Vel blómstrandi tré og runnar
Fátt vekur meiri kátínu og gleði hjá garðeigendum en þessar dásamlegu tegundir plantna sem blómstra eldsnemma á vorin, færa sólþyrstum og náfölum landsmönnum vorið á silfurfati með blómskrúði sínu, sannfæra lýðinn um að heitir sumardagar séu rétt handan við hornið.
Með hlýnandi veðurfari hefur fjöldi vorblómstrandi tegunda trjáa og runna farið vaxandi á undanförnum árum og heilmikið úrval af þessum gleðigjöfum í gróðrarstöðvum. Þarna má telja ávaxtatré eins og epli, perur, plómur og kirsiber; skrautlegar blómasprengjur eins og rósakirsi og skrautepli ýmiss konar; töfratré með sín bleiku eða hvítu blóm sem birtast áður en plantan laufgast, að ógleymdum berjarunnum og ýmsum toppum (Lonicera) sem blómstra um svipað leyti og plönturnar laufgast.
Rósakirsi. Prunus nipponica var. kurilensis 'Rosea'.
Eftir þessa fyrstu blómabylgju koma svo geislasópur, baunatré og gullregn, broddar (Berberis) og reyniviðir og fast á hæla þeirra fylgja hvítblómstrandi kvistir, sýrenur og jafnvel runnamura. Allar þessar snemmblómstrandi tegundir undirbúa blómgun sína með myndun blómbruma árið áður.
Veðurfar síðasta sumars hefur því verulega áhrif á blómgun þessa sumars, ef síðasta sumar er hlýtt og gott gefur það von um góða blómgun núna. Hins vegar eru þessar tegundir viðkvæmar fyrir næturfrosti þegar blómgunin er komin af stað. Þeir sem hafa sambönd við veðurmáttarvöldin ættu því að semja við þau um hlýtt og bjart vor með hæfilegri vætu, langvarandi þurrkar eru ekki hvetjandi fyrir blómþroskann. Einnig er mikilvægt að velja svona glæsilegum blómplöntum heppilegan vaxtarstað, sólríkan, má vera skjólgóður, jarðvegurinn heppilegur fyrir þarfir plöntunnar og síðast en ekki síst gott rými til að hægt sé að dást að drottningunni frá sem flestum hliðum.