Rætur að rekja
Rætur eru yfirleitt, en ekki alltaf, neðanjarðar og sá hluti plantna sem síst er sjáanlegur og á sama tíma minnst rannsakaður. Plönturætur hafa margs konar hlutverki að gegna og gerð þeirra er fjölbreytileg. Rætur og aðrir hlutar plantna eru undirstaða fæðuframleiðslu í heiminum.
Talið er að fyrstu rætur hafi komið fram fyrir ríflega 416 til 358 milljónum ára og að það hafi gerst að minnsta kosti tvisvar sinnum á ólíkum tímum þróunarsögunnar og á ólíkum stöðum. Reyndar er það svo að plöntuleifar geymast illa og því minna til af þeim en steingerðum dýraleifum til að rannsaka.
Ein tilgáta um þróun róta er á þá leið að einhverjar frumplöntur, sem flutu ofan við örþunnt jarðvegslag, hafi sent frá sér greinar niður á við og með tímanum hafi þær greinar vaxið ofan í jarðvegslagið og þróast í rætur. Þessi eiginleiki olli byltingu í eiginleika plantna til að draga til sín vatn og næringarefni úr jarðvegi og þróast til að lifa á landi.
Rótarbjörgin
Rannsóknir sýna að rætur á fyrstu þróunarstigum plantna skorti rótarbjörg en það er eins konar þykkildi eða hlíf á rótarendum nútímaplantna sem auðveldar þeim að smeygja sér um jarðveginn og inn í sprungur í leit að vatni og næringarefnum.
Áður en lengra er haldið er rétt að minna á að til er fjöldi plantna sem ekki hafa eiginlegar rætur og eru þörungar, mosi og hálfmosar dæmi um það. Mosar hafa það sem kallast rætingar og eru þræðir sem halda þeir föstum en taka ekki upp vatn. Ræturnar sem fjallað er um hér eru því aðallega rætur háplantna.
Hlutverk róta
Auk þessa að taka upp vatn og næringarefni er það hlutverk róta að halda plöntum föstum í jarðveginum. Rætur eru því eins konar akkeri plantna. Þar sem um stór tré er að ræða er rótarkerfið yfirleitt viðamikið enda þarf öflugar rætur til að halda uppi stórum trjám. Ímyndið ykkur stærsta tré sem þið hafi séð og sjáið svo fyrir ykkur að helmingur til tveir þriðju krónunnar til viðbótar sé neðanjarðar og rótarkerfið.
Ekki má heldur gleyma því að rætur binda jarðveginn og koma í veg fyrir að hann fjúki eða skoli burt.
Allar plöntur þurfa næringu og margar þeirra taka það upp sem ólífræn steinefni úr jarðvegi með örsmáum rótarhárum. Fjöldi rótarhára getur verið mikill og auka þau yfirborð róta margfalt. Dulfrævingar eru loðnari á rótunum en berfrævingar og fæstar vatnaplöntur mynda rótarhár.
Næringarefnunum sem plöntur taka upp í jarðvegi er oft skipt í aðalnæringarefnin þrjú, nitur, fosfór og kalí, þau sem plöntur þurfa minna af kalsíum, brennisteini og magnesíum og síðan snefilefni sem þær komast af með í litlu magni eins og járn, mangan, kopar, sink, bór, mólýbden, kóbalt og klór.
Mest af því kalí sem plöntur taka til sín fer í rótarvöxt þeirra
Rætur hafa einnig það hlutverk að geyma forða margra plantna eins og sumargrænna trjáa og ekki síst plantna sem mynda stólpa- eða forðarót. Vöxtur trjáróta á kaldtempruðu beltunum er mikill á haustin eftir að ofanjarðarvöxtur trjánna er hættur.
Vöxtur róta sýnir að þær greina næringarefni og vatn í jarðvegi og vaxa í átt að því.
Rótarvöxtur
Þegar kemur að rótavexti er talað um frum- og síðvöxt sem á sér stað vegna vaxtarörvandi hormóns sem kallast auxín. Frumvöxturinn er fyrst og fremst lengdarvöxtur rótarinnar og á sér stað rétt aftan við rótarbjörgina en síðvöxturinn felst í því að rætur gildna.
Hversu djúpt rætur vaxa fer eftir plöntutegundum og jarðvegsgerð. Í skógum með djúpum jarðvegi er ekki óalgengt að finna rætur niður á fimm metra en dæmi er um rætur á mun meira dýpi þar sem lítið er um vatn. Víðfeðmi trefjaróta getur einnig náð langt út fyrir ystu greinar stórra krónutrjáa.
Mesta dýpt rótar sem mælst hefur er 68 metrar og það met á svokallað hirðingjatré, Boscia albitrunca, sem finnst í Kalaharí-eyðimörkinni. Hæð trésins er í mesta lagi tíu metrar. Annað og þriðja sæti yfir dýptarmet plönturóta eiga Juniperus monosperma, sem finnst í vestanverðum Bandaríkjum Norður-Ameríku, og áströlsk tröllatrjáategund, Eucaluptus sp., sem hafa fundist með rætur niðri á 61 metra dýpi. Í fjórða sæti var svo önnur planta í Kalaharí-eyðimörkinni, Acacia erioloba, með 60 metra djúpa rót. Allar þessar plöntur eiga það sameiginlegt að vaxa á þurrkasvæðum.
Svepprætur
Fjöldi plantna lifir samlífi með sveppum með þeim hætti að rætur og sveppþræðir eða ýmur sveppa tengjast í jarðvegi og mynda það sem kallast svepprætur. Talið er að samlífið eigi sér að minnsta kosti 60 milljón ára þróunarsögu og að það sé mun algengara en talið hefur verið til þessa.
Ýmislegt bendir til að plöntur sem lifa í samlífi með sveppum geti sent efnaboð sín á milli gegnum ýmurnar sem greinast um jarðveginn og tengjast öðrum plöntum sömu tegundar. Reyndar er uppi kenning um að slík skilaboð geti borist á milli ólíkra plöntutegunda svo lengi sem þær lifa samlífi við sömu sveppategundina.
Sýnt hefur verið fram á að ólíkar tegundir eins og rósir og grös geti sent efnaboð sín á milli.
Einnig eru mörg dæmi um að plöntur lifi samlífi með jarðvegsbakteríum sem auka niturnám plantnanna úr jarðvegi.
Gerð róta
Fyrsta rótin sem plöntur mynda kallast kímrót og af henni myndast svo eiginlegar rætur sem algengast er að skipta í trefja- eða stólparót. Munurinn á þessum megingerðum róta er að stólparætur eru gildar og vaxa beint niður á við ef engin fyrirstaða er til staðar og frá þeim vaxa síðan grennri hliðarrætur.
Trefjarætur greinast hins vegar í allar áttir um jarðveginn og geta orðið ansi víðfeðmar.
Stólparætur vaxa dýpra og hafa yfirleitt betri aðgang að vatni en trefjarætur sem liggja grynnra og hafa meiri aðgang að næringarefnum
Rannsóknir benda til að plöntur sem upprunnar eru nær heimskautunum myndi frekar trefjarætur sem liggja grunnt þar sem hitastig jarðvegsins og kaldur jarðvegur dragi úr vexti stólparóta.
Fyrir rúmum tíu árum var greint frá plöntu af ættkvíslinni Corydalis, C, conorhiza, sem vex villt í Kákasusfjöllum og til fjalla í Tyrklandi sem myndar auk venjulegra róta eins konar snjórætur. Ræturnar sem mynda eins konar net vaxa ofanjarðar en undir þykkum og þunnum snjóalögum þar sem þær nýta næringarefni.
Í hitabeltinu og á heittempraða beltinu, ekki síst þar sem jarðvegur er grunnur, mynda hávaxin tré það sem kalla má stuðningsrætur. Ræturnar eru, þykkar, víðfeðmar og vaxa oft yfir og flækjast saman við rætur annarra trjáa og veita trénu góðan stuðning, auk þess að sjá því fyrir næringarefnum. Dæmi er um stuðningsrætur sem eru yfir níu metrar á hæð og vaxa þrjátíu metra út frá stofni trjáa og jafnvel aðra þrjátíu metra niður á við.
Sumar plöntur mynda loftrætur, dæmi um það eru pottaplöntur eins og rifblaðka, mánagull og fjöldi annarra klifurplantna í hitabeltinu og orkideur. Tilgangur loftróta er að auðvelda plöntum að taka upp vatn þar sem rótarkerfi margra klifurplantna er lítið.
Vaxi loftrætur niður í jarðveg verður starfsemi þeirra sú sama og annarra róta í jarðvegi.
Göngupálmi, Socratea exorrhiza, sem finnst villtur í Mið- og Suður- Afríku er með rætur sem líkjast stultum og lyfta trénu í orðsins fyllstu merkingu frá jarðvegsyfirborðinu. Kraftmiklar ræturnar vaxa skávalt út frá stofni trésins og niður í jörð. Tréð er sólelskt og rætur þess vaxa best í sól og forðast skugga. Þegar eldri rætur drepast í skugga og nýjar hafa náð fótfestu sólarmegin er því eins og tréð hafi flutt sig til. Sagt er að við bestu skilyrði, aðrir segja það ósatt, færist göngupálmar um tvo til þrjá sentímetra á sólarhring sem gerir sjö til ellefu metra á ári. Já. ég veit, þetta er farið að minna á Hringadróttinssögu.
Tré sem vaxa á fenjasvæðum eða þar sem gætir flóðs og fjöru hafa mörg þróað með sér rætur sem vaxa upp á við og upp úr síblautum jarðveginum. Margar þessara plantna eru saltþolnar og geta vaxið í fjörum.
Bergflétta, Hedera helix, er með það sem kallast heftirætur en það eru smávaxnar rætur sem plantan notar til að festa sig við og klifra upp eftir hrjúfu yfirborði trjáa eða steina.
Rótarkerfi ásæta sem eru sníkjuplöntur sýgur næringuna úr hýsilplöntunni. Dæmi um sníkjuplöntur eru mistilteinn og plöntur af ættkvíslinni Rafflesia sem oft kallast hræblóm vegna ýldulyktarinnar sem þau gefa frá sér.
Kókospálmar, Cocos nucifer, mynda stólparætur sem liggja ofarlega í jarðvegi og vaxa að hluta til lárétt út frá stofninum en ná sjaldnast út fyrir ystu blaðenda. Ræturnar eru innan við átta sentímetrar að ummáli og halda sama ummáli frá stofni út í rótarenda. Nýjar rætur vaxa frá stofni kókospálma svo lengi sem plantan lifir og hafa talningar sýnt að 70 ára gömul tré geta hafa myndað 3.600 rætur. Rætur einkímblaða laukjurta, eins og hýasintu og lilja og sumar stólpa- og forðarætur eins og rætur fífla, hafa þann eiginleika að dragast saman og þenjast út. Með því móti draga samdráttarræturnar sig dýpra í jörðina þar til kjördýpt er náð.
Rætur sem drepa
Fræ margra Ficus tegunda, þar á meðal benjamínfíkuss, F. Benjamina, sem margir þekkja sem sérlundaða pottaplöntu, spíra á greinum annarra trjáa hátt uppi í laufkrónunni í náttúrulegum heimkynnum sínum. Þangað berast fræin með fuglum sem éta þau niðri á jörðinni en skíta þeim svo uppi í trjánum þar sem þau festast við greinarnar.
Fíkusar hefja því líf sitt sem ásætur sem senda frá sér margar rætur sem vaxa niður með stofni hýsiltrésins eða hanga líkt og loftrætur á greinum þess þar til þær ná jarðsambandi. Á stuttum tíma ná rætur fíkusa að umvefja stofn hýsilsins og smám saman drepst hann og rotnar burt og eftir stendur hol súla af blaðmiklum og státlegum fíkus með stuðningsrætur.
Rótanytjar
Rætur eru til margra hluta nytsamlegar. Flestir Íslendingar þekkja rótarávexti eins og kartöflur, gulrætur, engiferrót, rófur og radísur en færri hafa líklega smakkað kassava, pipar- eða lakkrísrót. Neysla á yam eða efni sem unnið er úr þeirri rót meðal kvenfólks leynir afturámótiásérþvíúrþvíer unnið eitt af undirstöðuefnunum í getnaðarvarnarpillunni.
Fjöldi róta hefur í gegnum aldirnar verið notaður til lækninga, ekki síst í Austurlöndum fjær þar sem ginsengrótin er sögð vera allra meina bót.
Rætur túrmerik hafa notið talsverðra vinsælda hér á landi sem hollusturætur undanfarið auk þess sem túrmerik er ágætt til litunar.
Úr rótum er unnið krydd og ilmefni sem notuð eru í vellyktandi og kölnarvatn.
Hvannarætur
Á Íslandi hafa rætur ætihvannar, Angelica archangelica, verið nýttar til matar og lækninga allt frá landnámi og líklegt að landnámsmenn hafi flutt þær með sér til landsins sem slíkar.
Hvannarrótarbrennivín, sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins framleiddi, var vinsælt í eina tíð og ekki óalgengt að sjá góðglaða menn með flösku af því í buxnastrengnum á sveitaböllum í gamla daga. Í dag eru unnin heilsuefni úr hvannarrótinni, sem meðal annars eru vindeyðandi og auðvelda þvaglát eldri borgara.
Áttu börn og buru, grófu rætur og muru, köttur úti í mýri, úti er ævintýri.