Fallegt er um að litast á Laugum í Sælingsdal.
Fallegt er um að litast á Laugum í Sælingsdal.
Mynd / Hlynur Gauti
Af vettvangi Bændasamtakana 28. október 2024

Sameinaðir skógarbændur

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður búgreinadeildar skógarbænda.

Málþing skógarbænda var haldið á Laugum í Sælingsdal laugardaginn 12. október sl. og árshátíð var haldin um kvöldið.

Yfirskrift málþingsins þetta árið var „Skógrækt í dag, hvað ber framtíðin í skauti sér?“ Vel fór á með um sextíu gestum sem dvöldu í góðu yfirlæti á Dalahóteli. Andinn á málþinginu var með eindæmum jákvæður og samtakamátturinn mikill. Félagsmál voru efst á baugi enda mikið í húfi fyrir skógarbændur að standa saman á þessum tímum sem öðrum. Einnig var sögu trjáræktar á Vestfjarða gerð góð skil. Styrktaraðilar málþings voru Arnarlax, Sólskógar, Kvistabær, MHG, Vorverk, Galdur brugghús, Ölgerðin, Útúrkú súkkulaðigerð, Lífland, Kaldrnarneshreppur og Vesturbyggð. 

Í fyrri hluta þingsins sögðu Sæmundur Þorvaldsson og Arnlín Óladóttir frá ágætis reynslu af starfssviði skógræktar á Vestfjörðum. Skógar eru fjölbreyttir og það er landið líka. Í skógræktaráætlunum jarða á Vestfjörðum er eftirtektarvert hversu mikið er lagt upp úr skógrækt í sátt við umhverfið með líffjölbreytileikann að leiðarljósi.

Það þótti brjálæði á sínum tíma að halda því fram að tré gætu vaxið við svo erfið skilyrði sem víða eru á Vestfjörðum. Sighvatur Jón Þórarinsson sagði frá skjólbeltarækt sinni og alls konar reynslu henni tengdri. Lærdómurinn yfir árin er margþættur en það eitt, að hafa tilfinningu fyrir ætlunarverkinu, skiptir mestu máli.

Sigurkarl Stefánsson sagði frá vel heppnuðu samstarfi bænda, sveitarfélaga og Vegagerðarinnar á Skógarströnd um girðingarstæði. Það borgar sig að ræða málin við nágrannann í bróðerni. Nú vex upp stæðilegur skógur á Skógarströndinni, smalamennskur ganga snurðulaust og allir una hag sínum vel.

Lerkiblendingurinn Hrymur er tré sem nú orðið skipar stóran sess meðal skógræktenda um land allt. Þróttur þessa kynblendings hefur vakið aðdáun alls skógargeirans og um nokkur ár hefur verið mun meiri eftirspurn eftir honum en framboð. Jakob K. Kristjánsson, skógarbóndi á Fellsstönd, sagði frá stóru verkefni sem gengur út á fjölgun Hryms með stiklingum.

Það er merkilegt að á móður okkar Jörðinni skuli halla eins mikið á konur eins og raun ber vitni. Ragnhildur Freysteinsdóttir sagði frá félagsskap sem heitir Konur í skógrækt. Forystuhlutverk í skógrækt eru oftast á herðum karla. Þó hægt gangi þá virðist þó styttast í jafnari hlut kynjanna ef miðað er við höfunda sem skrifa í Skógræktarritið.

Naomi Bos fór yfir „Skógrækt framtíðarinnar“. Hún á að snúast um sjálfbærni; efnahagslega, náttúrulega og félagslega. Aðstæðuaðlögun (vistkerfisstjórn) við skipulag og ákvarðanatöku skógræktar hefur þar mikið að segja því einsleit skógrækt getur jafnvel verið skaðleg. Við skógrækt þarf að vinna að heildrænni vistkerfisstjórnun.

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skóga, hélt tímabært erindi fyrir skógarbændur. Í meginatriðum eru engar stórar breytingar í farvatninu sem koma niður á skógarbændum. Áfram verður unnið að bætingu gróðurauðlinda landsins og stutt verður enn frekar við fræðslu. Hvati til skógræktar heldur áfram og ýmsir staðlar munu verða meira áberandi í náinni framtíð. Yfirvegað og gott samtal er undirstaða góðra verka inn í framtíðina. Ágúst fór yfir málin og svaraði fyrirspurnum gesta. Síðustu ár hafa stjórnsýslubreytingar verið á helsta þjónustuaðila skógarbænda, þ.e. keðjuverkandi sameiningar í nafni hagkvæmni sem hófust með samruna landshlutaverkefna í skógrækt, sem voru starfandi heima í héraði, yfir í að virðist, miðstýrða stofnun sem nú heitir Land og skógur. Meðal annars er unnið að frekari hagkvæmni með því að sameina hvatakerfi til bænda í landgræðslu og skógrækt sem eru: Skógrækt á lögbýlum, Bændur græða landið, Landbótasjóður, Endurheimt votlendis, Varnir gegn landbroti og Endurheimt vistkerfa (Bonn). Má telja líklegt að allar þessar sameiningar síðustu ára, með lágmarks aðkomu bænda, hafi gert það að verkum að ráðuneyti skógarmála sé ekki lengur í tengslum við grasrótina. Spyrja má hvort þau tengslarof hafi svo haft þær afleiðingar að auðveldara sé fyrir yfirvaldið að draga úr fjárstuðningi eins og raun ber vitni? Getur verið að rof æðstu valda skógræktar í landinu við grasrót skógarbænda sé þess valdandi að óróleiki í greininni sé að myndast? Vonandi ekki, en samtal við grasrótina er ævinlega grunnur að farsælu starfi.

Á myndinni er forystufólk síns skógarfélags, deildar eða stofnunar. F.v.: Sigurkarl Stefánsson (FSV), Ágúst Sigurðsson (LogS), Hjörtur Bergmann Jónsson (Skóg-BÍ), Björn Bjarndal Jónsson (FSS), Þorsteinn Pétursson (FSA), Lilja Magnúsdóttir (FSVfj.) og Birgir Steingrímsson (FSN).

Það var á þeim nótum sem Trausti Hjálmarsson, formaður BÍ, talaði í sínu erindi. Trausti náði vel til gesta og ekki bar á öðru en að hann hefði mikinn skilning á skógrækt sem búgrein sem mikilvægt er að hlúa vel að. Samstaða búgreina innan BÍ er mikilvæg fyrir fjölmargar sakir. Allar búgreinar geta haft hag af skógrækt í einhverri mynd og ljóst er að þótt skógar vaxi víða hægt er hún að slíta barnsskónum um þessar mundir. Megi skógarbændur styrkja stöðu bænda innan BÍ enn frekar.

Og samstaðan hélt áfram. Með samstöðu og eflingu skógarbænda innan BÍ geta skógarbændur haft töluverð áhrif. Ekki bara að skógarbændur geti deilt reynslu sinni til annarra búgreina, heldur, í nafni fjöldans, verður tekið mun meira mark á mikilvægi skógræktar í öllum skilningi. Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður búgreinadeildar skógarbænda, hvatti skógarbændur til að ganga í BÍ því þar eigum við helst rödd til stjórnvalda.

Ýmis mikilvæg mál eru í farvatninu hjá búgreinadeild skógarbænda. Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður deildarinnar hjá BÍ, fór yfir nokkur verkefni sem eru fyrirferðarmikil þessa dagana. 

Hann sagði frá innleiðingu CE vottunar og gæðamála í timbri og fór yfir kosti þess að uppruni íslenskra jólatrjáa undir merkjum Íslenskt staðfest geti verið mikilvægur fyrir kaupendur. Samstarf við Norðurlandaþjóðir bar einnig á góma og kolefnismál.

Síðasta erindi þingsins var um smáforrit Orb, hugbúnaðarfyrirtækis sem þróar hugbúnað til skógmælinga. Íris Ólafsdóttir mætti til að segja frá þróuninni og leyfa okkur að fylgjast með hvers má vænta. Smáforritið auðveldar mælingar trjáa í mæliflötum og gaman verður að fylgjast með næstu skrefum.

Vel fór á með gestum í íþróttahúsinu á Laugum í Sælingsdal.

Formenn skógarbændafélaganna fóru yfir aðsteðjandi mál sem öll áttu það sameiginlegt að mikilvægt er að fjölga félagsmönnum í búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ. Það má bæði gera með því að nýir félagar skrái sig í gegnum bondi.is og svo mega einnig núverandi félagsmenn skrá sig þar inn og haka við skógrækt sem aukabúgrein hjá sér.

Áður en kom að árshátíð fóru skógarbændur í skógarrjóður í Sælingsdalstungu þar sem Sigurbjörn Einarsson jarðvegslíffræðingur hefur gert ýmsar jarðvegstilraunir yfir árin. Þar undu skógarbændur sér vel og náðu að spjalla og mynda tengsl við hvert annað, ekki ólíkt því sem svepprætur gera í skógarbotninum.

Skylt efni: Skógrækt | skógarbændur

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...