Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Himmelbjerget lagt undir fót
Á faglegum nótum 20. september 2016

Himmelbjerget lagt undir fót

Höfundur: Vilmundur Hansen

Allt frá því ég var barn hefur mig langað að ganga á Himmelbjerget í Jótlandi. Draumurinn rættist í sumar þegar ég heimsótti vinafólk mitt sem býr í Arhus í Dammörku.

Aðkoman að Himmelbjerget á bíl er átakalaus og ekkert sem bendir til að haldið sé á hæð sem að ég lærði í barnaskóla að væri hæsti punktur Danmerkur, 147 metrar yfir sjávarmáli. Frá bílastæðinu er hægur gangur á toppinn, líklega 300 metra  leið með lítils háttar hækkun sem maður tekur vart eftir.

Þrátt fyrir háðsglósur sam­ferðafólks míns sló hjartað í mér hraðar þegar við nálguðumst toppinn enda var ég í fyrsta skiptið á ævinni að komast á topp hæsta tinds nokkurs lands í heiminum. Guðjón Rúdólf Guðmundsson, vinur minn, glotti einkennilega til mín þegar ég náði sigri hrósandi á toppinn og lýsti því yfir að aldrei áður hefði ég verið jafnstoltur og aldrei áður hefðu mínar hálf-dönsku rætur staðið jafn djúpt í fold föðurlandsins. Karlmennskustoltið hreinlega skein úr augum mér og úsaði úr hverri svitaholu.

„Þú heldur það,“ sagði Guðjón og hló. Samferðakonu minni, Guðrúnu Helgu Tómasdóttur, sem átt hefur það til að ganga á Esjuna áður en hún mætir til vinnu á morgnana, þótti heldur ekki mikið til afreksins koma.

Ótrúlegt útsýni

Frá bílastæðinu liggur þægilegur malarstígur að toppi Himmelbjerget. Stígurinn er umlukinn háum og tignarlegum beykitrjám en þegar nær dregur er opið svæði og á toppnum er lágur turn hlaðinn úr rauðum múrsteinum.

Útsýnið af Himmelbjerget er meira en búast má við. Hæðin er öll skógi vaxin og hlíðar hennar sem snúa frá bílastæðinu, norður og vestur, eru furðubrattar og þaðan má með góðum vilja líta á Himmelbjerget sem fjall.

Frá toppnum er fallegt útsýni yfir Julsø-vatn og til Silkeborg og fjöldi göngu- og hjólastíga er í skóginum umhverfis Himmelbjerget.

Útivistarsvæði dönsku þjóðarinnar

Himmelbjerget á sér sérstakan stað í hjarta margra Dana. Skáldið og presturinn Steen Steensen Blicher, sem lést 1848, á mestan heiður af því að gera hæðina að vinsælum útivistarstað á fyrri hluta nítjándu aldar. Eigandi landsins setti upp greiðasölu og rukkaði fyrir aðgang að svæðinu. Kristjáni áttunda þótti ófært að almenningur þyrfti að greiða fyrir útivist á staðnum og krafðist þess að aðgangur að Himmelbjerget yrði öllum að kostnaðarlausu um alla framtíð. Landeigandanum til mikillar mæðu. Árið 1840 keypti kóngurinn hæðina og við það jukust vinsældir hennar til muna sem útivistarsvæðis.

Rauði múrsteinsturninn á toppi Himmelbjerget var opnaður almenningi árið 1875. Hann er 25 metra hár og var reistur fyrir samskotafé frá almenningi sem tók tæpan áratug að safna.

Við enda regnbogans

Samkvæmt gamalli danskri alþýðutrú stendur Himmelbjerget skammt frá öðrum enda Bifrastar, regnbogans sem er brú milli Miðgarðs, mannheima, og Ásgarðs, bústaðar ása, samkvæmt norrænni goðafræði. Goðið Heimdallur, sem er hvítastur ása, gætir brúarinnar og því oft á ferð við Himmelbjerget.

Í sjöunda sæti

Mér urðu sárgrætileg vonbrigði þegar Guðjón Rúdolf sagði að sjálft Himnabergið væri langt frá því að vera hæsti punktur Danmerkur. Seinna komst ég að því að útvaldir eru búnir að vitað þetta frá 1847, alveg sama hvað stendur í landafræðibókum frá því ég var í barnaskóla.

Hæsti tindur Danmerkur heitir Møllehøj og er 170,86 metrar yfir sjávarmáli. Í öðru sæti er Yding Skovhøj, 170,77, Ejer Bavnehøj er í þriðja sæti, 170,35 metrar. Lindbjerg í fjórða sæti og gnæfir 170,08 metra yfir sjávarmáli, Magretelyst SØ er í fimmta sæti, 169,78 metrar á hæð. Því næst kemur Vistofte, 169,44 metra að hæð og á eftir því er Himmelbjerget, ekki nema 14,7 metrar að hæð og í sjötta sæti sem hæsti punktur Danmerkur.

Þrátt fyrir að barnsdraumur minn hafi reynst sneypuför er ég samt stoltur í danska hluta hjartans yfir því að hafa lagt Himnabjargið að baki.

Skylt efni: Danmörk | Himmelbjerget

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...