Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fyrirtækið Lactalis starfar um heim allan og er með mörg heimsþekkt vörumerki á sínum snærum t.d., President, Parmalat, Skånemejerier og nú Siggi‘s skyr síðan árið 2018.
Fyrirtækið Lactalis starfar um heim allan og er með mörg heimsþekkt vörumerki á sínum snærum t.d., President, Parmalat, Skånemejerier og nú Siggi‘s skyr síðan árið 2018.
Á faglegum nótum 21. september 2021

Nestlé ekki lengur stærsta fyrirtækið!

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Hollenski landbúnaðarbankinn Rabobank gefur árlega út lista yfir stærstu afurðafyrirtæki heims í mjólkuriðnaði, byggt á veltu þeirra af sölu mjólkurafurða.

Undanfarin ár og raunar áratugi hefur hið heimsfræga fyrirtæki Nestlé trónt tryggt á toppi þessa lista og borið höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki á þessu sviði en þeir sem hafa fylgst með þróun heimsmálanna undanfarin ár hafa séð franska fyrirtækið Lactalis sækja hart að Nestlé. Nú er svo komið að sérfræðingar Rabobank telja að Lactalis sé orðið stærra en Nestlé og það eru í raun stórtíðindi á þessum markaði.

Covid-19 með mikil áhrif

Árið 2020 reyndist fyrirtækjum í mjólkur­iðnaði erfitt, rétt eins og flestum öðrum fyrirtæk­jum, vegna heims­faraldurs­ins og sést það einna helst á veltu­tölum 20 stærstu fyrirtækjanna á þessu sviði en hún lækkaði um 0,1% miðað við fyrra ár.

Það er einsdæmi að heildar­veltan í mjólkuriðnaði drag­ist saman en til við­mið­unar þá jókst velta þessara sömu fyrirtækja um 1,8% árið 2019.

Skýringin á samdrætt­inum felst fyrst og fremst í því að heildsöluþjónusta afurðasölufyrirtækjanna við fyrirtæki í beinni sölu matvæla dróst verulega saman. Þá urðu miklar tafir við afhendingu og sendingar á árinu sem höfðu einnig mikil samdráttaráhrif.

Þrátt fyrir þessa stöðu varð samdrátturinn þó ekki meiri en raun ber vitni og bendir það til þess að flest fyrirtækjanna hafi náð að aðlaga söluferla sína hratt að breyttum aðstæðum. Þannig jókst til að mynda sala margra þeirra á vörum í hefðbundum verslunum, sem og í netverslunum, enda breyttist neysluhegðun neytenda mikið á árinu.

Aukin neysla heima

Hin breytta neysluhegðun á árinu 2020 kom m.a. fram í stóraukinni sölu á mjólkurvörum sem tengjast morgunverðarborði neytenda og þannig jókst t.d. sala á drykkjarmjólk. Það er í fyrsta skipti sem slík þróun sést eftir mörg ár með hjaðnandi sölu hennar.


Þá jókst veru­­lega sala á mjólkur­vörum sem notaðar eru við hefðbundna matargerð á heimilum um heim allan s.s. á rjóma, smjöri og ostum.

Umhverfisáhrifin skipta máli

Í skýrslunni kemur einnig fram að hliðaráhrif Covid-19 á neytendur hafi m.a. verið sú að aukið hlutfall þeirra er nú betur meðvitaður um umhverfisáhrifin sem fylgja framleiðslu og sölu mjólkurvara. Þetta kemur m.a. fram í sölutölum á mjólkurvörum sem sérstaklega eru framleiddar með umhverfissjónarmið í huga. Flest þeirra 20 fyrirtækja á lista Rabobank hafa nú þegar sett sér skýr markmið um að draga úr sótspori sínu og sum þeirra gefið út, eins og gert hefur verið hér á landi, að eyða því með öllu, innan 2ja til 3ja áratuga. Ennfremur jókst sala á mjólkur­vörum sem byggja í auknum mæli á notkun endurnýjanlegra umbúða eða mjólkurvörum þar sem stigin hafa verið ákveðin skref í að gera umbúðirnar umhverfisvænni t.a.m. með því að draga úr plastnotkun.

President er eitt af vörumerkjum Lactalis.

Nýr leiðtogi

Eins og áður hefur komið fram er franska einkafyrirtækið Lactalis nú orðið umsvifamest í heiminum þegar horft er til sölu mjólkurafurða. Fyrir 20 árum var Lactalis metið það níunda stærsta í heiminum og var velta þess þá, á verðgildi ársins 2000, 4,8 milljarðar dollara.

Fyrirtækið hefur því vaxið á þessum tveimur áratugum um meira en 370%! Til að setja þennan vöxt í samhengi þá hafa önnur fyrirtæki vissulega vaxið líka á þessu tímabili en flest mun minna og t.d. þá jókst velta Nestlé á tímabilinu um 60%, sem er vissulega myndarlegur vöxtur en setur ótrúlegan vöxt Lactalis í gott samhengi. Rétt er þó að taka fram að hér notar Rabobank verðgildi ársins 2000 í samanburði við árið 2020 svo raunvöxtur miðað við verðgildi er væntanlega eitthvað minni.

Vöruþróun og samruni

Tvær meginástæður skýra þennan öra vöxt Lact­alis. Sú fyrri er áhersla þess á stöðuga þróun mjólk­ur­vara, sem hefur gefið því tækifæri til þess að vaxa með markaðinum, en hin skýringin felst í mark­vissum uppkaup­um og samruna við önnur fyrirtæki í sama geira.

Þá hafa þegar borist fregnir af því að fyrirtækið hyggist taka yfir ostaframleiðsludeild hins bandaríska Kraft Heinz og við það mun Lactalis vaxa enn frekar um 2,5 milljarða dollara! Það stefnir því allt í það að hinn nýi leiðtogi meðal afurðafyrirtækja í mjólkuriðnaði ætli sér að stinga önnur fyrirtæki af. Þó er líklega full snemmt að afskrifa aðra aðila enda hafa mörg fyrirtæki af þeim 20 sem prýða lista Rabobank svipaða áherslu, þ.e. á vöruþróun og samruna.

Um Lactalis

Það sem er nokkuð sérstakt við Lactalis er að það er í einkaeigu. Fyrirtækið var stofnað í Laval í Mayenne í Frakklandi árið 1933 af André Besnier. Hann byrjaði á því að framleiða camenbert osta og tókst það svo vel að fyrirtækið hefur nánast verið í veldisvexti síðan. Lactalis er s.s. enn í eigu Besnier fjölskyldunnar og í dag er það barnabarn André, Emmanuel Besnier, sem er forstjóri þess.

Fyrirtækið starfar um heim allan og er með mörg heimsþekkt vöru­merki á sínum snærum t.d. President, Parmalat, Skånemejerier og Siggi‘s en það síðastnefnda er þekkt vörumerki í skyrframleiðslu og var stofnað af Sigurði Hilmarssyni í Bandaríkjunum en Lactalis keypti fyrirtækið árið 2018.

Samvinnufélag bænda þriðja stærsta

Á eftir Lactalis og Nestlé kemur svo hið bandaríska Dairy Farm­ers of America sem er einfaldlega oftast kallað DFA. Þetta er samvinnufélag þarlendra bænda og er einnig það fyrirtæki í heiminum sem er með mesta innvigtun mjólkur.

Það kann því að vekja upp spurningar um af hverju það er ekki með mesta veltu á heimsvísu, fyrst það er með mest mjólkurmagn en skýringin felst í því að DFA selur mikið af hrámjólk beint til annarra afurðafyrirtækja. Er því ekki í fullvinnslu mjólkurafurða í sama mæli og önnur fyrirtæki á lista Rabobank. Þetta hefur reyndar verið að breytast hjá DFA en árið 2019 rann Dean Foods saman við DFA, en Dean Foods er með fjölbreytt úrval mjólkurvara.

Litlar aðrar breytingar meðal 10 stærstu

Þegar listinn er skoðaður nánar hafa ekki orðið miklar aðrar breytingar á honum frá fyrra ári en þó höfðu hið danska Arla og kínverska Mengniu sætaskipti.

Arla, sem er samvinnufélag bænda líkt og DFA, var reyndar eina evrópska samvinnufélagið á lista Rabobank sem náði að auka veltuna, án samruna eða með uppkaupum, á árinu 2020. Alls jókst velta þess um 1,1% á milli ára. Skýringin á m.a. rætur að rekja til tengslanna við Menginu en Arla á hlut í hinu kínverska fyrirtæki.

Þar sem faraldurinn kom fyrst upp í Kína lokaðist hratt þar í landi fyrir hefðbundna sölu mjólkurvara til veitingastaða og stóreldhúsa og þurfti því að bregðast hratt við. Þarna fékkst mikilvæg reynsla sem forsvarsmenn Arla bjuggu að þegar sama ástand skapaðist í Evrópu nokkrum mánuðum síðar og gat félagið því brugðist hraðar við stöðunni en önnur fyrirtæki. Til samanburðar má geta þess að heildarvelta hollenska samvinnufélagsins FrieslandCampina dróst saman á árinu 2020 um 1,4%.

Spá stöðugleika

Skýrsluhöfundarnir hjá Rabobank spá því að stærstu fyrirtækin á markaðinum muni halda áfram að vaxa og dafna á komandi árum og að markaðurinn fyrir mjólkur­vörur sé nokkuð stöðugur.

Framgangur matvæla sem ætlað er að keppa við mjólkur­vörur, t.d. drykkir sem unnir eru úr höfrum svo dæmi sé tekið, hafi ekki haft teljandi áhrif og í raun stækkað markaðinn. Þá séu umsvif þessara fyrirtækja slík að samdrætti á einum markaði, t.d. vegna innkomu matvæla úr plöntuafurðum, sé auðvelt að svara með sókn á aðra markaði þar sem mjólkurvöruneysla sé enn afar lítil.

Þar er sérstaklega bent á að á þeim áratug sem nú er hafinn muni íbúum heimsins fjölga um 750 milljónir og að 35% þessa mannfjölda muni bætast við í Afríku einni.

Þar sé neysla mjólkurvara enn afar lág á hvern íbúa og því mikil sóknarfæri í þeirri heimsálfu fyrir mjólkurafurðir á komandi árum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...