Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
HKr.
HKr.
Skoðun 11. febrúar 2014

Baðstofurómantík

Við Íslendingar eigum merkilega en sviptingasama sögu. Á fyrstu öldum búsetunnar voru skrifaðar sögur hérlendis sem eru enn hluti af heimsmenningunni, en um þremur öldum eftir landnám réðum við ekki lengur  við að stjórna okkur sjálf. Við lifðum hins vegar lengi á fornri frægð Íslendingasagnanna, ekki síst þegar náttúran var sem hryssingslegust fyrr á öldum. Atvinnuhættir og þjóðfélagið allt breyttist löngum lítið frá ári til árs og jafnvel milli alda. Sögurnar urðu nánast goðsagnir á tímabili eins og þegar Halldór Laxness lætur Jón Hreggviðsson ítrekað segja í Íslandsklukkunni að Gunnar á Hlíðarenda, forfaðir sinn, hefði verið tólf álnir á hæð – sem jafngildir sex og hálfum metra.

Þegar breytingar urðu loksins þegar komið var fram á 20. öld voru þær mjög örar. Ekki hafa mörg lönd breyst jafn hratt á jafn skömmum tíma. Þeir sem núna eru komnir á efri ár geta rifjað upp hreint ótrúlegan viðsnúning á þjóðfélaginu. Ekki er langt síðan þjóðin kom út úr torfbæjunum og fór að tileinka sér breytta lifnaðarhætti samfara tæknibyltingu á flestum sviðum. Búsetumynstrið hefur breyst gríðarlega, íbúafjöldinn er nærri fjórfalt meiri en fyrir 100 árum, lífskjör, innviðir, almenn velferð og allar aðstæður gjörbreyttar.

Þessu öllu höfum við aðlagast með undraskjótum hætti. Við höfum reynt að nýta þau tækifæri sem við höfum fengið og það hefur að mestu gengið vel þótt það sé og verði alltaf umdeilt. Þó að ekki líki öllum vel það sem breyst hefur er lítið um að lagt sé til að snúið sé aftur til fortíðar. Þó að þeir sem fæddust í torfbæ minnist þess sennilega á jákvæðan hátt er það engu að síður staðreynd að þeir eru ekki lengur byggðir til búsetu og það yrði snúið fyrir nútíma Íslendinga að taka þá hætti upp að nýju sem fylgdu þeim húsakynnum.

Í gegnum miklar breytingar

Landbúnaðurinn hefur gengið í gegnum miklar breytingar eins og annað í þjóðfélaginu. Landbúnaður fyrri tíma byggði á handverkfærum og mörgum höndum til að nota þau. Framleiðslan var fyrst og fremst til að fæða og klæða fólkið sem bjó þar sem hún varð til. Sú litla umframframleiðsla sem varð til var nýtt til að kaupa það sem alls ekki var hægt að framleiða heima við, eins og salt, sykur, kornvöru og fleira. Þegar fólk fór í auknum mæli að flytja sig úr sveitunum í þorp og bæi við ströndina gekk það ekki lengur upp og vélvæðingin hóf innreið sína. Þegar sífellt fleiri störfuðu ekki lengur við að framleiða mat ofan í sjálfa sig þurfti á sama hátt að breyta framleiðsluháttum í sveitum í grundvallaratriðum til að sinna þeim þörfum. Meirihluti framleiðslunnar var nú seldur af bæ, ræktunarmöguleikar urðu meiri sem og uppskeran, bæði af gróðri og afurðum búsmalans. Sú þróun hefur haldið áfram fram á okkar daga. Landbúnaðurinn hefur sífellt leitað leiða til að bæta gæði, hagkvæmni og afkomu bænda um leið.

Það starf mun og verður að halda áfram en um leið þarf alltaf að hafa í huga hvað neytendur raunverulega vilja. Áherslur þeirra breytast eins og annað. Lengi framan af var öll áhersla á að verðið væri alltaf sem lægst. Sú krafa er enn fyrir hendi en áhugi  á framleiðsluháttum, dýravelferð, uppruna og öðrum aðferðum sem notaðar eru við úrvinnslu matvæla hefur aukist verulega á síðustu misserum. Því ber að fagna. Allt sem eykur tengsl og skilning milli bænda og neytenda hjálpar landbúnaðinum að þróast í takt við tímann og sinna markaðnum betur. Ef neytendur kalla til dæmis eftir meira framboði af lífrænum vörum þarf greinin að taka það alvarlega og neytendur þurfa líka að sýna því skilning að sú framleiðsla kostar meira.

Á sama tíma hefur reglusetning og eftirlit yfirvalda einnig margfaldast, með tilheyrandi kostnaði. Gerðar eru miklar kröfur um hvernig staðið er að málum og það er ekkert einfalt mál lengur að strokka smjör, búa til ost eða slátra gripum heima á bæ, að minnsta kosti ef ætlunin er að selja afurðirnar. Það er heldur ekki í samræmi við nútímakröfur að beita sauðfé á vetrum og treysta á að það fái nóg að éta með því að róta í gegnum snjóinn. Það er bara ekki boðlegt lengur, hvorki gagnvart skepnunum né gróðrinum. Það er heldur ekki neikvæð þróun að kýr gangi lausar í fjósum og ráði sjálfar hvenær þær vilja láta mjólka sig, fremur en að vera bundnar á sama básinn allan veturinn og mjólkaðar eftir tíma fjósamannsins. 

Sókn og frekari þróun

Landbúnaðurinn þarf áfram að sækja fram á komandi árum. Við eigum að framleiða stærri hlut af innanlandsneyslu matvæla hérlendis, en við eigum að gera það í góðum tengslum við neytendur, með skýrum upprunamerkingum og gagnsæjum framleiðsluháttum. Við eigum alla möguleika til þess með því að halda áfram að þróast í takt við samfélagið og horfa til framtíðar en það er engin framtíð í fortíðinni.

/SSS

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...