Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Umlykjandi götur í mannlegum mælikvarða hvetja fólk til að rölta um og sinna erindum á leiðinni.
Umlykjandi götur í mannlegum mælikvarða hvetja fólk til að rölta um og sinna erindum á leiðinni.
Mynd / Harpa Stefánsdóttir
Á faglegum nótum 27. desember 2023

Tengsl milli fagurfræðilegrar birtingarmyndar borgarrýma og notkunar virkra samgöngumáta

Höfundur: Dr. Harpa Stefánsdóttir, prófessor í skipulagsfræði.

Nýleg rannsókn um birtingarmynd borgarrýma á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt í ljós að bílmiðað umhverfi getur latt til notkunar virkra samgöngumáta, þ.e. að fara gangandi eða hjólandi vegna nauðsynlegra erinda.

Dr. Harpa Stefánsdóttir.

Til samanburðar eru vísbendingar um að borgarrými með mannmiðuð einkenni séu hvetjandi, en þau yfir mikilvægum fagurfræðilegum eiginleikum sem auka á ánægju þeirra sem fara um hjólandi eða gangandi.

Áskorun að sýna vísindalega fram á hlutdeild fegurðar

Upplifun fegurðar byggir á huglægu mati og er meðal óáþreifanlegustu eiginleika umhverfisins. Fagurfræði hefur verið skilgreind sem afleidd ástæða eða aukalegur tilgangur við að hafa áhrif á val samgöngumáta. Beinar ástæður eru tengdar virkni, eins og t.d. vegalengd eða þáttum sem hafa áhrif á hversu hagstætt er að komast leiðar sinnar. Það er því mikil áskorun að festa hendur á áhrif fegurðar á virka samgöngumáta á vísindalegan hátt. Hvernig fagurfræðileg gæði í hverfum skipta máli fyrir notkun virkra samgöngumáta hefur því skiljanlega fengið takmarkaða athygli í fyrri rannsóknum og því margt óljóst í því hvernig ætti að nálgast viðfangsefnið.

Bílmiðuð eða mannmiðuð borgarrými

Fræðileg skilgreining á bílmiðuðu borgarrými tengist greiðum aðgangi með einkabílum, flæði þeirra og hraða. Þar sem bíllinn krefst mikils pláss, hafa innviðir fyrir bíla, bæði götur og bílastæði, tilhneigingu til að vera mjög víðfeðmir og afgerandi í borgarmyndinni. Bílmiðaðir áfangastaðir og nánasta umhverfi þeirra er hannað með aðgengi einkabílsins í forgangi. Sama á við um nánasta umhverfi íbúðarhúsnæðisins þar sem bílstjórar leggja upp að inngangi.

Mannmiðuð borgarrými vísa til mannlegs mælikvarða og endurspegla forgang gangandi og hjólandi vegfarenda umfram bíla, þannig að götur fyrir rólega umferð bíla fái svipað eða minna pláss en innviðir fyrir gangandi og hjólandi. Rýmið fyrir framan íbúðarhúsnæðið og áfangastaðinn er skv. skilgreiningunni frátekið fyrir fólk og inniheldur örvandi einkenni fyrir skynfærin í nálægð, s.s. gróður og falleg sérkenni til að upplifa. Mannlegur mælikvarði tekur mið af því að umhverfið í nálægð sé uppörvandi fyrir hraða gangandi manneskju.

Fyrri rannsóknir hafa beinst að virkni innviða og notað magnbundnar aðferðir

Þótt fjarlægð frá áfangastað sé ein af mikilvægustu þáttunum til að hafa áhrif á líkurnar á því að velja að ganga eða hjóla þá er algengt víða að fara stuttar vegalengdir á bíl. Ástæðurnar geta verið margvíslegar, svo sem minni líkamleg áreynsla, bíllinn stendur klár fyrir utan dyrnar, veðurskilyrði eða hlutir sem þarf að bera. Það gæti líka verið afleiðing af bílmiðaðri borgarhönnun, en það var einmitt tilgangur umræddrar rannsóknar að festa hendur á þann þátt. Eigindlegar rannsóknaraðferðir, t.d. viðtöl, eru mikilvægar til að útskýra hvernig fagurfræðilegt gildismat getur haft áhrif á notkun virkra samgöngumáta. Þéttleiki byggðar (þ.e. fjöldi íbúa á flatarmálseiningu) sem gjarnan leiðir til styttri vegalengda í þjónustu, segir lítið til um byggðamynstur, lögun borgarrýma eða það sem vegfarandi getur upplifað þegar hann ferðast um eftir götunum. T.d. getur háhýsabyggð leitt til hagstæðs þéttleika, en það þýðir ekki endilega að göturnar á jörðu niðri verði aðlaðandi fyrir gangandi og hjólandi.

Tilhneiging er til að koma á bíl á bílmiðaða áfangastaði, þrátt fyrir örstutt göngufæri.

Byggir á gögnum úr stærra rannsóknarverkefni

Rannsóknin byggir annars vegar á túlkun á rannsóknarviðtölum viðmælenda af höfuðborgarsvæðinu varðandi ferðir þeirra til að sinna nauðsynlegum erindagjörðum í nærumhverfinu, s.s. verslun og þjónustu, og hins vegar eigindlegum greiningum á líklegustu leiðinni sem farin er í matvöruverslun meðal 137 svarenda úrtaks við könnun. Úrtakið tekur til þeirra sem hafa minna en 1 km í lágvöruverðsverslun s.s. Bónus eða Krónuna. Vegalengdina ætti því að vera hægt að ganga á innan við 10-12 mínútum, a.m.k. hluta af þeim innkaupaferðum sem eru farnar. Bornar voru saman leiðir annars vegar þeirra sem keyra undantekningarlaust þrátt fyrir stutta vegalengd og hins vegar þeirra sem ferðast flestra ferða með virkum samgöngumátum. Úrtakið sem er skoðað er fundið meðal 1.146 svarenda við könnun sem send var til 10.000 manns á öllu höfuðborgarsvæðinu og tilheyrir stærra verkefni. Niðurstöður leiddu í ljós tilhneigingu til að fara stuttar vegalengdir akandi þar sem umhverfið var mjög bílmiðað, en fara frekar gangandi eða hjólandi þær leiðir sem voru gegnum mannmiðuð borgarrými.

Greindar voru fjórar tegundir samspils milli tegundar borgarrýmis og notkunar

Niðurstöður úr túlkun viðtalanna leiðir til fjögurra tegunda samspils milli borgarrýmisins og notkunar virkra samgöngumáta.

Í fyrsta lagi nota viðmælendur alls staðar á höfuðborgarsvæðinu opin græn svæði (skilgreind sem mannmiðuð í rannsókninni) til að komast erindagjörða í verslun eða þjónustu, en þá er ferðin samofin ósk um að fá hreyfingu og að njóta útsýnis eða náttúru í leiðinni. Leiðirnar virðast oftar en ekki umtalsvert lengri en sú stysta á áfangastaðinn.

Í öðru lagi er um að ræða umlykjandi götur í mannlegum mælikvarða sem eru með tíðum takti breytinga fyrir augað, svo sem smærri litríkum húsum með fjölbreyttu þjónustuframboði og gluggum sem snúa oftast beint út á götu. Þegar viðmælendur röltu um þessar götur var tilhneigingin sú að sinna ýmsum erindum á leiðinni. En rölt er skilgreint sem hægari tegund göngu, en ef tilgangurinn er eingöngu að komast milli staða.

Í þriðja lagi benda niðurstöðurnar til þess að bílmiðaðar leiðir víðast hvar á höfuðborgarsvæðinu, séu notaðar af sumum vegna góðrar virkni þeirra á meðan aðrir velja að fara frekar keyrandi. Dæmi um góða virkni eru samfelldar og öruggar göngu- og hjólaleiðir meðfram götum, ásamt undirgöngum eða brúm.

Í fjórða lagi kemur fram að í þeim tilfellum sem ferðast er með virkum ferðamátum er tilhneiging til að forðast yfirgnæfandi bílmiðaða áfangastaði, s.s. risastórar matvöruverslanir með stórum bílastæðum fyrir framan, og velja mannmiðaða áfangastaði í staðinn þar sem það er mögulegt.

Nýnæmi að skoða heilt borgarsvæði

Með því að nota allt höfuðborgarsvæðið gafst möguleiki á að kanna hvernig fagurfræðilegt mat hefur áhrif á notkun virkra samgöngumáta í mismunandi hverfum, s.s. úthverfum og miðbæjum sveitarfélaganna. Niðurstöðurnar benda til skýringa á því hvernig fagurfræðileg sjónarmið eru tekin til greina og hafa áhrif á fólk til að velja mannmiðaða áfangastaði í stað bílmiðaðra þar sem það er mögulegt. En slík áhrif koma einkum fram í miðbæ Reykjavíkur og eldri hluta Hafnarfjarðar þar sem fjölbreytileiki í gerð borgarrýma og í verslun og þjónustu er að finna innan lítils radíuss, auk einstakra úthverfasvæða s.s. Hólahverfi í Reykjavík og í Árbæ. Akstur í samgönguskyni er algengastur meðal fólks sem býr í úthverfunum skv. gögnum þessarar rannsóknar, þar sem líklegasta leiðin virðist yfirleitt mjög bílmiðuð. Notkun grænna svæða kann eftir sem áður að gegna mikilvægu hlutverki í að stuðla að tilfallandi virkum ferðum samofnum með ósk um hreyfingu eða til að njóta náttúru í úthverfum.

Heildrænni skipulagshugsun nauðsynleg til að stuðla að virkum samgöngumátum

Nálgun þessarar rannsóknar varpar ljósi á hvernig undirliggjandi skipulagshugmyndafræði eins og einkabíladrifin nálgun módernismans hefur áhrif á heildar birtingarmynd borgarrýmanna og fagurfræðileg gæði þeirra. Sýnt er fram á að tengt hönnun og skipulagi byggðar, er ekki hægt að hvetja til notkunar virkra samgöngumáta með því að einblína eingöngu á hönnun innviða.

Höfundar greinarinnar kalla því eftir breytingu í átt að heildrænni og þverfaglegri nálgun á því hvernig hönnun umhverfisins getur haft áhrif á notkun virkra samgöngumáta. Það er því þörf á frekari rannsóknum til að varpa ljósi á hvernig skipulagshugmyndir og staðarhönnun hafa áhrif.

Efni rannsóknarinnar bíður birtingar snemma næsta árs í alþjóðlega vísindatímaritinu Journal of Urbanism: International Research on Placemaking and Urban Sustainability. Meðhöfundar undirritaðrar eru Petter Næss, prófessor emeritus við NMBU (Umhverfis- og lífvísindaháskóla Noregs), Jukka Heinonen, prófessor við HÍ og Michał Czepkiewicz, dósent við Poznan háskólann í Póllandi.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...