Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Á faglegum nótum 31. mars 2016
Meira vinnuhagræði – minni sóun
Höfundur: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, fagstjóri í búfjárrækt hjá RML
Vinnuhagræðing, betri nýting aðfanga og skilvirkari rekstur er verkefni sem allir sem reka fyrirtæki standa frammi fyrir daglega.
Tölur úr búreikningum sýna svo ekki verður um villst að margir geta sótt talsvert í bættan rekstur búsins og því mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á að skoða allar færar leiðir í því skyni. Í nágrannalöndum okkar hafa menn í auknum mæli innleitt svokölluð skilvirknikerfi eða bústjórnarkerfi inn í vinnu við landbúnað í því skyni að ná betur utan um verkferla og daglega vinnu á búunum til að hámarka nýtingu á aðföngum og vinnuafli í verðmætasköpun á búinu.
Síðustu ár hafa bú stækkað og þau orðið tæknivæddari. Með stærri framleiðslueiningum og breyttum búskaparháttum fjölgar þeim sem koma að vinnu á búinu annaðhvort sem fastir starfsmenn eða verktakar í ákveðin verkefni. Góð verkstjórn og verkefnastjórnun er því orðinn mjög mikilvægur þáttur í rekstrinum.
LEAN management
„LEAN management“ er vel þekkt um allan heim í stjórnun. Á íslensku hefur þetta verið kallað straumlínustjórnun og á uppruna sinn hjá Toyota-verksmiðjunum í Japan. Aðferðafræðin hefur verið aðlöguð að búrekstri og notuð með góðum árangri m.a. í Danmörku. Í grundvallaratriðum snýst LEAN um að draga úr sóun í framleiðsluferlunum. LEAN þýðir „magurt“ og því er markmiðið að skapa meiri verðmæti með minni aðföngum, eða að framleiðnin sé aukin með meiri skilvirkni.
Meðal grundvallaratriða í LEAN eru að öðlast skilning á virðiskeðju búsins, að búa til gott flæði í vinnuna og að stöðugt sé unnið að því að bæta verkferla. LEAN er ekki einsskiptisaðgerð heldur snýst um að koma upp vinnumenningu á búinu þar sem stöðugt er leitast við að finna skilvirkari og skynsamari leiðir við framkvæmd vinnunnar.
Hvernig er unnið með LEAN
LEAN byggir á þeirri hugmyndafræði að framleiðsla eigi að taka mið af eftirspurn þannig að eingöngu sé framleitt það sem viðskiptavinurinn vill kaupa. Hér er ekki eingöngu verið að tala um framleiðslu á mjólk eða kjöti fyrir neytendur heldur þarf að skilgreina innan framleiðslueiningarinnar/búsins hverjir eru framleiðendur og hverjir eru viðskiptavinir í hinum ýmsu ferlum á búinu.
Einfalt og skýrt dæmi er til dæmis að tún og akrar eru framleiðandi að fóðri fyrir þá gripi sem eru á búinu. Gripirnir eru viðskiptavinurinn og af túnum og ökrum þarf að koma fóður af réttu magni og réttum gæðum fyrir gripina. Of mikil framleiðsla á heyi sem ekki er not fyrir á búinu og hugsanlega er ekki hægt að selja fyrir ásættanlegt verð er sóun.
Í gegnum þessa aðferðafræði hefur verið hægt að sækja mikla hagræðingu í rekstri búa og það má sjá það fyrir sér að hægt sé að nýta hana, hvort heldur sem er hvað varðar einstaka lykilþætti í framleiðsluferlinu eða heildstætt í öllum búrekstrinum.
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins mun dagana 11.–13. apríl standa fyrir námskeiðum í notkun á LEAN til að auka skilvirkni í búrekstri. Fyrirlesari á námskeiðinu er Vibeke F. Nielsen, landsráðunautur hjá SEGES P/S í Danmörku. Sérsvið hennar er bústjórn og betri nýting framleiðslutækja. Hér í blaðinu er einnig þýdd og staðfærð grein eftir hana sem birtist í Kvæg í desember 2010.