Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2017
Um langa hríð hafa niðurstöður afkvæmarannsókna á nautum verið dregnar fram með þeim hætti að skoða úrvalsnýtingu innan hvers árgangs á myndrænan hátt.
Þannig má gera sér nokkra grein fyrir hvaða áhrifa er að vænta í kúastofninum með notkun þeirra nauta sem valin eru til framhaldsnotkunar.
Nautaárgangurinn 2017 er sá síðasti sem valinn er til notkunar á grunni afkvæmarannsókna en nú hefur erfðamengisúrval tekið við og nautin valin út frá erfðamati byggðu á ætterni og arfgreiningum.
Í fyrstu skulum við skoða hvað er verið að mæla á þennan hátt. Úrvalsnýting fyrir ákveðinn eiginleika sýnir yfirburði þeirra nauta, sem valin eru til framhaldsnotkunar, í samanburði við það sem mögulega hefði mátt ná fram ef aðeins hefði verið valið fyrir þeim eiginleika og engum öðrum. Þegar valið er fyrir mörgum eiginleikum á sama tíma er illmögulegt að ná fram jákvæðu vali fyrir þeim öllum á sama tíma. Ástæða þess er ekki hvað síst að margir þeirra eiginleika sem valið er fyrir eru neikvætt tengdir innbyrðis og því verður sú útkoma ákaflega ólíkleg.
Hér verður litið á úrvalsnýtingu nauta sem fædd voru 2017 en afkvæmadómi þeirra lauk fyrir skömmu og ljóst að ekki munu fleiri naut koma til framhaldsnotkunar úr þessum árgangi. Árgangurinn var stór á okkar mælikvarða en hann taldi 35 naut. Til áframhaldandi notkunar komu ellefu naut, bæði mislengi og mismikið. Segja má að valið hafi verið nokkuð strangt og gerðar ríkar kröfur til þeirra nauta sem komust til notkunar sem reynd naut.
Ef litið er á þá mynd sem kemur fram með nautin frá 2017 er hún mikið fremur hagstæð, það er úrvalsnýtingin er jákvæð fyrir flestum eiginleikum.
Gagnvart þeim eiginleikum sem snúa að útliti og notagildi kúnna er hún nokkuð jákvæð en misgóð hvað afurðaeiginleikana snertir. Þannig eru þættir er lúta að magni mjög jákvæðir en neikvæðir varðandi hlutföll verðefna í mjólk, sérstaklega hlutfall próteins. Þessi niðurstaða er á margan hátt öndverð við niðurstöðuna fyrir 2016 árganginn þar sem útlits- og notagildisþættir komu sýnu betur út en afurðaeiginleikarnir.
Áhrif þessara nauta verða því að öllum líkindum sterk hvað afurðagetu snertir en neikvæð um hlutföll verðefna. Hvað útlitsþætti varðar, sem og eiginleika eins og mjaltir og skap, verða áhrifin fremur jákvæð.
Eðlilega kemur hæst úrvalsnýting fram í heildareinkunn, enda sú einkunn sem ræður hvað mestu um val nautanna, en einnig er úrvalsnýting fyrir afurðamagni há, það er fyrir mjólkur-, fitu- og próteinmagn.
Auðvitað eru þessir þættir nátengdir þannig að magn fitu og próteins fylgir magni mjólkur. Í heildina verða áhrif árgangsins jákvæð hvað alla eiginleika nema efnaþættina varðar.
Þessi niðurstaða, ásamt niðurstöðum fyrir síðustu árganga á undan, sýnir að enn er að vænta töluverðra framfara hvað snertir júgur- og spenagerð, mjaltir og skap á komandi árum. Framgangur afurðaeiginleikanna styrkist að hluta til með 2017 nautunum en neikvæðasta niðurstaðan er gagnvart próteinhlutfallinu.
Áhrif árgangsins munu að öllum líkindum ekki verða veruleg á kúastofninn í heild sinni, sá tímapunktur er þeir koma fram ræður þar miklu um.
Notkunartími þeirra verður frekar skammur þar sem yngri naut valin á grunni erfðamats banka á dyrnar og ryðja sér rúms.