Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Gýmir 11007.
Gýmir 11007.
Á faglegum nótum 5. júlí 2017

Um niðurstöður kynbótamats í maí 2017

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson ábyrgðarmaður í nautgriparækt mundi@rml.is
Nú koma fimm ný reynd til notkunar og eru þau fædd 2010 og 2011. Um er að ræða síðasta nautið úr 2010 árgangi og fyrstu fjögur nautin sem koma til notkunar að lokinni afkvæmaprófun úr 2011 árganginum. Þar með hafa verið tekin 12 naut til notkunar úr 2010 árganginum en hann taldi samtals 28 naut. 
 
Í heildina hefur sá nautaárgangur komið vel út og mörg mjög öflug naut að finna meðal þeirra. Má þar nefna Úranus 10081 sem stendur með 118 í heildareinkunn, efstur allra nauta ásamt Bamba 08049. Þá skipa þeir Lúður 10067 og Dropi 10077 fjórða og fimmta sæti allra nauta með 114 í heildareinkunn. Í töflu 1 má sjá þau reyndu naut sem hafa hæstu heildareinkunn eftir keyrslu kynbótamats nú í maí.
 
Nautin 2011 fá nú sinn fyrsta dóm og því miður er útlitið með þann árgang ekki eins gott og vonir stóðu til. Þó verður öfluga gripi að finna meðal þeirra og má nefna Gými 11007 sem kemur til notkunar sem nautsfaðir og Skalla 11023 sem stendur með 112 í heildareinkunn. 
 
 
Mörsugur 10097 er frá Geirakoti í Flóa, sonur Skurðs 02012 og Carmen 449 Áradóttur 04043. Dætur Mörsugs eru góðar afurðakýr með há efnahlutföll í mjólk. Þetta eru meðalstórar og nokkuð háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru um meðallag en yfirlína er sterk. Malirnar eru fremur grannar en vel gerðar. Fótstaða er bein og sterk. Júgurgerðin er mjög góð, júgurfesta mikil, júgurband áberandi og júgrin vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega stuttir og grannir og vel settir. Mjaltir eru í tæpu meðallagi, lítið um galla í mjöltum og skapið er gott. Mörsugur 10097 er með 106 í heildareinkunn og kemur til notkunar sem kýrfaðir.
 
Kunningi 11002 er frá Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum, sonur Flóa 02029 og Götu 377 Stígsdóttur 97010. Dætur Kunningja eru mjólkurlagnar og efnahlutföll í mjólk eru há. Þetta eru fremur stórar og háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru í meðallagi en yfirlína aðeins veik. Malirnar eru meðalbreiðar, beinar en aðeins þaklaga. Fótstaða er bein en eilítið þröng. Júgurgerð er í tæpu meðallagi, aðeins vantar á júgurfestu, júgurband nokkuð áberandi og júgrin eru tæpast nógu vel borin. Spenar eru vel gerðir og sérlega vel settir. Mjaltir og skap eru í góðu meðallagi, lítið um galla í mjöltum. Kunningi 11002 er með 104 í heildareinkunn og kemur til notkunar sem kýrfaðir.
 
Gýmir 11007 er frá Berustöðum í Ása­hreppi, sonur Áss 02048 og Flekku 378 Stöðulsdóttur 05001. Dætur Gýmis eru mjólkurlagnar og efnahlutföll í mjólk eru ofan meðallags. Þetta eru stórar og háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru fremur litlar og yfirlína veik. Malirnar eru meðalbreiðar, nokkuð hallandi en fremur flatar. Fótstaða er bein og sterkleg. Júgurgerðin er góð, júgurfesta meðalmikil og júgrin vel borin en júgurband ekki sérlega áberandi. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og vel settir. Mjaltir eru í meðallagi og lítið er um galla í mjöltum. Skapið er mjög gott. Gýmir 11007 er með 109 í heildareinkunn og kemur til notkunar sem nautsfaðir.
 
Stólpi 11011 er frá Litla-Ármóti í Flóa, sonur Lykils 02003 og Styttu 606 Stílsdóttur 04041. Dætur Stólpa eru mjólkurlagnar kýr með próteinhlutfall í mjólk meðallagi en fituhlutfall undir meðallagi. Þetta eru meðalstórar og nokkuð háfættar kýr, fremur bolgrunnar og útlögulitlar með beina yfirlínu. Malirnar eru grannar en vel gerðar. Fótstaða er bein og sterkleg en nokkuð þröng. Júgurgerðin er mjög góð, júgurfesta mikil og júgrin mjög vel borin en júgurband lítt áberandi. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og prýðilega settir. Mjaltir eru í tæpu meðallagi og lítið er um galla í mjöltum þó fyrir komi seinar kýr í mjöltum. Skapið er mjög gott hjá þessum kúm. Stólpi 11011 er með 108 í heildareinkunn og kemur til notkunar sem kýrfaðir.
 
Skalli 11023 er frá Steinnýjar­stöðumá Skaga, sonur Gylis 03007 og Góðrar 255 Fontsdóttur 98027. Dætur Skalla eru ákaflega mjólkurlagnar kýr en efnahlutföll í mjólk eru undir meðallagi. Þetta eru meðalstórar og meðalháfættar kýr, boldjúpar og útlögumiklar með eilítið veika yfirlínu. Malirnar eru breiðar og nokkuð hallandi. Fótstaða er bein, sterkleg og gleið. Júgurgerðin er mjög góð, júgurfesta mikil og júgrin vel borin en júgurband í meðallagi sterkt. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir, fremur stuttir og prýðilega settir. Mjaltir eru í góðu meðallagi og lítið er um galla í mjöltum. Skapið er úrvalsgott hjá þessum kúm. Skalli 11023 er með 112 í heildareinkunn og kemur til notkunar sem kýrfaðir að sinni. Heildareinkunn hans gefur þó til kynna að hann kunni að færast í flokk nautsfeðra að fenginni meiri reynslu.
 
Naut sem tekin verða úr notkun
 
Þau naut sem tekin verða úr notkun eða dreifingu eru Keipur 07054, Blámi 07058, Þáttur 08021, Gustur 09003 og Bolti 09021. Sæði úr þessum naut er ýmist uppurið eða þá að þeir hafa verið lengi í notkun og teljast fullnotaðir.
 
Áfram í dreifingu
 
Áfram verða í dreifingu Blómi 08017, Strákur 10011, Fossdal 10040, Kústur 10061, Lúður 10067, Sólon 10069, Dropi 10077, Neptúnus 10079, Úranus 10081, Bætir 10086 og Úlli 10089. Þessi naut standa öll vel við fyrri dóm og breyttust lítið í mati nú. Það er því óþarfi að fjölyrða um kosti þeirra og galla sem áður hafa verið raktir.
 
Sex nautsfeður
 
Nautsfeður til notkunar næstu mánuði verða sex talsins. Það eru Strákur 10011, Lúður 10067, Dropi 10077, Úranus 10081, Úlli 10089 og Gýmir 11007. Ekkert þessara nauta er samfeðra sem breikkar notkunargrundvöllinn og hamlar gegn skyldleikarækt eins og kostur er.
 
Notkun óreyndra nauta
 
Eins og gjarnan vill verða þegar góð og öflug reynd naut koma til notkunar dvínar áhugi á notkun óreyndra nauta. 
 
Á síðustu mánuðum hefur notkun óreyndra nauta sigið niður á við og er það miður. Kynbótaskipulagið gerir ráð fyrir jafnri notkun reyndra og óreyndra nauta og því hlutfalli er mikilvægt að halda til þess að geta prófað óreyndu nautin með viðunandi hætti auk þess að halda uppi fjölda þeirra. Við verðum líka að hafa í huga að meðal þeirra er að finna bestu valkostina hverju sinni. Miklar erfðaframfarir sýna okkur glöggt að með hverri kynslóð aukast gæði gripanna og því ljóst að naut sem fæðast í dag taka þeim eldri fram í flestum ef ekki öllum þáttum. Það er einnig brýnt að notuð séu sem flest ungnaut á hverju og einu búi eða eins mörg og bústærð leyfir. Þetta dreifir áhættunni og gerir afkvæmaprófanir dreifðari og betri.
 
Erfðaframfarir
 
Við skulum nú aðeins líta á hvernig gengur í ræktunarstarfinu. Erfðaframfarir eru birtar hér á þremur myndum sem sýna framfarir í nokkrum völdum eiginleikum. Á þeim má glöggt sjá gríðarmiklar framfarir í afurðagetu sem og öðrum eiginleikum. Framfarir í júgurgerð hafa einnig verið stórstígar á undanförnum árum og í raun er að sjá framfarir í öllum eiginleikum nema frjósemi. Þar er því miður hægt og bítandi að síga á ógæfuhliðina án þess að um neinar hamfarir sé ræða. Hins vegar eru ákveðnar viðvörunarbjöllur farnar að hringja og tímabært að skoða á hvern hátt er hægt að snúa þessari þróun við. Fagráð hefur um nokkra hríð rætt möguleika á því að styrkja mat á þessum eiginleika. 
 
Eins og staðan er í dag byggir kynbótamat fyrir frjósemi eingöngu á bili milli burða. Þetta þýðir að áreiðanlegt mat kemur mjög seint inn eða ekki fyrr en notkun á viðkomandi nauti hefur verið hætt. Kosturinn við bil á milli burða er hins vegar ótvírætt sá að þetta er einhver best mælanlegi eiginleiki sem völ er á hvað frjósemi varðar. Hins vegar er full ástæða til að skoða aðra þætti í frjósemi og má þar velta upp ýmsum mælikvörðum eins og bili frá burði til síðustu sæðingar eða bili frá fyrstu til síðustu sæðingar svo eitthvað sé nefnt. 
 
Sá galli er á gjöf Njarðar að mælikvarðar sem byggja á sæðingagögnum eru ekki eins áreiðanlegir og bil milli burða. Þetta á ekki síst við hér þar sem notkun heimanauta er allmikil og víðtæk. Í alltof mörgum tilvikum er ekki vitað hvort síðasta sæðing sé raunverulega síðasta sæðing fyrr en það er staðfest með burði. Þarna þarf því að meta kosti og galla hinna mismunandi mælikvarða á frjósemi og skoða vel hversu áreiðanlegir þeir eru áður en endanlegar ákvarðanir um breytingu á mati á frjósemi verða teknar.
 
 
 
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...