Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Á faglegum nótum 20. febrúar 2015
Hugleiðingar um bætta afkomu sauðfjárbúa
Höfundur: Kristján Óttar Eymundsson Ráðunautur hjá RML
Afkoman er engin – þessum orðum hefur oft verið fleygt fram í umræðunni um sauðfjárbúskap á Íslandi. En hvaða leiðir á bóndinn að fara til að bæta afkomuna?
Í orði er auðvelt að skilgreina leiðina að bættri afkomu: Það er rekstur sem leitast við að hámarka framlegð eftir hverja vetrarfóðraða kind með sem minnstri skuldsetningu. Framlegð er skilgreind sem sá afgangur sem búið hefur til að mæta fasta kostnaðinum, þegar breytilegi kostnaðurinn hefur verið dreginn frá tekjum. Eftir því sem framlegðin er hærri hefur reksturinn því meiri burði til að greiða hærri laun og standa undir fjármagnsskuldbindingum. Það er staðreynd að sauðfjárbúskapur hefur aldrei þolað mikla skuldsetningu. Sú vitneskja, samhliða því að eignavirði jarða er oft á tíðum ekki í neinu samhengi við rekstrarvirði þeirra, hefur gert alla nýliðun mjög erfiða í greininni. Ekki verður farið nánar í þá sálma hér heldur er ætlunin að rýna betur í þá þætti sem hafa hvað mest áhrif á framlegðina.
Áhrif beingreiðslna
Greiðslumarkseign bús, í hlutfalli við fjölda sauðfjár, er sennilega sá þáttur sem mest áhrif hefur á framlegðina. Til fróðleiks eru hér sett fram tilbúin dæmi um 600 kinda bú, þar sem allar forsendur eru eins nema að greiðslumarkið er breytilegt. Árið 2014 er haft til hliðsjónar, þar sem afurðir eru settar sem landsmeðaltalið fyrir það ár og gert er ráð fyrir að tekjur af dilkakjöti sé 800 kr/kg (afurðastöðvarverð+gæðastýring+geymslugjald). Breytilegur kostnaður er hafður 12.000 kr/kind og ekki er tekið tillit til endurnýjunarþarfar á bústofni, enda gert ráð fyrir að hún sé eins á þessum búum og skekkir þannig ekki samanburðinn.
Strax verður ljóst að erfitt er að finna einhvern rekstrargrundvöll handa 600 kinda búi sem er án greiðslumarks. Framlegðin er mjög lág, sem setur búinu mjög þröngar skorður hvað varðar launagreiðslugetu og þol gagnvart fjármagnsskuldbindingum. Eini möguleikinn á þessu búi væri að auka afurðirnar umtalsvert. Ef afurðir eftir ána færu í 38 kg að þá þyrfti breytilegur kostnaður að haldast óbreyttur til að það næði sömu framlegð og bú 3 sem á 600 ærgildi. Ef litið er á afurðauppgjör skýrsluhaldsins í sauðfjárrækt kemur í ljós að það er ekki á færi nema mjög fárra aðila að ná svo miklum afurðum.
Ákjósanlegast væri að vera í stöðu bóndans sem væri á búi 4. Hann er með ríflega tvöfalt hærri framlegð en kvótalausi bóndinn og með tæplega 1,7 milljóna króna hærri framlegð en bóndinn sem á jafnmörg ærgildi og hann á af fé. Hér verður ekki hætt sér út í þá pólitísku gryfju sem umræðan um þessi mál er í né heldur hvað næsti sauðfjársamningur mun fela í sér. Staðreyndin er samt sú, miðað við núgildandi samninga og reglur, að greiðslumarkssterki bóndinn er að skila langhæstri framlegðinni.
Áhrif afurða og breytilegs kostnaðar
Mikill breytileiki er í afurðum á milli búa, sem felur í sér tækifæri hjá mörgum bændum til að bæta afkomuna. Hvert kg í auknum afurðum eftir ána er að skila um 400.000 kr. meiri tekjum á ári á búi með 500 ær. Þriggja kílóa afurðaaukning myndi auka tekjurnar um 100.000 kr/mán. Ef litið er á breytilega kostnaðinn til hliðsjónar að þá hafa búreikningar í gegnum árin sýnt þar mun minni breytileika á milli búa en er í afurðum. Það er í raun ekki óeðlilegt því þetta er sá þáttur sem bændur spara hvað fyrst við sig í. Lækkun áburðarkostnaðar upp á t.d. 300.000 kr. hefur samt mun minna að segja við framlegðarútreikninga á 600 kinda búi en að auka afurðirnar eftir ærnar. Gemlingarnir eru einnig víða vannýtt auðlind. Krafa bóndans ætti að vera sú að afurðir gemlinga væru ekki minni en helmingur á við afurðir ánna. Ef ærnar væru að skila 28 kg af kjöti ættu gemlingarnir að skila 14 kg o.s.frv.
Afurðaaukning þarf ekki að fela í sér mikinn aukinn kostnað heldur snýst hún miklu frekar um breytingar á búskaparlagi. Heyöflun búsins ræður þar miklu hvernig tekst til. Þó að féð sé í geldstöðu þorra innistöðutímans að þá þurfa gemlingar gott hey allan veturinn. Ærnar þurfa síðan gott fóður yfir fengitímann og frá 4–6 vikum fyrir burð. Úrvalshey þarf svo að vera til staðar á sjálfum sauðburðinum. Þarna getur verið misbrestur á hjá bændum. Til að ná þessum heyjum þarf á venjulegu sauðfjárbúi að heyja 30–40% túnanna snemma, sem væri svo hægt að slá upp seinnipart sumars. Yfirleitt liggur svo ekkert á að slá afganginn af túnunum, þar sem horft er frekar á magn en gæði. Það væri þess vegna hægt að skella sér í tveggja vikna hestaferð fyrst! Aðalatriðið er sem sagt að eiga hey sem uppfylla þarfir fjárins á álagstímum.
Rekstraráætlun
Markmiðstengd rekstraráætlun til 5 ára, sem er uppfærð árlega, er vannýtt bústjórnartæki meðal bænda.
Sú hefð virðist hafa skapast að bændur láti ekki gera rekstraráætlun fyrir sig fyrr en þeir eru búnir að ákveða að fjárfesta/framkvæma eitthvað og þá yfirleitt vegna kröfu frá bankanum. Þeirri hefð þarf að breyta. Rekstraráætlun á að vera órjúfanlegur hluti af bústjórninni eins og t.d. lambadómar eða áburðaráætlun. Hún segir bóndanum hvar sóknarfærin liggja í rekstrinum á hverjum tíma og hjálpar bóndanum við að taka réttar ákvarðanir í sinni daglegri vinnu.
Nú með hækkandi sól er alveg óhætt að leggja hrútaskrána aðeins til hliðar og gefa rekstraráætluninni aðeins pláss á náttborðinu hjá sér.