Reynsla af notkun SpermVital hérlendis er góð
Höfundur: Guðmundur Jóhannesson
Nú styttist í að SpermVital-sæði hafi staðið til boða í ár hérlendis og ekki hægt að segja annað en að reynslan af notkun þess er góð.
Á þeim tíma sem liðinn er frá því að þetta sæði kom til dreifngar hafa 9,9% allra sæðinga verið með SpermVital, 8,4% kúasæðinga og 16,2% kvígusæðinga. Ef horft er til samstillinga eingöngu eru 34,7% samstilltra kúa sæddar með SpermVital-sæði en 56,2% kvígna.
Notkun mismikil eftir svæðum
Notkun á SpermVital er mjög mismikil eftir svæðum og því miður nær ekkert svæði því sem kalla má viðunandi mörkum. Í dag er u.þ.b. þriðjungur alls ungnautasæðis frystur í SpermVital og miðað við 50:50 hlutföll milli notkunar reyndra og óreyndra nauta þarf notkun SpermVital að ná 16,7% á landsvísu. Þessu hlutfalli erum við ekki að ná og óhjákvæmilega hægir það á dreifingu óreyndra nauta sem er ekki viðunandi staða. Verði ekki breyting á þessu næstu mánuði er hætt við að endurskoða þurfi fjölda frystra skammta í SpermVital en þar er Nautastöðin samningsbundin SpermVital í Noregi. Hætt er við að endurskoðun á dreifingu þessa sæðis sé óhjákvæmileg og gæti jafnvel farið svo að þetta sæði muni alls ekki standa öllum alltaf til boða. Það væri miður.
Notkun í samræmi við ráðleggingar
Notkun á SpermVital-sæði virðist vera í góðu samræmi við ráðleggingar. SpermVital er notað við samstillingar (og þá sætt einu sinni) og notkun fer hlutfallslega vaxandi eftir sem númer sæðingar hækkar. Tæplega 10% fyrstu sæðinga er með SpermVital-sæði og það hlutfall hækkar með sæðinganúmeri upp í um 25% við fjórðu sæðingu svo dæmi sé tekið. Ef litið er til samstillinga á kvígum þá eru tæplega 45% þeirra sæddar fyrstu sæðingu með SpermVital-sæði en það hlutfall lækkar með hækkandi númeri sæðingar og er við fjórðu sæðingu um 2%. Það er því greinilegt að menn nota SpermVital á þær kýr sem kalla má „vandamálakýr“. Þegar tölur um árangur eru skoðaðar er mikilvægt að hafa þetta í huga.
Árangur í samræmi við væntingar
Árangur, mældur sem 56 daga ekki uppbeiðsli, er með ofangreint notkunarmynstur í huga mjög góður. Þannig mælist hann um og yfir 80% við samstillingar kvígna en auðvitað er verulegum hluta þeirra síðan haldið undir naut. Hluti þeirra kemur því ekki til endursæðingar og mælist fenginn. Árangur er því metinn betri en hann er í raun en þrátt fyrir það er þetta ákveðinn mælikvarði. Árangur við samstillingar kúa mælist lægri eða á bilinu 56-74% á þeim svæðum þar sem fjöldi sæðinga nær marktækum fjölda. Þrátt fyrir það er um mjög góðan árangur að ræða.
Árangur úr kvígusæðingum án samstillinga er góður með SpermVital-sæði og mælist 65-67% á þeim svæðum sem ná 50 sæðingum eða fleiri. Árangur af kúasæðingum er einnig mjög góður og mælist 59-65% við 1. sæðingu á þeim svæðum þar sem um er að ræða 50 sæðingar eða fleiri. Ef litið er á aðrar sæðingar en fyrstu sæðngar er árangurinn sá sami með hækkandi númeri sæðingar.
Af þessu má ráða að notkun SpermVital-sæði ber tilætlaðan árangur, þ.e. fanghlutfall er mjög svipað og með hefðbundnu sæði þó verið sé að nota eina sæðingu við samstillingar og sæða þær kýr sem ætla má að séu „vandamálakýr“. Samkvæmt þessu er ekki annað að sjá en notkun á SpermVital auki líkur á því að koma kálfi í kýrnar og fækki sæðingum sem lækkar kostnað við sæðingastarfsemina í heild sinni. Það er því engin ástæða til annars að nýta þetta sæði þar sem gríðarlegur og dulinn kostnaður liggur í því ef kýrnar festa ekki fang á tilætluðum tíma.