Maríulyklar, litríkt síðvetrarskraut
Maríulyklar (Primula) eru stór ættkvísl blómfagurra plantna sem hafa verið vinsælar garðplöntur í aldanna rás. Eftirsóknarverð blómin eru gríðarlega fjölbreytt á litinn og margir safna ólíkum litbrigðum tegunda innan ættkvíslarinnar.
Yfir 500 tegundir eru í ættkvíslinni og mikill áhugi víða á kynbótum til að búa til ný yrki. Nú þegar vorið er að nálgast færast þessi fallegu blóm úr uppeldi í íslenskum gróðrarstöðvum yfir í híbýli landsmanna. Einkum og sér í lagi er það tegundin laufeyjarlykill, Primula vulgaris, og yrki af honum sem koma á markað mjög snemma á vorin, sem vetrarblómstrandi maríulyklar eða prímúlur.
Uppruni laufeyjarlykils
Laufeyjarlykill er evrópsk tegund og sá maríulykill sem byrjar einna fyrst að blómstra á vorin, jafnvel í mars-apríl. Tegundin sjálf er gulblómstrandi. Nokkrar undirtegundir laufeyjarlykils er að finna austur um og yfir í Asíu og koma þar inn fleiri blómlitir. Laufeyjarlykillinn þrífst best í hæfilega rökum jarðvegi, hvorki of blautum né þurrum. Hann þarf ekki sól allan daginn og líður vel í hálfskugga.
Heiti ættkvíslarinnar, Primula, er dregið af latneska orðinu primus sem þýðir að vera fyrstur, í tilfelli maríulykla að þeir eru fyrstir til að blómstra snemma vors. Ein smágerð tegund af maríulykilsætt, maríulykill (Primula stricta) lifir villt á Íslandi en er afar sjaldgæf og talin í hættu á að hverfa úr íslenskri náttúru. Önnur tegund, Davíðslykill (Primula egalikensis), hefur fundist á Íslandi en er nú talin útdauð hér.
Útlitseinkenni
Laufeyjarlykill er með heil, aflöng laufblöð sem sitja í jarðlægri hvirfingu og blómin koma upp á 10–15 cm háum stilkum, nokkur blóm í knippi á hverjum stöngli. Blómin geta verið einlit eða í fleiri litum, blómlitir skærir og á hverju ári koma fram ný og skemmtileg yrki sem heilla garðeigendur.
Góð bæði inni og úti
Yfirleitt tengir fólk að laufeyjarlykill sé útiblóm en hann má einnig nota sem inniplöntu. Hann er þá í sölu á útmánuðum og fram á sumar. Laufeyjarlykillinn verður yfirleitt aðeins einær sem inniplanta en gefur mikla gleði í lok vetrar með sínum marglitu blómum. Það getur verið erfitt að halda honum á lífi eftir að blómin hafa sölnað og því tilvalið að gróðursetja hann úti að því loknu, þá er hann líklegur til að tækla aðstæðurnar sjálfur sem útiplanta.
Inniprímúlur verða endingarbetri ef þær eru hafðar á svölum stað í vægum skugga, td. á borði í stofu eða eldhúsi fremur en í gluggakistu yfir ofni og ekki látnar þorna, þá verða þær litrík síðvetrarblóm í heimahúsum.
Laufeyjarlykill nær sjaldnast að lifa af veturinn nema í allra skjólbestu görðum og verður þá yfirleitt ekki langlífur. Hins vegar nýtist hann mjög vel eins og sumarblóm í ker og potta snemma vors, þegar fáar aðrar tegundir eru farnar að huga að blómgun og garðeigendur orðnir langeygir eftir blómum. Það er því tilvalið að gleðja augun og andann með laufeyjarlykli, þessum litríku síðvetrarblómum.