Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Arney frá Ytra-Álandi. Knapi er Agnar Þór Magnússon.
Arney frá Ytra-Álandi. Knapi er Agnar Þór Magnússon.
Mynd / Kolla Gr.
Á faglegum nótum 24. janúar 2024

Hæst dæmdu hross ársins 2023

Höfundur: Elsa Albertsdóttir og Halla Eygló Sveinsdóttir.

Alls komu 528 hryssur og 232 stóðhestar til fullnaðardóms á árinu en dómar voru fleiri enda nokkuð um endursýningar. Alls var felldur 901 dómur sem er nokkuð í samræmi við fyrri ár þegar landsmót eru ekki haldin.

Hryssur 4 vetra

Þriðju hæstu aðaleinkunn 8,30 hlaut Hildigunnur frá Syðri-Gegnishólum. Ræktandi og eigandi Olil Amble. Hildigunnur er dóttir Álfakletts frá Syðri-Gegnishólum og Gráhildar frá Selfossi. Hildigunnur hlaut 8,51 fyrir sköpulag og 8,19 fyrir hæfileika. Hildigunnur er fríð og glæsileg á velli með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga. Hún er viljug og þjál alhliðahryssa með 8,5 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið og 9,0 fyrir samstarfsvilja.

Næsthæstu aðaleinkunn 8,37 hlaut Nóta frá Sumarliðabæ 2. Ræktendur eru Birgir Már Ragnarsson og Silja Hrund Júlíusdóttir en eigandi er Svarthöfði-Hrossarækt ehf. Nóta er undan Spuna frá Vesturkoti og Flautu frá Einhamri 2. Nóta hlaut 8,08 fyrir sköpulag og 8,52 fyrir hæfileika. Hún er þjál og viljug alhliðahryssa með 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt og 8,5 fyrir brokk, fet og fegurð í reið.

Hæsta aðaleinkunn ársins í þessum flokki var 8,62 sem er mögnuð einkunn en hana hlaut Arney frá Ytra-Álandi. Þetta er þriðja hæsta einkunn sem fjögurra vetra hross hefur hlotið fyrr eða síðar. Ræktandi hennar er Úlfhildur Ída Helgadóttir en eigendur eru Ragnar Skúlason og Úlfhildur Ída Helgadóttir. Arney er undan Skýr frá Skálakoti og Erlu frá Skák og er fjölhæfur alhliðagæðingur með frábærar gangtegundir en hún hlaut 8,31 fyrir sköpulag og 8,78 fyrir hæfileika. Arney hlaut 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið, 8,5 fyrir brokk, skeið, greitt stökk og fet, ótrúlegar einkunnir fyrir svo ungt hross.

Hryssur 5 vetra

Fjóla frá Garðshorni á Þelamörk hlaut þriðju hæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki, 8,50. Ræktendur hennar eru Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir Thorlacius en eigendur eru Hlynur Kristinsson og Sporthestar ehf. Fjóla er undan Adrían frá Garðshorni á Þelamörk og Grósku frá Garðshorni á Þelamörk. Fjóla er stórglæsileg alhliðahryssa með 8,60 fyrir sköpulag en hún fékk 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Fyrir hæfileika hlaut hún 8,45, m.a. 9,0 fyrir skeið og samstarfsvilja.

Næsthæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki hlaut Hugmynd frá Svignaskarði, 8,51, eins og reyndar efsta hryssan í þessum flokki en á milli skilja nokkrir aukastafir. Ræktendur og eigendur Hugmyndar eru Guðmundur Skúlason og Valdís Björk Guðmundsdóttir. Hugmynd er undan Apollo frá Haukholtum og Hugsýn frá Svignaskarði. Hún hlaut 8,50 fyrir sköpulag enda fríð hryssa með 9,0 fyrir bak og lend og samræmi og 8,5 fyrir höfuð og háls, herðar og bóga. Hugmynd fékk 8,51 fyrir hæfileika með 9 fyrir tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið.

Hæstu aðaleinkunn ársins í þessum flokki hlaut Ársól frá Sauðanesi. Ræktandi hennar er Ágúst Marinó Ágústsson en eigendur eru Jens Peter Sonne, Maja Lykke Groth og Marianne Sonne. Ársól er undan Spuna frá Vesturkoti og Sóllilju frá Sauðanesi. Ársól hlaut 8,24 fyrir sköpulag, m.a. 8,5 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi og hófa. Ársól er viljug og fjölhæf alhliðahryssa en hún er með 9,0 fyrir skeið, fet og samstarfsvilja og 8,5 fyrir tölt, brokk, hægt stökk og fegurð í reið.

Hryssur 6 vetra

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Kamma frá Margrétarhofi en hún er undan Spuna frá Vesturkoti og Kappadótturinni Hörpu frá Gunnarsstöðum I. Ræktandi og eigandi Kömmu er Margrétarhof hf. Kamma hlaut 8,59 í aðaleinkunn á síðsumarssýningu á Gaddstaðaflötum. Fyrir sköpulag hlaut hún 8,16 og fyrir kosti hlaut hún 8,82 þar af 9,5 fyrir samstarfsvilja og 9,0 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið. Kamma er léttbyggð og framfalleg alhliðahryssa með mjög gott bak og lend, rúm á gangi með úrvals samstarfsvilja.

Aðra hæstu einkunn í sex vetra flokki hryssna fékk Aþena frá Þjóðólfshaga 1 með 8,60 í aðaleinkunn. Aþena er undan Skýr frá Skálakoti og Örnu frá Skipaskaga. Aþena er ræktuð af Sigurði Sigurðarsyni og Sigríði Arndísi Þórðardóttur en er í eigu Svarthöfða- Hrossaræktar ehf. Fyrir sköpulag hlaut Aþena 8,37 þar sem flestir eiginleikar eru með 8,5. Fyrir kosti hlaut hún 8,97, þar af 9,0 fyrir tölt, hægt stökk, samstarfsvilja og fet. Aþena er fasmikil í reið með þjálan og mikinn vilja þar sem skreflengd og fótaburður einkenna gangtegundir.

Efsta sex vetra hryssan er Hildur frá Fákshólum sem er undan Ölni frá Akranesi og Gnýpu frá Leirulæk. Ræktandi Hildar er Jakob Svavar Sigurðsson en eigandi er Gut Birkholz GbR. Hildur hlaut í aðaleinkunn 8,65, fyrir sköpulag 8,69 og fyrir kosti 8,63. Hildur fékk 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Fyrir gangtegundir ber hæst skeiðið en hún er frábærlega vökur og hlaut 9,5 fyrir það, fyrir samstarfvilja hlaut hún 9,0. Hildur er afskaplega vel gerð hryssa, viljug og þjál með takhreinar vel aðskildar gangtegundir þar sem rými, skreflengd og fótaburður eru aðallinn.

Hryssur 7 vetra og eldri

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Nóta frá Flugumýri II en hún er undan Blysfara frá Fremra-Hálsi og Keilisdótturinni Smellu frá Flugumýri. Ræktendur eru Páll Bjarki Pálsson og Eyrún Anna Sigurðardóttir en eigendur eru Martin Skovsende og Eyrún Ýr Pálsdóttir. Nóta er afar vel gerð með 8,63 í sköpulag þar af 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Fyrir kosti hlaut hún 8,62 þar af 9,0 fyrir brokk og samstarfsvilja. Nóta er framfalleg, viljug alhliðahryssa með afar góða yfirlínu og kemur vel fyrir í reið, skrefmikil og lyftingargóð.

Aðra hæstu einkunn í elsta flokki hryssna fékk Kría frá Hvammi undan Kiljan frá Steinnesi og Ópal frá Hvammi. Ræktandi og eigandi Kríu er Pétur Benedikt Guðmundsson. Í aðaleinkunn hlaut Kría 8,68, þar af 8,06 fyrir sköpulag og 9,02 fyrir hæfileika. Hæst ber að nefna 10,0 fyrir samstarfsvilja, 9,5 fyrir skeið og 9,0 fyrir tölt, hægt tölt og fegurð í reið. Kría er algjör gæðingur á gangi og í geði. Framganga hennar einkennist af miklum fótaburði, rými og öryggi.

Hæsta hryssan í þessum flokki er gæðingshryssan Katla frá Hemlu II undan Skýr frá Skálakoti og Roðadótturinni Spyrnu frá Síðu. Ræktendur Kötlu eru Vignir Siggeirsson og Anna Kristín Geirsdóttir en eigendur eru Anja Egger-Meier og Kronshof GbR. Katla hlaut 8,79 í aðaleinkunn og er afar vel sköpuð með 8,66, þar af 9,0 fyrir höfuð, háls, herðar og bóga, samræmi og prúðleika. Fyrir kosti hlaut Katla 8,86, þar af 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið. Katla er einstakur gæðingur framfalleg og samræmisgóð og skartar jafnvægisgóðri og réttri líkamsbeitingu með mýkt, skrefstærð og fótaburði á gangi.

Stóðhestar 4 vetra

Þriðju hæstu einkunn ársins hlaut Sínus frá Bræðraá. Ræktendur hans eru Pétur Vopni Sigurðsson og Sigríður Pétursdóttir en eigandi er Nói Sigurðsson. Sínus er undan Skýr frá Skálakoti og Bylgju frá Sauðárkróki sem er undan Blæ frá Hesti. Hann er framfallegur og samræmisgóður og er nokkuð jafn fyrir sköpulag og hæfileika. Hæfileikar hjá þessum alhliðahesti skiptast nokkuð jafnt þar sem góð skreflengd og fótaburður lýsa framgöngu.

Næsthæstur fjögurra vetra stóðhesta er Kristall frá Jarðbrú undan Kiljan frá Steinnesi og Gleði frá Svarfhóli. Ræktandi og eigandi Kristals er Þröstur Karlsson. Fyrir sköpulag hlaut Kristall 8,16 þar af 8,5 fyrir háls, herðar og bóga og bak og lend. Heildarhæfileikar voru 8,25 þar af 9,0 fyrir samstarfsvilja. Kristall er skrefgóður, takthreinn alhliðahestur með úrvalssamstarfsvilja og hlaut aðaleinkunn upp á 8,22.

Efstur fjögurra vetra stóðhesta er glæsigripurinn og alhliðagæðingurinn Strengur frá Þúfum. Strengur er undan Sólon frá Þúfum og Kiljansdótturinni Hörpu frá Þúfum. Ræktendur og eigendur eru Mette Mannseth og Gísli Gíslason. Strengur hlaut frábæra einkunn fyrir sköpulag eða 8,74 þar af 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,60, þar af hæst fyrir greitt stökk 9,5, og 9,0 fyrir samstarfsvilja og fyrir aðra kosti 8,5. Aðaleinkunn Strengs 8,65 er önnur hæsta einkunn sem gefin hefur verið fjögurra vetra hrossi og verður afar spennandi að fylgjast með þessum stólpagrip á komandi árum.

Strengur frá Þúfum. Knapi er Gísli Gíslason. Mynd/ Kolla Gr.
Stóðhestar 5 vetra

Þriðju hæstu einkunn ársins í þessum flokki hlaut Náttfari frá Varmalæk undan Þráni frá Flagbjarnarholti og Nótt frá Varmalæk sem var undan Smára frá Skagaströnd. Ræktendur Náttfara eru Þórarinn Eymundsson og Sigríður Gunnarsdóttir en eigandi er Bo Hansen. Náttfari er afar vel gerður alhliðahestur sem hlaut 8,56 fyrir sköpulag, en fyrir hæfileika hlaut hann 8,48, hæst 9,0 fyrir tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið. Náttfari fer glæsilega á velli, er framfallegur, léttbyggður alhliðahestur, skrefmikill, með góðan fótaburð og úrvals samstarfsvilja.

Næsthæstu einkunn ársins hlaut fríðleika- og glæsihesturinn klárhesturinn Húni frá Ragnheiðarstöðum. Hann er undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Hendingu frá Úlfsstöðum. Ræktandi Húna er Helgi Jón Harðarson en eigendur eru Flemming Fast og Gitte Fast Lambertsen. Fyrir sköpulag hlaut Húni 8,76 þar sem hann skartar úrvals hálsi, herðum og bógum og samræmi upp á 9,5 og fyrir höfuð fékk hann 9,0. Kostirnir eru upp á 8,38 þar sem hæst ber að nefna 9,5 fyrir brokk og fegurð í reið, og fyrir tölt og samstarfsvilja hlaut hann 9,0. Framganga hans einkennist af fasmiklum léttstígum hreyfingum með miklum fótaburði.

Hæstu einkunn í fimm vetra flokki stóðhesta fékk Organistasonurinn Hljómur frá Auðsholtshjáleigu en móðir hans er Tíbrá frá Auðsholts- hjáleigu. Ræktendur Hljóms eru Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir en eigandi er Gunnar Arnarson ehf. Hljómur hlaut 8,65 í aðaleinkunn. Fyrir sköpulag hlaut hann 8,63 þar af 9,5 fyrir hófa og 9,0 fyrir bak og lend og samræmi. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,66, þar af 9,0 fyrir tölt, brokk, greitt stökk og samstarfsvilja. Hljómur er afar vel gerður með úrvalsyfirlínu og afar gott jafnvægi í skrokk, rúmur alhliðagæðingur með mikinn fótaburð og framsækinn vilja.

Stóðhestar 6 vetra

Þriðju hæstu aðaleinkunn 8,58 hlaut Glampi frá Skeiðháholti. Hann er undan Draupni frá Stuðlum og Orradótturinni Hrefnu frá Skeiðhá- holti. Ræktandi Glampa er Tanja Rún Jóhannsdóttir og á hún hestinn ásamt Vilmundi Jónssyni.

Fyrir sköpulag hlaut Glampi 8,45, þar af hæst 9,0 fyrir bak og lend. Fyrir kosti hlaut hann 8,65, þar af 9,0 fyrir tölt, brokk, greitt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Glampi er fallegur á velli með úrvals bak og lend. Framgangan er fasmikill og vilji og þjálni skila gangtegundum sem eru takthreinar, skrefmiklar, með góðum fótaburði.

Með aðra hæstu einkunn stóðhesta í 6 vetra flokki var Hringjari frá Efri- Fitjum sem ræktaður er af og í eigu Jóhannesar Geirs Gunnarssonar. Hringjari hlaut 8,60 í aðaleinkunn og er nokkuð jafn vel gerður og kostamikill. Fyrir sköpulag hlaut hann 8,54, þar af 9,0 fyrir bak og lend og hófa. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,62, þar af 9,0 fyrir tölt og samstarfsvilja og að uppistöðu 8,5 fyrir aðra eiginleika. Hringjari er framhár, rúmur, viljugur og þjáll alhliðahestur með góð gangskil.

Með hæstu einkunn í sínum flokki var Spunasonurinn Guttormur frá Dallandi en móðir hans er Gróska frá Dallandi. Ræktendur Guttorms er Gunnar Dungal og Þórdís Sigurðardóttir en eigandi er Hestamiðstöðin Dalur ehf. Guttormur hlaut 8,61 í aðaleinkunn þar af 8,44 fyrir sköpulag og 8,70 fyrir hæfileika.

Hann er jafngerður á sköpulag þar sem hæst ber að nefna 9,0 fyrir réttleika og hófa. Kostirnir eru úrvalsgóðir en fyrir tölt, brokk, skeið og samstarfsvilja hlaut hann 9,0. Hann er rúmur, skrefmikill og hágengur alhliðagæðingur með frábært tölt, brokk og skeið.

Stóðhestar 7 vetra og eldri

Þriðju hæstu einkunn hlaut Djáknar frá Selfossi með 8,62 í aðaleinkunn. Djáknar er undan Arion frá Eystra- Fróðholti og Diljá frá Hveragerði. Ræktendur eru Davíð Sigmarsson og Árni Sigfús Birgisson en eigandi er Von Blinkenberg. Fyrir sköpulag hlaut Djáknar 8,02 og fyrir kosti 8,94, þar af 9,5 fyrir hægt stökk og samstarfsvilja og 9,0 fyrir tölt, greitt stökk, fegurð í reið og fet. Djáknar er frábær alhliðahestur, mjúkur, takthreinn, skrefmikil með úrvalssamstarfvilja, framhár og hágengur.

Með næsthæstu aðaleinkunn ársins var glæsihesturinn Hylur frá Flagbjarnarholti en hann er undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Rás frá Ragnheiðarstöðum.

Ræktandi Hyls er Arnar Guðmundsson en eigandi er Heimahagi Hrossarækt ehf. Hylur er það hross sem býr að hæstu sköpulagseinkunn sem gefin hefur verið, 9,09. Nær allir eiginleikar sköpulags eru úrvalsgóðir en Hylur hlaut 9,5 fyrir samræmi, fótagerð og prúðleika. Fyrir kosti hlaut Hylur 8,45 en fyrir brokk, greitt stökk og samstarfsvilja hlaut Hylur 9,5. Hylur er stórglæsilegur klárhestur, viljugur og þjáll með úrvalsgangtegundum sem eru takthreinar, skrefmiklar og lyftingagóðar.

Hæstu aðaleinkunn ársins í elsta flokki stóðhesta hlaut úrvalsalhliðahesturinn Seiður frá Hólum eða 8,83 í aðaleinkunn. Hann er undan Trymbli frá Stóra- Ási og Ösp frá Hólum, ræktandi er Hólaskóli en eigandi er Sveinn Ragnarsson. Fyrir sköpulag hlaut Seiður 8,63, þar af 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Fyrir kosti hlaut hann 8,93, þar af 9,5 fyrir skeið og samstarfsvilja en fyrir tölt, brokk, greitt stökk og fegurð í reið hlaut hann 9,0. Gagnhæfni Seiðs er afbragð sem einkennist af takthreinum, jafnvægisgóðum og rúmum gangtegundum með góðum fótaburði.

Alls standa 241 stóðhestur að baki sýndum hrossum á Íslandi árið 2023. Hér til hliðar má sjá lista yfir þá fimmtán feður sem áttu flest sýnd afkvæmi.

Alls standa 241 stóðhestur að baki sýndum hrossum á Íslandi árið 2023. Hér má glöggva sig á þeim fimmtán feðrum sem áttu flest sýnd afkvæmi og ákveðnum meðaltölum afkvæma þeirra.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...