Rússinn er kominn til að hrella túttujeppana
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var lítil frétt um að fyrirtækið UAZ Iceland hefði hafið innflutning á Rússajeppum. Fleiri en einn aðili hafði samband við mig og spurði hvort ekki stæði til að prufukeyra gripinn.
Þann 8. ágúst áttum við hjónin brúðkaupsafmæli og fannst mér vel við hæfi að bjóða konunni, Sunnu Sveinsdóttur, í bíltúr á rússneskri „limmósínu“.
Eysteinn Yngvason hjá UAZ Iceland ehf. lánaði mér bílinn til prufuaksturs. Jeppinn er fyrri af tveimur sem hann hefur flutt inn og er skráður sem „smárúta“ og þarf því aukin ökuréttindi til að keyra hann.
Áður en ég ók af stað spjallaði ég lítillega við Eystein, innflytjanda bílanna, um tollflokka og notkunarsvið Rússajeppans. Hann sagði mér að bílarnir féllu í raun undir þrjú mismunandi vörugjöld, allt eftir notkunarflokki þegar þeir eru skráðir. „Tíu sæta UAZ 2206 sem skráður er fyrir hópferðaleyfishafa fellur undir 5% vörugjald og kostar því kr. 2.750.000.- án vsk. Sendibílsútgáfan er aðeins ódýrari í innkaupum en hann fellur undir 13% vörugjald og kemur því út á svipuðu verði og 10 sæta bíllinn. Bíll til einkanota fer í 65% vörugjaldsflokk en verðið er breytilegt eftir hvaða útfærslu menn velja,“ sagði Eysteinn.
Öflugri vél í nýja Rússanum
Eftir spjallið fór ég heim á bílnum og bauð konunni í brúðkaupsafmælisrúnt. Við hjónin ókum um Reykjavík með auka rúnti malarveginn upp að Elliðavatni. Sé tekið mið af þeim fjölmörgu Rússajeppum sem voru á götunum fyrir um 10–50 árum er útlitið svipað og nánast óbreytt, en munurinn er mikill. Það fyrsta sem ég tók eftir var krafturinn í vélinni, en gamla vélin var eitthvað rétt yfir 70 hestöfl, en nú er vélin orðin 113 hestöfl og skilar jeppanum fljótt og örugglega upp í umferðarhraða. Það sem vakti samt mesta athygli hjá mér á meðan ég keyrði bílinn var hvað margir horfðu á eftir honum. Þegar var stoppað voru margir sem spurðu út í gripinn.
Prufuaksturinn kom á óvart
Að keyra bílinn kom mér svolítið á óvart, að vísu er svolítið langt á milli gíra þegar skipt er um gír og þá sérstaklega þegar sett er í 5. gír. Þá þarf maður að halla sér til hægri og setja fram í gírinn. Þrátt fyrir að langt sé á milli gíra þá rennur hann vel í gírana og ekkert óþægilegt að skipta honum. Bremsur eru mun betri en í gamla bílnum og fjöðrunin er margfalt betri. Við hjónin vorum sammála um það að margir bílar sem við höfum verið í hafi verið miklu leiðinlegri á malarvegi og til að hrósa bílnum enn frekar heyrðist ekkert malarhljóð undir bílnum. Hins vegar vorum við sammála um að bílstjórasætið og farþegasætið fremst í bílnum væru óþægilegustu sætin í bílnum en hin átta sætin fyrir aftan væru mun betri í þessari „rússnesku rútu“.
Gott bil er á milli sæta og olnbogarými mikið fyrir farþega aftur í bílnum.
Bíllinn er örlítið breyttur og með nokkrum aukahlutum
Þegar horft er undir bílinn þá er það fyrsta sem maður rekur augun í að fjaðrablöðin eru ekki nema þrjú (voru 13 á gamla). Hásingin virðist líta eins út og á þeim gamla og svo er komin ballansstöng að framan. Allt þetta gerir bílinn betri í akstri. Til að hægt væri að flytja bílinn inn til landsins þurfti hann smávægilegar breytingar á vél svo að hann uppfyllti evrópska staðla í mengunarvörnum. Búið er að breikka bílinn með því að setja 4 cm útvíkkun innan við felgurnar til að koma hjólunum utar (sporvíddin er því alls 8 cm utar en frá verksmiðju sem gerir bílinn stöðugri). Toppgrindin er aukabúnaður og stiginn upp á bílinn.
Nánast enginn lúxus
Ekki fer mikið fyrir lúxus í bílnum, ekki útvarp, hiti í stýri eða sætum og enginn akreinalesari. En að fá níu manna bíl fyrir þennan pening, þá má ýmislegt vanta. Fyrir mína parta þá fannst mér bíllinn hreint æðislegur, fljótur að ná umferðarhraða og ágætt að keyra hann. Bremsur eru góðar og maður situr hátt og sér vel yfir í umferðinni. Bíllinn er einfaldur og hann kemst þangað sem maður ætlar sér. Plássið inni í Rússanum er mun betra en í mörgum öðrum bílum sem taka jafn marga farþega. Það sem er í bílnum er sterklega smíðað og er greinilega ætlað til að endast samanber varadekksfestinguna sem er úr alvöru stáli rétt eins og toppgrindin og stiginn upp á þakið.
Ætti að henta vel í ýmsan rekstur
Eftir að hafa ekið bílnum nálægt 50 km tel ég hann vera kjörinn fyrir ferðaþjónustuaðila sem eru t.d. með hestaferðir, kajakferðir, reiðhjólaferðir eða sem fylgdarbíll á fjöll og á torfæra vegi. Drif á öllum hjólum og hátt og lágt drif. Í minningunni var Rússajeppinn afar duglegur í miklum snjó þegar búið var að keðja öll hjól. Svo er ekki mikið mál að hækka bílinn upp enn frekar, setja á hann 33–38 tommu dekk fyrir enn erfiðari torfærur og snjóakstur þar sem vélin er orðin svona mikið stærri en hún var í gamla bílnum.
Sérstakur og vekur athygli
Jeppinn er spennandi kostur fyrir vonda íslenska vegi og engin furða að hann veki athygli þeirra sem sjá hann á ferðinni.
Allar nánari upplýsingar um bílinn og innflutningsaðila má nálgast á vefsíðunni www.russajeppar.is.
Gömlu hásingarnar, en nú eru bara þrjú fjaðrablöð í stað 13 áður.