Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Vetrarkornstilraunin á Hvanneyri þann 9. júlí 2024. Vetrarhveiti er mest ræktaða korntegund heims og ein sú uppskerumesta.
Vetrarkornstilraunin á Hvanneyri þann 9. júlí 2024. Vetrarhveiti er mest ræktaða korntegund heims og ein sú uppskerumesta.
Mynd / hsh
Á faglegum nótum 22. júlí 2024

Ræktunartækni vetrarkorns á Íslandi

Höfundur: Hrannar Smári Hilmarsson, tilraunastjóri í jarðrækt hjá LbhÍ.

Til vetrarkorns teljast helst tvær tegundir: vetrarrúgur (Secale cereale) og vetrarhveiti (Triticum aestivum). Blendingurinn rúghveiti hefur ekki verið í prófunum nýlega en þó standa vonir til að breyta því.

Hrannar Smári Hilmarsson.

Vetrarbygg og vetrarhafrar eru almennt séð með minna vetrarþol, þó svo að ræktun þeirra hafi færst norðar á bóginn undanfarin ár. Það sem aðgreinir vetrarkorn frá vorafbrigðum sömu tegundar er að vetrarafbrigði þurfa kuldameðhöndlun til þess að skríða, meðan vorafbrigðin skríða á sáðári.

Vetrarrúgur er vetrarharðgerðari en vetrarhveiti. Rúgur fer fyrr af stað á vorin og skríður talsvert fyrr en hveiti. Rúgur er hins vegar víxlfrjóvga og frjóvgast best í þurrum og hlýjum aðstæðum í fylgd við milda golu. Annars frjóvgast plönturnar seint og illa sem kemur helst niður á gæðum kornsins. Hveitið, sem fer hægar af stað, nær upp þeim mismun með skjótri og öruggri sjálffrjóvgun.

Vetrarhveiti er mest ræktaða korntegund heims og ein sú uppskerumesta en heimsmetið er frá Lincoln-skíri á Englandi, tæp 18 tonn á hektara. Meðaltals uppskera hveitis í heiminum er tæp fjögur tonn en rúgs innan við þrjú tonn á hektara. Í tilraunum hér á landi hefur rúgurinn sýnt meiri uppskeru, reyndar svo mikla að í tilraun á Möðruvöllum í Hörgárdal tímabilið 2009–10 var uppskera á rúg nærri níu tonn á hektara þegar hveitið gaf rétt rúm fjögur tonn. Sömu ár voru tilraunir á Korpu í Reykjavík, þar skilaði rúgur um þrjú og hálfu tonni en hveiti rúmu tonni á hektara. Þar var lifun rúgs eftir veturinn metin um 60% en hveitis um 30%.

Kröfur vetrarkorns fyrir kuldameðhöndlun eru mismunandi eftir tegundum og yrkjum en vetrarharðgerði fer á víxl við snemmbæran skriðtíma. Plöntur sem gerar litlar kröfur til kuldameðhöndlunar fara því snemma af stað á vorin sem kemur niður á þeim í umhleypingum og því farast þær þegar kólnar aftur á útmánuðum. Meira vetrarharðgerði veldur því að þær fara seinna af stað á vorin og eru því lengur að þroskast. Þessi áskorun, að þróa plöntur sem eru vetrarharðgerðar og snemmþroska, er verkefni plöntukynbótafræðinga.

Vetrarlifun er víða vandamál en reynslan hér á landi er að hveitið lifir flesta vetur þó misjafnlega vel. Erlendis er sáð vorhveiti í akra þar sem vetrarhveiti sýnir lágt lifunarhlutfall. Hér á landi væri það ekki fýsileg lausn sökum þess hve háar hitakröfur vorhveiti gerir til vaxtar, en í staðinn mætti sá byggi í akrana á vorin.

Margt dynur á plöntunum yfir veturinn, umhleypingar geta rofið dvalann, sent plönturnar í vöxt og gert þær viðkvæmar fyrir vorfrostum.

Jarðvegur getur frostlyfst þannig að ræturnar slitna eða skaðaveður gengur yfir sem veldur afgerandi skemmdum. Þótt vetrarkorn þoli mikið frost verður frost á bera jörð seint talið gott en vetrarkornið þolir snjóhulu á ófrosna jörð í 90 daga. Pollar í akrinum drepa hveitið, því þarf jarðvinnsla að heppnast vel til að fleyta burt ofanjarðarvatni en líka þannig að jörðin hleypi vatninu í gegnum sig.

Undanfarin ár hafa verið tilraunir á vetrarkorni á Hvanneyri í Andakíl, þar sem prófaðir voru mismunandi sáðtímar, áburðarskammtar vor og haust og sáðmagn. Margar aðferðir hafa verið notaðar til þess að greina áhrif meðferðarliðina á lifun, vorþrótt, uppskeru og gæði á korninu.

Um sáðtíð má segja að æskilegt er að sá eigi síðar en fyrstu vikuna í ágúst. Niðurstöður sýna að kornið sem sáð var um miðjan ágúst spratt vel um haustið en sýndi aðeins um 20% lifun um vorið miðað við 85% lifun á korni sem sáð var í byrjun ágúst sama ár. Plönturnar höfðu ekki þróttinn til að þreyja þorrann. Sé því sáð seinna en ráðlagt er, þarf að treysta á hagsælt haust því plönturnar þurfa að safna forða fyrir veturinn til þess að lifa af umhleypingar vetrarins. Sé sáð snemma, eða um miðjan júlí, getur það sprottið vel og svo mikið raunar að blaðvöxturinn getur verið of mikill og kæft plönturnar vorið eftir. Í slíkum tilfellum gæti þurft að slá eða beita akurinn á sáðárinu til að minnka leifarnar.

Niðurstöður tilrauna á sáðmagni, áburðarmagni á haustin, og vorin sýndu engan marktækan mun á mikilvægustu eiginleikum eins og uppskeru og gæðum. Þó virtist sem kornið þroskaðist aðeins betur ef það fékk háan áburðarskammt með sáningu. Þessar niðurstöður er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að kornið þarf áburð á haustin, eða allt að helming af áætluðu heildarmagni. Sem dæmi má nefna að á frjósama mýrarjörð væri ráðlagt að bera á því sem samsvarar 30 kg niturs á hektara á sáðári og svo aftur 30 kg að vori. Við svo lága áburðarskammta verður að bera á steinefnaríkan áburð. Á ófrjósömum jarðvegi væri einnig ráðlagt að skipta nituráburðinum til helminga, t.d. 50 kg niturs að hausti og 50 kg að vori eða 30 kg að hausti og 70 kg að vori.

Niðurstöðurnar sýndu enn fremur að minnsti sáðskammtur sýndi minni grænku snemma að hausti á sáðári en svo sömu grænku fyrir veturinn. Stærsti sáðskammtur hafði neikvæð áhrif á grænku að vori þrátt fyrir mismunandi áburðarskammt, þ.e.a.s. stærri áburðarskammtur í bland við stærri sáðskammt gaf ekki meiri vorþrótt. Því er ekkert sem mælir gegn þumalputtareglunni að sá 200 kg/ha.

Hveiti er mikilvægasta korntegund heims og eftirspurnin er mikil á heimsvísu og fer vaxandi hér á landi. En hveiti er fyrirferðarmikið hráefni í öllum kjarnfóðuruppskriftum, þar með talið fyrir fiskeldi.

Niðurstöður tilrauna gefa til kynna að vetrarhveiti getur verið áreiðanleg tegund í íslenskri kornrækt þar sem aðstæður eru fyrir hendi. Uppskeran er svipuð að magni til og bygg, og gæðin viðunandi til fóðurs í alþjóðlegu samhengi. Jarðræktartæknin útskýrir aðeins lítinn hluta afkomu vetrarkorns. Þær yrkjatilraunir sem hafa verið gerðar sýndu meiri breytileika sem útskýrist af yrkjum. Það undirstrikar mikilvægi yrkjatilrauna og kynbóta á vetrarhveiti fyrir íslenskar aðstæður.

Skylt efni: kornhorn

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...