Tökum hey- og jarðvegssýni
Höfundur: Eiríkur Loftsson ráðunautur, Rekstrar- og umhverfissvið - el@rml.is
Það er mikilvægt að taka árlega heysýni og senda í efnagreiningu til að hafa í höndunum yfirlit um efnainnihald og gæði heyjanna. Á grunni niðurstaðnanna má svo skipuleggja fóðrun gripanna og sjá hvers konar kjarnfóður hentar með heyjunum og annað viðbótarfóður sem þarf til að bæta upp það sem vantar í heyin.
Veðrátta hefur mikil áhrif á heygæði og þegar veðráttan er frábrugðin því sem við eigum að venjast er sérstaklega mikilvægt að huga að heyefnagreiningum.
RML býður upp á heysýnatöku að vanda og hægt er panta heysýnatöku og fóðurráðgjöf á heimasíðu RML (hnappur á forsíðu).
Fyrir bændur sem taka sýni sjálfir er gott að hafa í huga að hentug stærð sýnis er á stærð við handbolta og gott að reyna að lofttæma heysýnapokann. Merkja sýnið vel og frysta strax. Þegar sýni eru tekin úr verkuðu fóðri þarf það að hafa verkast í a.m.k. 4-6 vikur áður en sýni er tekið. Á heimasíðu RML, undir eyðublöð má finna fylgiseðil sem fylla má út með upplýsingum sem mikilvægt er að fylgi hverju sýni.
Efnagreiningar á jarðvegi ræktarlands gefa mikilvægar upplýsingar um sýrustig jarðvegs og forða hans af mikilvægustu plöntunæringaerfnum. Niðurstöðurnar má nota til að ákvarða áburðargjöf og sýrustig jarðvegs til að ákveða kölkun. Niðurstöður jarðvegssýna frá undanförnum árum benda til að sýrustig túna sé mjög víða lægra en þau viðmiðunargildi sem æskileg þykja í jarðrækt.
Jarðvegssýni sem ráðunautar RML taka í haust verða send til greiningar hjá Efnagreiningu ehf. Þegar niðurstöður efnagreininga liggja fyrir geta bændur óskað eftir að ráðunautar RML túlki þær og nýti við gerð áburðaráætlana og í önnur verkefni er tengjast jarðrækt. RML tryggir að niðurstöðurnar fari inn í forritið Jörð.is þar sem þær eru geymdar og aðgengilegar bændum. Til að fylgjast með breytingum sem kunna að verða á sýrustigi og næringarástandi í efsta jarðvegslagi túna og akra er æskilegt að taka úr þeim jarðvegssýni á nokkurra ára fresti.
Æskilegt er að taka jarðvegssýni á haustin áður en búfjáráburður er borinn á. Jarðvegssýnataka mun hefjast í september. Æskilegt er að sem flestar pantanir liggi fyrir snemma í ferlinu til þess að auðvelda skipulagningu heimsókna. Hægt er að panta rafrænt á heimasíðu rml.is, eða með því að hringja í síma 516-5000.