Kornrækt og jarðvinnsla
Hér á landi hafa orðið miklar framfarir í jarðrækt síðustu tvo áratugi. Trúlega má að stórum hluta þakka það kornræktinni sem hefur aukist og eflst síðan upp úr 1990. Bændur hafa í auknum mæli endurræktað tún sín og notað kornrækt sem lið í skiptirækt.
Ný og öflug jarðræktartæki eins og fjölskera plógar, herfi af ýmsum gerðum og sáðvélar hafa verið tekin í notkun. Mörg þessara tækja bjóða upp á fjölbreytta notkun, mismunandi vinnsludýpt og mismikið niðurbrot jarðvegsins. Einnig er kominn til landsins nokkur fjöldi öflugra sáðvéla sem henta til sáningar við fjölbreyttar aðstæður, bæði til sáningar í unnið land sem og sáningu beint í svörðinn án undangenginnar jarðvinnslu.
Íslenska sumarið er stutt og svalt og því má lítið út af bregða til að bygg nái þroska. Því er mikilvægt að geta sáð bygginu eins snemma á vorin og mögulegt er án þess að slá af kröfum um góða jarðvinnslu og gott sáðbeð. Tilraunir á Korpu hafa sýnt að seinkun sáningar um einungis nokkra daga dregur bæði úr uppskeru og þroska kornsins. Því er mikilvægt að nýta allan þann tíma frá því hægt er að fara um flög sem best og vinna hratt og vel. Bændur með stóra akra og verktakar þurfa að komast yfir sem mest af jarðvinnu og sáningu á sem skemmstum tíma eftir að hægt að hefja vinnsluna.
Bygg nýtir lofthitann mismunandi eftir því hvar á vaxtarskeiðinu það er. Meðan kornið er að spíra og koma upp nýtir það allan hita yfir 0°C og eftir að ljóstillífun hefst nýtir það allan hita yfir 4°C. Þegar byggið fer að safna sterkju í fræið seinnipart sumars þarf það hita yfir 10°C til að flytja forða úr blöðum og stöngli upp í axið. Þar sem svo heitum dögum fækkar að öllu jöfnu þegar líður á sumarið er mikilvægt að byggið skríði sem fyrst svo nýting sumarhitans verði sem best til kornþroska.
Bændur og verktakar hafa leitað leiða til að auka afköst vorvinnunar með ýmsu móti. Hér á landi hefur algengasta leiðin til að flýta fyrir vorvinnu verið að plægja kornakra eftir uppskeruvinnu á haustin. Haustplæging getur haft í för með sér afrennsli ef landið er í halla og einnig getur fínn og frjósamur jarðvegur fokið burt ef það hvessir á auða jörð um veturinn.
Í vel unnu landi er hægt að nota sáðbeðshrífu og/eða þjöppunarvals aftan við hefðbundinn plóg þannig að hægt sé að sá í akurinn strax að lokinni plægingu og spara þannig tíma en sú aðferð hefur ekki verið notuð hér á landi. Aðrar leiðir eru að nota afkastameiri tæki en plóg við vorvinnuna t.d. einhverja útfærslu af herfingu eða að sá beint í akurinn án undangenginar jarðvinnslu, svokölluð núll jarðvinnsla. Báðar þessar aðferðir eru algengar hjá nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum og reyndar um allan heim.
Sumrin 2013 og 2014 hefur verið tilraun í gangi í Keldudal í Skagafirði þar sem borin hefur verið saman mismunandi jarðvinnsla fyrir byggrækt. Tilraunin var lögð út á þrenns konar jarðvegi, í framræstri mýri, í móajarðvegi og í sandjarðvegi. Á öllum stöðum hafði verið ræktað bygg áður en í sandinum og mýrinni var hveiti sumarið 2012. Borin var saman hefðbundin haust- og vorplæging. Skoðað var hvort létt yfirborðsherfing að hausti til að dekkja yfirborðið gæti flýtt fyrir hlýnun jarðvegs að vori og þannig flýtt fyrir jarðvinnslu.
Að auki voru reitir þar sem notuð var svokölluð plógherfing og sáning án djúprar jarðvinnslu. Plógherfing er afkastamikil jarðvinnsla sem virkar ekki ósvipað hefðbundinni plægingu nema að jarðveginum er ekki snúið á moldverpi. Því er illgresisfræ og plöntuleifar frá árinu áður enn á yfirborðinu þó svo að eitthvað sé grafið við vinnsluna. Ný kynslóð plógherfa býður upp á fjölbreytt úrval af sáðbeðsherfum og/eða þjöppunarvölsum aftan við herfið þannig að landið er tilbúið til sáningar þegar búið er að herfa eina umferð. Þriggja metra plógherfi afkastar tvöfalt til þrefalt á við 4-5 skera vendiplóga. Í síðasta reitnum var einungis yfirboðið herfað (mjög grunnt) til að hægt væri að sá með reitasáðvél í reitina og þannig var líkt eftir núll jarðvinnslu. Allir reitir voru yfirborðsherfaðir með pinnatætara til að jafna yfirborð og búa til gott sáðbeð. Innan hvers jarðvinnslureits voru svo reitir með mismunandi köfnunarefnismagni og mismunandi sáðmagni til að sjá hvort þeir þættir í samspili við jarðvinnsluna hefðu einhver áhrif á vöxt og þroska kornsins. Notað var sexraða yrkið Judit og borið á nægjanlegt af P og K.
Jarðvinnsla og uppskera
Haustplæging í mýri einangrar jarðveginn á vorin þannig að frost er lengur að fara úr og jörðin helst köld lengur fram á vorið. Haustplæging mýrarinnar og móajarðvegsins dróg ekki úr uppskeru en þroskinn var heldur minni en á vorplægðum reitum seinna árið. Ekki var munur á hefðbundnum plægingareitum í sandinum. Herfing akurs að hausti flýtti í engu fyrir jarðvinnslu að vori og dró heldur úr uppskeru sumarið eftir bæði á mýrinni og móanum.
Á mynd „Meðaluppskera áranna 2013–2014“ eru niðurstöðurnar fyrir bæði árin teknar saman. Þar hefur öllum plægingareitum verið slegið saman og þeir bornir saman við alla plógherfingu og alla 0-jarðvinnslu eftir jarðvegsgerðum. Í mýrinni skilaði plógherfingin sambærilegri uppskeru og hefðbundin plæging meðan 0-vinnslan dró úr uppskeru um þriðjung. Í móanum dró plógherfingin úr uppskeru um 30% og 0-jarðvinnslan um 43%. Í sandinum var plógherfingin að skila 43% lakari uppskeru en plæging og 0-vinnslan 71% lakari uppskeru. Bæði plógherfingin og núll jarðvinnslan skiluðu alls staðar svipuðum kornþroska og hefðbundin plæging.
Illgresi og sjúkdómar
Þekja illgresis var metin 19. júní sumarið 2014. Plógherfuðu reitirnir og núll-jarðvinnslu reitirnir skáru sig úr hvað illgresi varðar og var illgresisþekjan í plógherfaða móanum metin 70% og í núll jarðvinnslu í mýrinni yfir 90%. Ljóst er að illgresið dró verulega úr uppskeru.
Sumrin 2013 og 2014 voru úrkomusöm í Skagafirði og voru akrarnir verulega smitaðir af sveppasjúkdómnum augnflekk bæði sumurin. Smitið var heldur verra seinna sumarið þannig að sumir reitir höfðu lagst. Ekki er hægt að fullyrða hversu mikið blaðsjúkdómar drógu úr uppskeru þar sem ekki voru samanburðarreitir sem búið var að verja gegn sjúkdómum. Í tilrauninni var uppskera á mýrinni 2014 einungis 72% af uppskeru ársins 2013 þrátt fyrir að vaxtarskilyrði korns væru mun hagstæðari 2014 og kornið mun betur þroskað. Á Korpu og fleiri tilraunastöðum er búið að gera allmargar tilraunir með úðun byggakra gegn augnflekk. Smitið og uppskerutapið er mismunandi á milli ára og vitað er að sexraða yrki eru næmari fyrir augnflekk en tveggja raða yrki. Einnig er vitað að tjón af völdum augnflekks er meira í þungum jarðvegi (mýri) en á léttari jarðvegi. Í mýrinni í Keldudal hafði verið hveiti sumarið 2012 og vera má að það hafi dregið úr smiti árið eftir, auk þess sem sumarið 2012 hafði verið mjög þurrt og því lítið um sveppasmit.
Í tilraun sem gerð var í Miðgerði í Eyjafirði sumarið 2003 kom í ljós mikill ávinningur af úðun með bæði illgresiseyði og sveppalyfi (mynd 4). Sáð var í gamlan akur sem hafði verið herfaður og því væntanlega mikið um illgresisfræ og plöntuleyfar á yfirborði. Úðun gegn bæði illgresi og svepp skilaði að meðaltali um 70% uppskeruaukningu.
Búið er að gera allmargar tilraunir með sáðskipti við byggrækt hér á landi og eru niðurstöðurnar allar á einn veg. Uppskera byggs minnkar ár frá ári ef bygg er ræktað stöðugt í landinu en uppskera byggs eykst aftur ef landið er hvílt af byggrækt og notað undir t.d. rýgresi eitt sumar.
Áburður og sáðmagn
Notaðir voru þrír skammtar af köfnunarefnisáburði vorið 2013, 30-60-90 kg N/ha á allar jarðvegsgerðir. Árið 2014 voru sömu skammtar notaðir nema í sandinum þar sem skammtarnir voru 40-80-120-160 kg N/ha. Niðurstöðurnar voru nokkuð eftir bókinni. Á mýrinni jókst kornuppskera ekki við það að bera á meira en 30 kg N/ha. Þroskinn minnkaði marktækt við aukið N-magn sumarið 2013 en ekki 2014. Í móanum og í sandinum skiluðu auknir N-skammtar marktækri uppskeruaukningu en lítillega dró úr þroska. Sumarið 2013 mældist marktækt samspil á milli jarðvinnslu og köfnunarefnismagns í móajarðveginum. Það bendir til þess að það megi að hluta vega upp uppskerutap af léttari jarðvinnslu með auknum köfnunarefnisáburði en þetta þarf að skoða betur.
Notaðir voru þrír skammtar af sáðkorni 150-200-250 kg/ha. Í mýrinni skilaði aukið sáðmagn úr 150 kg/ha í 250 kg/ha 17% aukinni uppskeru eða 650 kg/ha sumarið 2013 en 12% uppskeruaukningu sumarið 2014. Í móanum skilaði sáðmagn umfram 150 kg/ha engum uppskeruauka. Þessu var á sama veg farið í sandinum fyrra árið en seinna árið var marktæk aukning uppskeru fyrir sáðmagni en þar hafði köfnunarefnisskammturinn verið aukinn verulega milli ára. Sáðmagn hafði lítil áhrif á þroska kornsins.
Sáning
Rétt er að vekja athygli á því að búið er að gera allmargar tilraunir með sáningu þar sem borið hefur verið saman niðurfelling áburðar með fræinu við að bera áburðinn á akurinn með hefðbundnum dreifara. Niðurstaðan hefur öll verið á einn veg, verulegur uppskeruauki er við að fella niður fræ og áburð í sömu rás. Reikna má með að ávinningurinn sé á bilinu 15-25% aukning uppskeru. Því miður eru margar sáðvélar í notkun hér á landi sem einungis eru með eitt sáðhólf og gefa því ekki kost á því að fella áburð niður með fræinu. Það er ljóst að bændur sem sá í byggakra sína með þannig vélum eru að draga úr mögulegri uppskeru.
Einnig hafa verið gerðar tilraunir með sáðdýpt. Besta raun gaf að sá eins grunnt og mögulegt er en samt að hylja fræið eða 1-2 cm. Undantekning frá þessu er þegar verið er að sá í sand en þá gaf besta raun að sá í 4,5cm dýpt.
Lokaorð
Ef einungis er horft á þann sparnað sem hlýst af léttari jarðvinnslu eða sleppa jarðvinnslunni alveg er ljóst að sá sparnaður hverfur strax í minni uppskeru að því gefnu að sáðtíminn sé sá sami. Bændur og verktakar verða að vega og meta hverju sinni hversu mikið má græða á plægingu og móti plógherfingu eða núll jarðvinnslu ef það er vegið saman við seinkaðan sáðtíma. Seinkun sáðtíma um 60 daggráður (u.þ.b. 10 daga) getur dregur úr uppskeru um 30% sem er sami munur og á hefðbundinni plægingu og plógherfingu í móajarðvegi.
Hefðbundin plæging grefur um 95% af öllu nýju illgresisfræi en færir um leið lítillega af eldra fræi upp á yfirboðið. Plógherfing eða herfing með diskaherfi grefur lítillega ný illgresisfræ og færir jafnframt eitthvað af eldra fræi upp á yfirborðið þannig að illgresissmit jarðvegsins verður alltaf meira en við góða plægingu. Vilji bændur nota herfi við jarðvinnslu en komast hjá því að þurfa að úða með illgresiseyði er best að nota saman herfingu og plægingu og plægja t.d. annað hvert ár. Þannig má plægja upp tún og setja í það korn og nota svo herfingu annað árið og svo koll af kolli. Trúlega má að einhverju leyti leiðrétta uppskerumun hefðbundinnar plægingar og léttari jarðvinnslu með því að úða illgresiseyði og sveppalyfi á akrana en það þarf að skoða betur. Ef á annað borð er verið að úða illgresislyfi er rétt að nota einnig sveppalyf til að halda blaðsjúkdómum niðri en þessum efnum má blanda saman og úða einungis einu sinni.
Við beina sáningu (0-jarðvinnslu) er allt illgresisfræ við yfirborð með bestu hugsanlegu aðstæður til spírunar. Þeir sem kjósa að nota beina sáningu þurfa að sætta sig við árlega úðun fyrir illgresi og hugsanlega einnig blaðsjúkdómum en það þarf að kanna betur við hérlendar aðstæður.