Spennandi samstarf
Þessar línur eru skrifaðar á milli funda í langþráðri ferð minni og fleiri fulltrúa Bændasamtakanna til móts við bændur víða um land. Alls verða fundirnir fjórtán talsins og það verður ekki annað sagt en að þeir fyrstu fimm sem nú eru að baki lofi góðu um framhaldið. Mætingin hefur verið einkar góð og samræðurnar allt í senn fjörugar, málefnalegar og uppbyggilegar. Á betra verður ekki kosið.
Eitt gerir fundina samt enn betri en ella og sannast þar hið fornkveðna að lengi getur gott batnað. Til viðbótar við metnaðarfulla og framsýna bændur hefur nefnilega dágóður fjöldi stjórnmálamanna, frambjóðenda fyrir alþingiskosningarnar í lok mánaðarins, mætt á fundina og lagt við hlustir ásamt því að leggja orð í belg. Með þátttöku sinni hefur pólitíkin þannig tekið okkur á orðinu þegar við báðum hana fyrir nokkru síðan um að setja sig inn í helstu áhersluatriði okkar og gera þau að umtalsefni í stjórnmálaumræðunni í aðdraganda kosninganna.
Ég hef frá fyrsta degi mínum í formannsstóli Bændasamtakanna talað fyrir því að efla samtalið við þingheim. Að vera í góðu og lifandi sambandi við stjórnmálamenn úr ólíkum flokkum sem landsmenn hafa falið það vandasama hlutverk að standa vörð um hagsmuni sína jafnt hérlendis sem utan landsteinanna. Það er ekki sjálfgefið að allt það góða fólk kunni skil á öllum smæstu atriðum landbúnaðarumhverfisins en það er verðugt keppikefli okkar bænda að tryggja hjá hverjum þingmanni virðingu fyrir þessari undirstöðuatvinnugrein Íslendinga og þekkingu á aðalatriðum hennar.
Ég hef áður gert ánægjuleg samskipti okkar við stjórnvöld síðustu misserin að umtalsefni. Ég hef verið bjartsýnn á að á því verði engin breyting þrátt fyrir óvæntar kosningar fram undan með stólaskiptunum sem þeim munu eflaust fylgja. Síðustu dagana hef ég enn frekar sannfærst um að sjónarmið bænda og brýnar þarfir heilbrigðs landbúnaðar hér á landi muni fá góðan hljómgrunn óháð því hverjir muni taka við stjórnveli þjóðarskútunnar að kosningum loknum.
Ekki síður hef ég upplifað það mér til mikillar ánægju á fundaferðinni um landið að bændur eru að hugsa af mikilli yfirvegun til langrar framtíðar þegar samskiptin við stjórnvöld um rekstrarumhverfi landbúnaðarins eru annars vegar. Jarðvegurinn fyrir samhenta vinnu að sameiginlegu markmiði, öflugum íslenskum landbúnaði, virðist einkar frjór. Skipta þá engu – eða að minnsta kosti litlu – máli þær upphrópanir sem einstaka aðilar grípa til í þeim tilgangi að sá frjókornum efasemda um þann samfélagsstuðning sem landbúnaður á Íslandi krefst rétt eins og í öllum okkar nágranna- og samanburðarlöndum.
Þess vegna er samstarfið fram undan við ný stjórnvöld, m.a. um nýjan búvörusamning, afar spennandi. Bændur munu mæta skilningsríku og áhugasömu viðmóti stjórnmálanna og sjálfir munu þeir nálgast viðræðurnar með vel rökstudd langtímamarkmið að leiðarljósi. Í þeim efnum skiptir hagur, afkoma og öryggi bænda og búreksturs auðvitað miklu máli enda mun enginn landbúnaður þrífast í landinu án þess að þau atriði séu viðunandi. Umfjöllunaratriðin verða þó miklu fleiri og flest þeirra eru bæði framsækin og varða að auki þjóðarhag. Það gerir samtalið enn þá skemmtilegra.
Heiti bændafundanna, Á grænu ljósi landbúnaðarins, nær yfir mörg þeirra umræðuefna. Fæðuöryggi þjóðarinnar er þar eðlilega fremst í flokki. Engin leið er augljósari til þess að tryggja mat á hvers manns disk en að framleiða hann sjálf. Að hafa fullt vald á framboðinu. Til viðbótar gerum við kröfu um gæði matvælanna og mér vitanlega hefur engum manni tekist það hingað til að benda á betri landbúnaðarframleiðslu en einmitt hér á Íslandi. Við erum í allra fremstu röð hvað varðar bæði gæði og hreinleika og eftir því er tekið víða um heim.
Þjóðarhagurinn tengist mörgum fleiri þáttum landbúnaðarins. Sóknarfærin á ört stækkandi innanlandsmarkaði skapa forsendur fyrir aukinni atvinnu og afleiddum störfum með tilheyrandi verðmætasköpun. Um það er ekki deilt. Væntanlega eru þær raddir heldur ekki til sem draga þátt landbúnaðarins í íslenskri ferðaþjónustu í efa. Án blómlegra sveita væri náttúrufegurðin aldrei söm og án fyrsta flokks matvæla nánast úr túnfætinum fengi nútíma ferðaþjónusta aldrei þrifist.
Í sífellt auknum mæli er einnig horft til menntunar og rannsókna á sviði landbúnaðar í tengslum við tækifæri fyrir þjóðarhag. Nýsköpunartækifæri til aukinnar verðmætasköpunar, m.a. í krafti nýrrar þekkingar og tækni, eru fjölmörg. Öflug fjárfesting stjórnvalda á þessu sviði þarf ávallt að ryðja brautina og í kjölfarið mun þátttaka sprotafyrirtækja vart láta á sér standa. Þetta er enn ein ástæða þess hve samtalið fram undan við stjórnvöld í landinu verður spennandi.
Tækni líðandi stundar – og ekki síður framfarir með nýrri þekkingu morgundagsins – munu gera upprunamerkingar matvæla stöðugt mikilvægari þátt í markaðsfærslu þeirra. Þarna er enn eitt dæmið um stórt tækifæri íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Landfræðileg einangrun okkar, aðgengi að sjálfbærum náttúruauðlindum, takmarkanir í sýklalyfjanotkun og ótal margt fleira skipar matvælaframleiðslu okkar í öndvegi á heimsvísu.
Enda þótt eftirspurn eftir hágæðamatvöru á meðal þeirra neytenda á alþjóðamarkaði sem mest hafa á milli handanna sé stöðugt að aukast ætla ég ekki í þessum pistli að búa til miklar væntingar um útflutningstækifæri íslenskra matvæla. Þáttur þeirra í heilsufari þjóðarinnar er hins vegar án nokkurs vafa mikill og sömuleiðis í því aðdráttarafli sem Ísland hefur á meðal ferðalanga alls staðar að úr heiminum.