyrkir til bænda en styrkina fá bændurnir fyrir það að sjá til þess að halda niðri vexti á gróðri á skilgreindum opnum svæðum. Sé ekkert gert, gróa þau upp t.d. með hríslum og runnagróðri og verða illnýtanleg auk þess sem skilyrði fyrir bæði ákveðna fugla, plöntur og skordýr hverfa. Nautgripir eru sérlega vel til þess fallnir að nýta í svona verkefni og fjallaði einmitt eitt erindið í þessari málstofu um þetta gagnmerka hlutverk.
Í erindinu kom m.a. fram að umönnun náttúrunnar með því að nýta grasbíta er hreint ekki einfalt mál enda krefst það mikillar vandvirkni svo tryggt sé að ákveðnar plöntur nái að vaxa og dafna á meðan öðrum sem eru óæskilegar sé haldið niðri. Reynslan sýnir að holdanaut eru afar gott „verkfæri“ til þess að halda niðri gróðri og því krefst það töluverðrar vinnu við beitarstjórn svo náttúran haldist í jafnvægi. Fram kom að styrkirnir sem bændur geta fengið duga ekki fyrir þeim kostnaði sem bændurnir hafa vegna beitarstjórnar og eftirlits auk þess sem eftirlitskostnaður hins opinbera er einnig verulegur. Niðurstaðan var í raun sú að ef Danir vilja halda í náttúruna og dýralífið sem þar býr þurfi að breyta styrkjakerfinu verulega þannig að bændurnir fái meira í sinn hlut. Þá geta þeir með góðu móti sinnt því hlutverki að vernda náttúruna, en um leið að geta fengið góðan og réttmætan afrakstur af vinnu sinni og holdanauta sinna. Hvernig þetta verður gert í framtíðinni er nú verið að ræða en þær hugmyndir sem eru ræddar er að vera með breytilega styrki eftir því hvaða plöntur og dýralíf þarf að vernda og að útbúa stjórn-tæki fyrir hið opinbera til þess að geta veitt nauðsynlegt eftirlit með þessum opnu svæðum sem holdanautin ganga á.
3. Bústjórn
Þessi málstofa innihélt níu ólík erindi sem var eiginlega hvert öðru betra. Má þar t.d. nefna stórgott erindi Íslandsvinarins og landsráðunautar SEGES hennar Vibeke Fladkjær Nielsen en hún fjallaði um legusvæði kúa. Tíð notkun á legudýnum í legubása mjólkurkúa er einmitt eitt af því sem íslenskar og danskar aðstæður í fjósum eiga sameiginlegt og í þessu erindi fór hún yfir kosti og galla ólíkra valkosta sem bændum stendur til boða þegar fjós eru byggð eða endurnýjuð. Gerð var tilraun með átta mismunandi legubásadýnur sem kýr gátu sjálfar valið á milli að leggja sig á. Í ljós kom að latexdýnur leiddu til lengri legutíma hjá kúm en hefðbundnar gúmmíkurlfylltar dýnur eða hreinar gúmmídýnur. Þá kom í ljós að kýrnar völdu jafnt dýnur með ólíku yfirborði en sumar voru með gúmmídúk og aðrar með trefjadúk. Það sem mestu réð um val kúa á legusvæði var staða þeirra í virðingarröðinni í fjósinu sem og hvar legubásinn var staðsettur innan fjóssins. Helst vildu kýrnar velja að liggja þar sem friður og ró var.
Í kjölfar rannsóknarinnar hafa nú verið gefnar út leiðbeiningar fyrir bændur þegar þeir velja undirlag í básana. Dýnurnar eiga að lágmarki vera 50 mm og gjarnan 60 mm þykkar, mýkt þeirra sem er mæld í kg/m3 má ekki vera undir 260 kg/m3 og gjarnan vera 300 kg/m3 og þá á yfirborð dýnanna að vera það mjúkt að þær geti ekki fengið nuddsár af því að liggja á dýnunum.
„Nudging“
Eftir því sem kúabúin stækka og verða tæknivæddari reynir meira og meira á innra skipulag búanna og því betra sem það er, því betur gengur reksturinn yfirleitt. Í þessu sambandi er mikilvægast að þeir sem vinna á búunum gangi í takt og til að ná þeim árangri hefur reynst einkar vel að fá fólk til að gera sömu hlutina og eins með því að breyta hegðan þeirra í smáum skrefum. Þetta kalla Danirnir „nudging“ en það gengur út á að ýja að breyttri hegðan frekar en að skipa fólki fyrir.
Dæmi um þessa aðferðarfræði er t.d. að setja lítið merki ofan í hlandskálar á karlasalernum eða mynd af flugu en svo virðist sem þetta litla atriði gjörbreyti umgengni á salernum karla og auki hittni verulega. Svona aðferð má s.s. einnig nota á kúabúum og fjallaði erindi bústjórans Adri Peereboom og vinnuráðgja SEGES, Helle Birk Domino, um þessa aðferð. Adri þessi er bústjóri á kúabúi með 850 mjólkurkýr og á búinu starfa 17 manns af þremur þjóðernum. Til þess að tryggja að öll vinnubrögð væru rétt og eins á hverjum tíma virkjaði Adri þessi allt starfsfólkið í því að skrifa niður vinnuferla, hvernig mætti gera þá betur og svo voru útbúnar einfaldar myndir og skýringartextar sem sýna hvernig er best að standa að hlutunum. Þetta hefur m.a. leitt til þess að starfsfólkið er ánægðara í vinnunni og vinnubrögðin eru mun staðlaðari nú en áður.
Kulnun meðal bænda
Kulnun eða vinnustreita er ástand sem getur myndast hjá fólki glími það við mikla streitu í starfi í langan tíma og á þetta jafnt við um störf kúabænda sem og annarra. Kulnun er ekki sjúkdómur heldur samsafn einkenna sem benda til þess að viðkomandi hafi lengi glímt við mikla streitu í sínu starfi og sú streita sé nú farin að hafa alvarleg áhrif á vinnugleði og líðan og getur lýst sér sem mikil líkamleg þreyta sem og sem tilfinningaleg og andleg uppgjöf. Um þetta efni fjölluðu tveir kúabændur, Anders Overgaard og Klaus Jørgensen, sem báðir hafa lent í þessu og greindu frá af hreinskilni hvernig þeir tókust á við vandamálið, en erfiðast fannst þeim að horfast í augu við það að eitthvað væri að. Svo virðist sem margir af þeim sem eru með kulnun líti á það sem mikið veikleikamerki og gerir það því hlutina oft mun verri.
Helstu andlegu einkenni kulnunar hjá kúabændum eru „allt fer í taugarnar á viðkomandi“, áhyggjur af hinu og þessu, sveiflur á lundarfari, minnisleysi, erfiðleikar með einbeitingu, áhugaleysi, skortur á matarlyst, þunglyndi og lítið sjálfsálit.
Vinnustreita getur einnig valdið líkamlegum einkennum eins og háum blóðþrýstingi, hausverk, magasári, grunnöndun, þreytu, exemi, skjálfta í höndum, svima, tíðum þvaglátum og fleira mætti nefna.
Bændurnir sem fluttu erindið bentu á að mikilvægast væri að fara til læknis og fá úr því skorið hvað væri að svo unnt væri að takast á við málið en þeir höfðu allir komist yfir sín vandamál með breyttum lifnaðarháttum. Sögðu þeir lausnina felast fyrst í því að horfast í augu við að það væri eitthvað að og leita sér hjálpar! Þá væri mikilvægt að þekkja einkennin sem fylgja þessu vandamáli og síðan að læra að forgangsraða því hvernig þeir sinna vinnunni og lifa sínu lífi. Að setja sér takmörk og læra að þekkja inn á sjálfan sig sé mikilvægara en margt annað. Þá er mikilvægt að hvílast vel og halda sér í góðu líkamlegu formi, það hjálpi verulega þegar vinnustreitan herjar á fólk. Að vera duglegur að taka sér raunverulegt frí og vera „latur“ var annað sem nefnt var að væri hverjum hollt að upplifa. Þá sögðu þeir einnig frá því að líf þeirra í dag væri gjörbreytt og mun betra en það var áður!
Í næsta Bændablaði verður haldið áfram umfjöllun um þetta áhugaverða fagþing en þess má geta að hægt er að skoða og hlaða niður öllum erindum af fagþinginu með því að fara inn á upplýsingasíðu danska landbúnaðarins www.landbrugsinfo.dk. Þar þarf svo að velja „Kvæg“ (þ.e. nautgriparækt) og þar undir „Kvægkongressen“.