Yfirlitsmynd af svæðinu nálægt Svedjehamn í Kvarken-eyjaklasanum.
Yfirlitsmynd af svæðinu nálægt Svedjehamn í Kvarken-eyjaklasanum.
Mynd / Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Á faglegum nótum 25. nóvember 2024

Internorden 2024

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason, ráðunautur hjá RML og Jóhannes Sveinbjörnsson, lektor hjá LbhÍ.

Í ágúst sl. sóttum við Internordenfund sem að þessu sinni var haldinn í Finnlandi í borginni Vaasa og farið í heimsóknir í nágrenni borgarinnar.

Yfirskrift fundarins að þessu sinni var fóðrun sauðfjár, tækni við fóðrun og sjálfbærni framleiðslunnar enda áskoranir og ytra umhverfi breytilegt eftir löndunum sem taka þátt.

Í almennum yfirlitserindum um stöðu sauðfjárræktar í norrænu ríkjunum var sameiginlegur tónn að samdráttur er í framleiðslunni, þrátt fyrir að verð til bænda hefur víðast hækkað síðustu árin vegna minni innflutnings, og í sumum tilfellum eins og í Finnlandi vegna betra fyrirkomulags afurðastöðva. Meðal helstu ástæðna fyrir samdrætti eru kostnaðarhækkanir og breytingar á ytra umhverfi, þar með talið á þeim reglum Evrópusambandsins er snerta greinina. Samhliða því að afkoma greinarinnar er slæm er baráttan við rándýr eins og úlf mikil áskorun fyrir sauðfjárbændur í Svíþjóð, Finnlandi og hluta Noregs en skilningur stjórnvalda á þeim vanda er breytilegur.

Þátttaka í sameiginlegu skýrsluhaldi og kynbótastarfi er hvergi í námunda við það sem við þekkjum hérlendis. Það að hafa aðeins eitt fjárkyn sem kynbætt er fyrir öllum helstu eiginleikum skapar Íslandi sérstöðu í þessum efnum. Einnig sú staðreynd að hluti ríkisstuðnings er skilyrtur við gæðastýringu í sauðfjárrækt, sem innifelur m.a. þátttöku í sameiginlegu skýrsluhaldi. Í Færeyjum hafa bændur litlar áhyggjur af skýrsluhaldi. Erfitt er að hafa fulla stjórn á tilhleypingum, hrútar lemba full oft ær nágrannanna eða hljóta beisklegan aldurtila eins og að hrapa fyrir björg.

Á fundum sem þessum verður oft sérstök áhersla á hvað hefur verið gert í rannsóknum í fundarlandinu og voru hér nokkur erindi um slík verkefni í Finnlandi. Má þar nefna viðamikið verkefni um kortlagningu erfðaauðlinda með hjálp erfðatækninnar á þeirra eigin fjárkyni, þ.e. Finnsheep, sem hefur talsvert verið notað í innblöndun við önnur fjárkyn. Finnar hafa einnig verið þátttakendur í samevrópsku verkefni þar sem hópur bænda tileinkar sér nýjar lausnir og nýja tækni til að vera leiðandi í baráttunni við loftslagsmál og ná fram kolefnishlutleysi þar sem landbúnaður er hluti af lausninni en ekki vandamál.

Hópur í heimsókn á Ingos-sauðfjárbúinu.

Ásamt fræðslu og fundum var líka farið í skoðunarferðir og fékk hópurinn góða leiðsögn um borgina Vaasa sem á sér mjög merka sögu þar sem borgin var um tíma miðja í átökum milli Svíþjóðar og Rússlands. Líkt og á mörgum stöðum í Finnlandi er Vaasa tvítyngt samfélag þar sem finnska og sænska eru opinber tungumál. Inni í borginni sjálfri er meirihlutinn finnskumælandi en þegar út fyrir borgina er komið er meirihluti íbúa sænskumælandi. Munurinn sést best á umferðarskiltum, inni í borginni eru þau alltaf fyrst á finnsku og svo sænsku fyrir neðan en þegar út fyrir bæinn er komið eru skiltin alltaf fyrst á sænsku og svo á finnsku.

Hópurinn fór í heimsókn á „Ingos“-sauðfjárbúið sem hefur byggt sína starfsemi upp af mikilli útsjónarsemi undanfarin ár en viðskiptamódelið sem þau byggja sinn búskap á gengur út á að framleiða hágæða lambakjöt fyrir staðbundinn markað í samstarfi við veitingahús sem nýta alla hluta lambsins á matseðilinn. Jafnframt eiga þau í samstarfi við geðsjúkrahús í Vaasa þar sem kindur frá þeim eru á beit á lóð sjúkrahússins með jákvæðum áhrifum á bata þeirra sem þangað þurfa að leita.

Lagt af stað í siglingu með Ulf Rönnblad.

Einnig var farið í siglingu í Kvarken-eyjaklasanum í næsta nágrenni Vaasa en þetta svæði er mjög merkilegt út frá jarðfræðilegu sjónarmiði og má sjá ýmis merki ísaldarinnar sem lauk fyrir um 10.000 árum. Landið er að lyftast um einn cm á ári og hafnarmannvirki sem reist voru fyrir 60 árum eru komin á þurrt. Alveg öfugt við það sem við þekkjum frá Þingvallasigdældinni. En þarna í eyjaklasanum er mikið af sumarhúsum þar sem Finnar dvelja langdvölum í frítíma. Áhugavert var að heyra að á þessu svæði þarf fólk að hafa lögheimili til að geta átt eignir, þ.e. eignarhald á sumarhúsum getur ekki farið út fyrir svæðið.

Johan Sten yfirfer stillingar á eftirlitsmyndavél. Mynd / Jóhannes Sveinbjörnsson

Að lokinni formlegri dagskrá bauðst okkur að fara með finnskum bændum á fjárræktarfélagsfund sem haldinn var í einni af eyjunum í Kvarken-eyjaklasanum. Það var mikil upplifun að fara í þá siglingu þar sem Ulf Rönnblad, stjórnandi bátsins, þekkti svæðið eins og lófann á sér, enda búinn að vera bóndi allt sitt líf og siglt um svæðið. Þarna sigla þeir með kindurnar út í eyjar að vori til beitar og sækja svo að hausti og sigla með á fast land. Með þessu er verið að viðhalda aldagamalli hefð við landnýtingu. Á meðan bændurnir funduðu um sín málefni fórum við í göngu um eyjuna með Johan Sten, sem er einn bændanna sem nýtir eyjuna. Hann sagði frá því hvernig er að smala landið sem er þakið skógi en ekki er einfalt að finna kindurnar í landslaginu. Við smalamennsku eru mikið notaðir hundar sem eru með GPS-tæki. Hundarnir finna hópana og svo er farið markvisst í að sækja hvern hóp og koma í aðhald við bátalægið, þaðan sem siglt er með féð í land. Notaðar eru myndavélar sem nema hreyfingar til að fylgjast með ferðum rándýra, en ekki eru mörg ár síðan úlfur gerði usla á þessu svæði og drap margar kindur.

Internorden samstarfið er mjög hagnýtt, sérstaklega til að byggja upp tengsl og miðla upplýsingum milli landa því við erum í grunninn að fást við svipaða hluti í öllum löndum en tungumálið og aðstæður eru breytilegar milli landanna. Næsti fundur er áætlaður í Færeyjum um veturnætur árið 2026. Það verður áhugavert fyrir margar sakir, en á hrútasýningum þar í landi skilur maður vel hugtakið „það má heyra saumnál detta“, slík er eftirvæntingin.

Skylt efni: INTERNORDEN

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...