Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Í dag er algengt að kálfar fái mjólk að drekka í kálfafóstrum.
Í dag er algengt að kálfar fái mjólk að drekka í kálfafóstrum.
Mynd / SEGES
Á faglegum nótum 17. október 2022

Sjálfvirkt eftirlit með kálfum

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Síðustu árin hafa fleiri og fleiri fyrirtæki lagt áherslu á að auka enn frekar á sjálfvirknina við kúabúskap og hafa orðið stórstígar framfarir við margs konar sjálfvirkt eftirlit með gripunum s.s. sjálfvirkar mælingar á hreyfingu gripa, meltingu eða mögulegum veikindum og hafa þessi kerfi fyrst og fremst verið hönnuð fyrir fullorðna gripi, þ.e. mjólkurkýr. Í dag bjóðast þó lausnir sem eru sérhæfðar fyrir uppeldi og eftirlit með smákálfum og eru sumar þeirra einkar áhugaverðar.

Eftirlit mikilvægt

Allir sem halda kýr vita að ef smákálfaeldið heppnast ekki fullkomlega þá er afar ólíklegt að viðkomandi gripur verði afurðamikill þegar á fullorðinsár kemur. Til þess að ná þessum árangri þarf að gefa smákálfum svo til fullkomið atlæti, umhirðu og meðferð en það er tímafrekt og kostnaðarsamt.

Umhirða og eftirlit með smákálfum er því upplagt ferli sem ætti að nýta tækni við og í dag bjóðast bændum margar og mismunandi leiðir til þess að ná góðum árangri.

Segja má að nánast sé enginn skortur á tækni sem getur safnað margvíslegum gögnum tengdum smákálfunum en hvort öll þau gögn séu nýtanleg eða skapi verðmæti fyrir kúabóndann er aftur á móti spurning.

Skynjarar fóstrukerfisins

Líklega eru fóstrur algengasta sjálfvirka kerfið sem er notað hér á landi þegar smákálfar eru annars vegar, þ.e. sjálfvirk mjólkurgjöf til kálfa. Undanfarin ár hefur tæknin sem notuð er við stjórn á fóstrum tekið miklum framförum frá því að vera einungis gjafakerfi á mjólk yfir í það að vakta í raun kálfana og atferli þeirra. Þannig geta tölvukerfi sumra kerfa í dag látið bændur vita ef kálfar hafa ekki fengið sér sopa eða eru með mælanlegt atferli sem er frábrugðið hefðbundnu atferli.

Þetta byggir á samspili mælinga á fóðrunartímum og jafnvel á legu kálfanna.

Þá geta gögn um drykkjaratferli svo sem fáar heimsóknir í fóstru eða stuttar drykkjarlotur bent til þess að kálfurinn sé mögulega að verða veikur. Enn fremur geta mjög margar og ítrekaðar tilraunir kálfa til þess að fá að drekka bent til þess að mjólkurmagnið sé mögulega af of skornum skammti miðað við getu kálfsins, en fái kálfurinn ekki það magn sem hann getur torgað geta bændur verið að fara á mis við mögulega þyngdar- aukningu kálfsins.

Upplýst hálsbönd

Í dag er einnig hægt að fá sérstök ljós á hálsbönd kálfanna sem lýsa upp ef tölvukerfið telur að viðkomandi kálfur þurfi á sérstakri athygli að halda. Þetta getur t.d. verið vegna þess að hann hefur hreyft sig óeðlilega lítið síðasta sólarhringinn eða hefur ekki drukkið nóg.

Svona kerfi geta verið einkar handhæg á kúabúum þar sem smákálfarnir eru margir og þar sem einstaklingarnir falla í hópinn.

Ljós á hálsbandi kálfs getur auðveldað bændum að ná betri tökum á smákálfaeldinu.

Hröðunarskynjarar

Margir kúabændur nota í dag svokallaða hröðunarskynjara sem langoftast eru notaðir á kýr og mæla þá hreyfingar þeirra og gefa upplýsingar um ástand kúnna.

Svona skynjara má einnig fá í dag á smákálfa en hreyfing þeirra, og þá sérstaklega hraði hreyfingar, gefur góðar upplýsingar um væntanlegt heilsufar. Þannig geta gögnin t.d. sýnt að kálfur sem liggur lengi en í fáum legulotum sé heilsulaus.

Kálfur með hröðunarskynjara.

Fleiri möguleikar

En það eru fleiri möguleikar sem standa bændum til boða í dag til að fylgjast með því hvernig smákálfunum vegnar. Þannig eru m.a. til skynjarar sem mæla hitastig þeirra, jórtrun og hjartslátt og geta þá látið strax vita ef eitthvað bendir til þess að heilsu kálfsins sé að hraka. Þetta eru mikilvæg gögn enda er þekkt að því fyrr sem brugðist er við, því meiri líkur eru á því að hægt sé að ná skjótum bata og kálfurinn getur því mögulega náð að þroskast vel og verða afurðasamur gripur þegar frá líður.

Að sama skapi er þekkt að kálfar sem veikjast illa en ná síðar heilsu verða ólíklega afurðamiklir gripir, sem er meginskýringin á því að bregðast þarf hratt við.

Kjarnfóðurátsmælar

Einnig má benda á að verið er að þróa búnað, og mögulega þegar kominn á markað hjá einhverjum framleiðendum, sem skráir hve mikið magn af kjarnfóðri kálfarnir éta. Slíkar upplýsingar eru gríðarlega mikilvægar enda er óþarfi að fóðra kálfa á mjólk sé kjarnfóðurát þeirra orðið mikið, og þar með virkni vambarinnar, og því má draga úr mjólkurgjöfinni eða hætta að fullu. Oftast miða bændur við ákveðinn aldur þegar kálfar eru látnir hætta á mjólk en með því að fylgjast nákvæmlega með kjarnfóðurátinu má sem sagt mögulega stytta þennan tíma og/eða lengja eftir því sem þörf krefur. Þá eru mun minni líkur á því að það dragi úr vexti kálfanna sem gerist of oft, þegar þeir hafa verið teknir af mjólk.

Dönsk athugun á notkun myndavéla við kálfastíur gaf góða raun.

Sjálfvirkar myndavélar

Nú orðið er nokkuð algengt að bændur noti myndavélar til þess að fylgjast með kúnum og þá líklega algengast að slíkum búnaði sé komið fyrir við burðarstíur.

Dönsk athugun á uppsetningu myndavéla við kálfastíur benti til þess að bændur gætu einkar vel nýtt sér upplýsingar úr myndavélakerfum til þess að bæta uppeldi kálfanna.

Þetta á sérstaklega við um hegðun þeirra þegar gegningum í fjósi er lokið en atriði eins og óróleiki kálfa eða óeðlilegt atferli geta mögulega fundist betur sé hraðspólað í gegnum daginn hjá kálfunum í stað þess að reyna að koma auga á slíkt við almennar gegningar.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...