Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bændur þurfa nýjan verðlagsgrundvöll strax
Af vettvangi Bændasamtakana 20. nóvember 2023

Bændur þurfa nýjan verðlagsgrundvöll strax

Höfundur: Reynir Þór Jónsson, stjórnarmaður í BÍ og fulltrúi í verðlagsnefnd búvara.

Síðustu vikur og mánuði hefur það ekki farið framhjá neinum það dökka stöðumat íslensks landbúnaðar sem blasir við.

Reynir Þór Jónsson.

Ef við íslenskir bændur eigum að geta sinnt innanlandsmarkaði með mjólk, kjöt og grænmeti þarf afkoma okkar að vera í lagi. Ef skoðaðar eru framleiðslutölur í mjólk sést að mjólkurframleiðslan á Íslandi hefur aukist um 50% á síðustu 20 árum. Á sama tímabili, eða síðustu 19 ár, hefur ríkisstuðningur vegna mjólkurframleiðslu hins vegar dregist stöðugt saman og þeirri tekjulækkun hefur ekki verið mætt með hækkuðu afurðaverði sem neinu nemur. Þetta bil þarf að brúa strax því það er augljóst að greinin er komin að ákveðnum þolmörkum, sem hlýtur að skýrast af atburðum, ákvörðunum og aðgerðaleysi síðustu ára.

Hver er afkoman sem bændur fara fram á? Svarið við þessari spurningu er einfalt, þar sem svarið er bundið í búvörulög. Kúabú eiga lögum samkvæmt að skila afkomu sem getur staðið undir launagreiðslum sem eru hliðstæð og hjá sambærilegum starfsstéttum og krefjast sambærilegrar viðveru, ábyrgðar og færni. Því miður hefur viðmiðunarbúið samkvæmt gildandi verðlagsgrundvelli ekki náð því svo árum eða áratugum skiptir. Síðustu opinberar tölur sýna fram á að meðalbúið hafi getað skilað eigendum sínum tæplega 9 milljónum í afkomu. Komi tveir aðilar að búskapnum, t.a.m. hjón, gerir það um 350 þúsund krónur á mánuði á mann. Þessar tölur er hægt að nálgast á heimasíðu Hagstofu Íslands og eru frá árinu 2021. Ástandið hefur versnað hratt frá árinu 2021. Í ár er líklegt að launagreiðslugeta meðalbús verði lítil sem engin. Ætli bændur að lifa á öðru en loftinu kemur það niður á nauðsynlegu viðhaldi eða með skuldsetningu.

Það kemur í hlut verðlagsnefndar búvara að ákvarða lágmarksverð mjólkur eftir svokölluðum verðlagsgrundvelli. Kostnaðarhlið grundvallarins segir til um hvað kostar að framleiða hvern lítra mjólkur og tekjuhliðin segir hvað bændur hafa í tekjur fyrir hvern lítra. Verðlagsgrundvöllurinn sem nú er í gildi hefur ekki verið uppfærður frá árinu 2001 nema í samræmi við vísitöluþróun. Flestir kúabændur eru sammála um að viðmiðunarbúið í gildandi verðlagsgrundvelli, sem miðar við 188.000 lítra framleiðslu, gefur ekki rétta mynd af breyttum framleiðsluháttum. Þannig er mun líklegra að tvöföldun á framleiðslutölum væri nærri lagi og myndi endurspegla og þar með gefa rétta mynd af viðmiðunarbúinu eins og það er í dag. Oft var þörf, en nú er nauðsyn. Afar aðkallandi er að uppfæra gildandi verðlagsgrundvöll, sem taki einnig mið af auknum byggingakostnaði, verðhækkunum á tækjum og búnaði, svo ekki sé talað um hækkanir á aðföngum og fjármagnskostnaði á síðustu árum.

Forsvarsmenn bænda hafa lengi kallað eftir uppfærslu, og í raun alveg nýjum verðlagsgrundvelli. Í búvörulögum kemur skýrt fram að verðlagsgrundvöllur skuli byggja á forsendum sem ber að uppfæra í takt við breytingar á búunum. Það hljóta að vera hagsmunir allra að vita hver staðan er, bæði bænda, iðnaðarins og stjórnvalda. Það er engra hagur að afkoma kúabænda haldi áfram að versna, sérstaklega þegar eftirspurn eftir mjólkurvörum er mikil. Stjórnvöld hljóta að vera meðvituð um það.

Vinna við nýjan verðlagsgrundvöll er nú hafin. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur verkið fyrir matvælaráðuneytið og eru áætluð verklok í desember nk. Bændasamtökin hafa lagt fram þá kröfu að tímamörkin standist og að nýr verðlagsgrundvöllur líti dagsins ljós og komist til framkvæmda fyrir næstu áramót. Þá hafa samtökin einnig kallað eftir því við verðlagsnefnd búvara að meta og uppfæra framleiðslukostnað dilkakjöts og nautakjöts, en því erindi hefur enn ekki verið svarað af hálfu ráðuneytisins.

Verkfærið sem ákveður afkomu kúabænda er verðlagsgrundvöllur sem endurspeglar framleiðsluna og framleiðsluþættina eins og þeir eru í dag. Hér er um að ræða verkfæri sem gefur rétta mynd af stöðunni eins og hún er hverju sinni. Það eina sem við bændur förum fram á er að stjórnvöld sýni okkur þá virðingu að búvörulögum sé fylgt. Krafa Bændasamtakanna er einföld. Ljúka þurfi vinnu við nýjan verðlagsgrundvöll á tilsettum tíma svo hægt verði að leiðrétta kjör mjólkurframleiðenda í samræmi við gildandi lög. Þetta er ekki flókið.

Skylt efni: afkomuvandi bænda

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...