Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Okra er með allra hitaþolnustu aldinplöntum sem þekkjast. Plönturnar þola vel leirjarðveg og löng þurrkatímabil en illa kulda og frost.
Okra er með allra hitaþolnustu aldinplöntum sem þekkjast. Plönturnar þola vel leirjarðveg og löng þurrkatímabil en illa kulda og frost.
Á faglegum nótum 31. maí 2019

Okra eða dömufingur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Okra er áhugaverð planta sem er hluti af daglegri fæðu milljóna fólks í Suðaustur-Asíu og Vestur-Afríku. Aldin plöntunnar er fáséð í verslunum hér á landi en plantan er auðveld í ræktun hvort sem það er í glugga eða gróðurhúsi. Við góð skilyrði blómstrar planta 60 dögum eftir sáningu og myndun aldins tekur ekki nema nokkra daga eftir það.

Áætluð heimsframleiðsla FAOSTAD, Tölfræðideildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, á okra árið 2017 var rúm 9,6 milljón tonn.

Áætluð heimsframleiðsla sam­kvæmt FAOSTAD, Töl-fræðideildar Matvæla- og landbúnað­ar­stofnunar Sameinuðu þjóðanna, á okra árið 2017 var rúm 9,6 milljón tonn. Indland er langstærsti framleiðandi okra í heiminum og er framleiðslan þar ríflega sex milljón tonn á ári og hefur aukist um rúmlega helming frá síðustu aldamótum. Nígería er í öðru sæti með rúm tvö milljón tonn á ári. Þar á eftir kemur Súdan sem framleiðir tæp 300 þúsund tonn árlega, Malí er í fjórða sæti með rúm 200 þúsund tonn á ári og Fílabeinsströndin í því fimmta með 158 þúsunda tonna ársframleiðslu. Lönd eins og Níger, Pakistan Kamerún, Gana, Írak, Malasía, Malasía, Egyptaland, Benín, Mexíkó og Filippseyjar fylgja svo í kjölfarið og framleiddu frá rúmum 153 þúsund tonnum og niður í 31 tonn af okra árið 2017.

Líkt og vænta má er Indland langstærsti útflytjandi okra í heiminum með um 75% markaðshlutdeild, Nígería er í öðru sæti með 12% og Súdan því þriðja með 3% af heimsmarkaðinum.
Þegar kemur að innflutningi eru lönd í Afríku og Asíu stærstu kaupendurnir en í Evrópu eru það Bretland og Frakkland sem flytja inn mest af okra og er það rakið til mikils fjölda fólk frá Afríku og Asíu sem búa í landinu.

Þversnið af aldini.

Ekki fundust upplýsingar um innflutning á okra á heimasíðu Hagstofu Íslands enda innflutningur á tegundinni lítill og ekki skráður sér.

Ættkvíslin Abelmoschus og tegundin okra

Fimmtán tegundir blómstrandi plantna sem finnast villtar í Afríku, Asíu og norðurhluta Ástralíu teljast til ættkvíslarinnar Abelmoschus. Plöntur innan ættkvíslarinnar Abelmoschus heyrðu áður undir ættkvíslina Hibiscus en teljast sér ættkvísl í dag.

Plöntur innan ættkvíslarinnar eru tví- eða fjölærar, með trefjarót og ná allt að þriggja metra hæð með rauðleitum stilk. Laufið þriggja til sjö fingrað og gróftennt, 10 til 40 sentímetra langt og breitt, dökkgrænt á rauðleitum stilk og stundum með rauðar æðar. Blómin fjórir til átta sentímetrar í þvermál, krónublöðin fimm, hvít og gul og oft rauðleit eða bleik við blómbotninn. Ein tegund sem finnst villt á Indlandi ber rauð blóm. Aldinið, grænt eða rautt, 5 til 20 sentímetra langur belgur með mörgum ljósum fræjum. 

Flesta tegundir innan ættkvíslarinnar eru ætar, bæði aldin og lauf og sumar tegundir eru nýttar í trefjar. Tegundin Abelmoschus esculentus, eða okra, er þekktust og sú sem mest er notuð til matargerðar.

Erfðir, uppruni og útbreiðsla

Þrátt fyrir að okra hafi víða breiðst út frá ræktun út í náttúruna er plantan sem slík ekki þekkt villt og líklegt að hún sé ræktunarblendingur A. ficulneus og A. tuberculatus.

Til eru yrki af okra sem bera rauð aldin.

Flestir sem láta sig slíkt varða telja víst að uppruna okra sé að finna þar sem rússneski grasa- og erfðafræðingurinn Nikolai Vavilov flokkaði sem útbreiðslusvæði frá Eþíópíu eða það sem áður var kallað Abyssína en er í dag Eþíópía, Erítrea og hluti af Sómalíu. Auk þess sem okra breiddist út frá þessu svæði gerðu nytjaplöntur eins og hveiti, bygg, millet, lín sesam, indigó og kaffi það líka.

Talið er að okra hafi borist frá Abyssína-svæðinu til Norður-Afríku, landa við botn Miðjarðarhafs, Arabíu og Indlands. Okra barst til Asíu yfir Rauðahafið eða frá Eþíópíu yfir Adelsund sem aðskilur Eþíópíu og Jemen. Talið er að plantan hafi breiðst út frá Arabíuskaga til Asíu með kaupmönnum.

Egyptar og Márar á tólftu og þrettándu öld kölluð plöntuna bamya, heiti sem er líklega upprunnið í Eþíópíu. Mári frá Spáni segist hafa séð okra í heimsókn sinni til Egyptalands 1216. Hann segir Egypta rækta plöntuna og borða aldinið á meðan þau eru fersk. Engar leifar af okra hafa fundist í grafhýsum í Egyptalandi.

Okra barst til Mið- og Suður-Ameríku með þrælum frá vesturströnd miðbiks Afríku eða þrælaströndinni og til er heimildir sem getur um plöntuna í Brasilíu árið 1658 og Súrínam 1686. Talið er að okra hafi borist til Norður-Ameríku snemma á átjándu öld. Plantan var ræktuð í Fíladelfíuborg 1748. Talið er að plantan hafi verið þekkt um öll suðurríki Bandaríkjanna um aldamótin 1800 og sex árum síðar má sjá auglýst ólík okrayrki í bandarískum frælistum. Thomas Jefferson, þriðji forseti Bandaríkjanna Norður-Ameríku, sáði henni í Monticello garði sínum í Virginíu árið1809.

Í dag er plantan ræktuð víða í hitabeltinu, við Miðjarðarhafið, suðurríkjum Bandríkjanna og í Evrópu allt norður á Bretlandseyjar.

Eins og með flestar nytjaplöntur er til fjöldinn allur af ólíkum yrkjum og afbrigðum af okra sem eru ólík að lögun, lit, bragði og stærð. Auk þess sem ólík yrki eru mislengi að vaxa. Eftirfarandi yrki eru öll sögð fremur harðgerð og bragðgóð: Baby Bubba Hybrid, Blondy, Burgundy, Cajun Delight, Clemson Spineless, Cow Horn, Emerald, Go Big, Hill Country Red, Louisiana Green Velvet, Perkins Long Pod, Red Velvet og Silver Queen.

Nafnaspeki

Uppruni ættkvíslarheitisins Abelmoschus er í arabísku ????? ???????  ,abu l-misk, og þýðir faðir muskus-ilmsins. Tegundarheitið esculentus þýðir að plantan sé æt.

Blómin eru fjórir til átta sentímetrar í þvermál, krónublöðin fimm, hvít og gul og oft rauðleit eða bleik við blómbotninn.

Á ensku kallast plantan okra, ladies' fingers eða ochro. Á Filippseyjum, eyjum Karíbahafsins og Nígeríu kallast hún okro með margs konar ólíkum framburði. Uppruni okra eða okro heitisins mun vera hjá ættbálki Igbo fólksins í suðausturhluta Nígeríu sem kalla plöntuna og aldin hennar ?´k?`r?`.

Í suðausturríkjum Bandaríkjanna Norður-Ameríku, Norður- og Suður- Karólínu, Georgíu, Mississippi og Louisiana, er aldinið mikið notað í kássur. Talið er að heitið á kássu, gumbo, þar um slóðir megi rekja til þræla sem þangað voru fluttir frá þrælaströnd Vestur-Afríku þar sem plantan kallast (ki)ngombo.

Portúgalar kalla aldini quiabo en Spánverjar quingombo en á Indlandi kallast það vendakkai, bendakkai eða bhindi.

Ræktun og nytjar

Okra er með allra hitaþolnustu aldinplöntum sem þekkjast. Plönturnar þola vel leirjarðveg og löng þurrkatímabil en illa kulda og frost. Í ræktun eru fræin látin í bleytu næturlangt eða lengur áður en þeim er sáð á eins til tveggja sentímetra dýpi. Að öllu jöfnu tekur fræin eina til þrjár vikur að spíra eftir rakastigi. Ungar plöntur þurfa talsvert vatn til að ná góðum vexti en eftir því sem planta stækkar minnkar vatnsþörfin.

Vegna þess hversu plönturnar eru þolnar fyrir þurrki eru bundnar miklar vonir við aukna ræktun á henni á þurrkasvæðum í Afríku.

Við góð skilyrði blómstrar planta 60 dögum eftir sáningu og myndun aldins tekur ekki nema nokkra daga eftir það. Eftir blómgun trénar aldinið fljótt og því nauðsynlegt að safna því óþroskuðu eigi að nýta það til átu.

Aldinbelgina má borða hráa eða matreidda með öðrum mat. Aldinið sem er hitaeiningasnautt er 90% vatn, 2% prótein og 7% kolvetni og í því er engin fita. Það inniheldur C og K vítamín og magnesíum. Laufið er ríkt af kalsíum, járni og A vítamíni.

Lauf okra er hluti af daglegri fæðu hundruð þúsunda ef ekki milljóna fólks í Suðaustur-Asíu og Vestur-Afríku. Á meðan laufið er ungt er það matreitt á svipaðan hátt og lauf rótarkáls eða fíflablöð, auk þess sem það er borðað hrátt sem salat. Fræin má steikja á pönnu en þau er líka þurrkuð og möluð og notuð í uppáhellingu eins og kaffi. Á tímum borgarastyrjaldarinnar milli Norður- og Suðurríkja Bandaríkjanna var víða kaffi­skortur. Til að vega upp skortinn var reynt að telja almenningi trú um að okrakaffi væri allt eins gott og innflutt kaffi frá Ríó. Einnig er búið til te úr laufi plöntunnar.

Aldin okra er mikið notuð í suðurríkjum Bandaríkjanna í matseld sem kennd er við kreóla og kajun.

Úr fræjunum má pressa okraolíu sem sögð bæði ilma og bragðast vel, fræin eru einnig notuð til að búa til tofu og árið 2009 sýndu rannsóknir að olían var góð sem lífdísill. Trefjar plöntunnar eru notaðar í snæri, vandaðan pappír og talsvert til að styrkja fiberplast og -gler. Auk þess sem plantan hefur reynst ágætlega til að búa til sápu og þegar kemur að því að hreinsa mengandi efni úr jarðvegi.

Bragðvont og slepjulegt

Ekki eru allir sammála um bragð­gæði og lystugleika okra. Sumir segja aldinið bragðgott og góða viðbót í matargerð en aðrir segja aldinið bæði slepjulegt og bragðvont. Í bandarískri könnun, að vísu nokkuð gamalli, sem gerð var á huga fólks til aldins okra flokkuðu fullorðnir það sem eitt af fjórum bragðverstu og ólystugustu aldinum sem það hafði smakkað og börn settu í annað sæti sem versta grænmetið í heimi á eftir brokkolí.

Þeim sem þykir aldinið gott segja það hafa mikla möguleika og skilja ekkert í óvinsældum þess. Plantan er enn sem komið er nánast laus við sjúkdóma og afætur sem herja á aðrar nytjaplöntur.

Önnur nýrri könnun sýndi að okra er það grænmeti sem fólk á Fílabeinsströnd Afríku þykir best og borðar mest af.

Hvað svo sem vinsældum okra viðkemur er aldinið gríðarlega mikið notað í löndum hitabeltisins og þurrum svæðum Afríku þar sem litið er á plöntuna sem góða uppskeru fyrir lítil samfélög og þorp.

Best þykir aldinið á meðan það er glansandi grænt og ferskt og ferskast er það ef það hrekkur í sundur með smelli sé það sveigt. Ekki er mælt með að þvo aldinið fyrr en rétt fyrir notkun, annars á það til að verða slepjulegt viðkomu og ólystugt á að líta. Best þykir að vindþurrka aldinið eigi að geyma það. Einnig er hægt að fá okra niðursoðið.

Slepjukennt innihald aldinsins er sagt vinna gegn of háu kólesteróli og sykurmagni í blóði og aldinið því líklegt til vinsælda sem heilsuvara. Slepjan er einnig laxerandi og því góð við hægðatregðu eldri borgara og annarra sem lenda í slíkum vanda.

Nánast öll okra á markaði í dag er ræktað í litlu magni í heimagörðum nema þá helst á Indlandi

Talið er að ræktun á okra eigi eftir að aukast mikið í framtíðinni, sérstaklega á svæðum sem eiga eftir að þola þurrka vegna veðurfarsbreytinga. Hugsanlegt er að hér sé um að ræða verulega vannýtta nytjaplöntu.

Í Tyrklandi eru fersk okrablöð notuð til að draga úr bólgum og safi hennar er sagður græðandi á svipaðan hátt og safi aloa vera.

Dömufingur og þjóðtrú

Hvíli á þér bölvun er sagt gott að fylla fötu með volgu vatni og kreista nokkra okraaldinbelgi út í vatnið og leysa þá upp á meðan farið er með bæn eða Sálm 37 sem hefst á þessu versi:

Ver eigi bráður þeim sem illt vinna,
öfunda eigi þá sem ranglæti fremja
því að þeir fölna skjótt sem grasið,
visna sem grænar jurtir.

Því næst skal standa í baðkari og hella innihaldi fötunnar yfir höfuðið þannig að það renni niður eftir líkamanum og nudda því á húðina með því að strjúka höndunum niður á við á meðan beðin er bæn.
Að þessu loknu er okraseyðinu og bölvuninni skolað í niðurfallið með því að fara í sturtu.

Okra á Íslandi

Tilraunir með að rækta okra á Íslandi lofa góðu. Lubova Cvedkova og Hlynur Sigurbergsson sem reka Garðyrkjustöðina Kinn í Ölfusi gerðu tilraun með að rækta okra í sameldi með fiskum, aquaponics, fyrir nokkrum árum.

Lubova segir að ræktunin hafi gengið vel í alla staði. „Ræktunin var eingöngu til heimanota og aðallega til að prófa hana. Fræin spíruðu vel og plönturnar voru fljóta að vaxa og mynda aldin.“ Lubova segir að blóm okra séu einstaklega falleg og aldinið mjög gott á bragðið sé það steikt á pönnu með smjöri og hvítlauk.

„Plönturnar verða fremur hávaxnar og því þarf að rækta þau í gróðurhúsum með talsverðri lofthæð og hentuðu því ekki til ræktunar í stórum stíl hjá okkur.“

Auk þess hefur Dagur Brynjólfsson, sem á garðyrkju­stöðina Birkihlíð í Reykholti í Biskupstungum ræktað okra í sameldi með góðum árangri.

Aldin plöntunnar er fáséð í verslunum hér á landi en plantan er auðveld í ræktun í stórum potti og venjulegri pottamold, hvort sem er í glugga eða gróðurhúsi.

Við góð skilyrði blómstrar planta 60 dögum eftir sáningu og myndun aldins tekur ekki nema nokkra daga eftir það.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...