Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Höfundur: Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur.

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, rannsóknastjóra fiskeldis hjá stofnuninni, í Bændablaðinu hinn 9. mars kemur m.a. eftirfarandi fram:

Valdimar Ingi Gunnarsson.

,,Lokun fyrir laxeldi í innri hluta Ísafjarðardjúps túlkar Valdimar sem beina aðför að hagsmunum fyrirtækja í íslenskri meirihlutaeigu.“

Margir veiðiréttaeigendur og umhverfissinnar hafa lagt áherslu á að Ísafjarðardjúp verði lokað fyrir laxeldi í sjókvíum og reyndar að eldi á norskættuðum laxi verið bannað í öllum fjörðum landsins.

Skoðum fyrst fyrri ákvæði um heimildir til eldis á frjóum eldislaxi í íslenskum fjörðum og förum síðan yfir þær svæðisbundnu takmarkanir sem settar hafa verið í áhættumati erfðablöndunar.

Fyrri takmarkanir

Í auglýsingu nr. 460/2004 er tilgreint hvar heimilt er að vera með eldi á frjóum laxi og m.v. núverandi eldistækni takmarkast eldissvæðin við Austfirði, Eyjafjörð og Vestfirði. Í reglugerð nr. 105/2000 var sett ákvæði um fjarlægðarmörk laxeldis í sjókvíum við laxveiðiár, 5 km fyrir minni laxveiðiár og 15 km fyrir stærri laxveiðiár. Reglugerðin er nú fallin úr gildi en áfram stendur auglýsingin.

Það voru ekki allir sáttir með auglýsingu nr. 460/2004 og í umsögnum við fiskeldisfrumvarpið á árunum 2018 og 2019 koma Landssamband veiðifélaga (LV), nokkur veiðifélög og umhverfissamtök o.fl. með athugasemdir. Þar var m.a. bent á samkomulag frá 25. október 1988 af formanni Fiskeldis- og hafbeitarstöðva og veiðimálastjóra fyrir hönd Veiðimálastofnunar um að aldrei skyldi leyft að norskur lax væri notaður í sjókvíaeldi eða hafbeit og dreifingu hans skyldi takmarka við landeldi.

Áhættumatið

Til að takmarka enn frekar eldi á frjóum laxi lagði Hafrannsóknastofnun til svokallað áhættumat erfðablöndunar á árinu 2017 til starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Fiskeldisfrumvarpið var fyrst lagt fram á árinu 2018 og aftur 2019 með veigamiklum breytingum að mati Landssambands veiðifélaga (LV). Fulltrúi LV sat í stefnumótunarhópnum ásamt fulltrúum fiskeldisfyrirtækja og stjórnvalda. Í umsögn LV er bent á að breytingar á áhættumatinu séu ekki til samræmis við það samkomulag sem gert var í starfshópnum. Jafnframt kemur fram í umsögn LV að ,,áhættumat erfðablöndunar verði ekki túlkað sem sátt á milli hagsmunaaðila, og að LV væri áfram á móti eldi á frjóum laxi og vísar til eldra samkomulags um að norskur eldislax verði aðeins notaður í landeldi“.

Aðför að íslenskum hagsmunum

Fram kemur í grein rannsóknastjórans að ,,matið gerir engan greinarmun á laxeldi eftir því hvort um innlend eða erlend fyrirtæki sé að ræða“. En er það rétt? Reiknilíkan áhættumatsins sjálft gerir ekki greinamun á þjóðerni en það gera þeir sem vinna með líkanið og koma með tillögurnar eða setja reglurnar. Áhættumatið erfðablöndunar setur takmarkanir á:

  • Framleiðsluheimildir til eldis á frjóum laxi.
  • Svæði þar sem heimilt er að vera með eldi á frjóum laxi er minna í umfram en skilgreint er í auglýsingu nr. 460/2004.

Það er einkum með takmörkun á eldi í Ísafjarðardjúpi þar sem verið er að mismuna íslenskum fyrirtækjum og afleiðingin er að uppbyggingu hefur seinkað með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni. Í grein rannsóknastjórans kemur fram að ,,við gerð áhættumatsins voru varfærnissjónarmið höfð að leiðarljósi þar sem náttúran var látin njóta vafans“. Því er til að svara, eins og höfundur hefur m.a. bent á í greinum sínum í Bændablaðinu á árinu 2020, að áhættumat erfðablöndunar hefur lítið sem ekkert með náttúruvernd að gera, það snýst fyrst og fremst um að úthluta framleiðsluheimildum.

Ferli málsins

Það hefur alltaf verið og er enn þá mikil óánægja með áhættumat erfðablöndunar og skoðum ferli málsins er varðar takmarkanir og úthlutanir framleiðsluheimilda fyrir Ísafjarðardjúp:

  • Ákvörðun 2017: Hafrannsóknastofnun lagði til að loka Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir auglýsingu nr. 460/2004 og svokallað reiknilíkan áhættumats erfðablöndunar gæfi möguleika á nokkurra þúsunda tonna eldi í Djúpinu. Þannig var fyrirhugað laxeldi íslensks fyrirtækis slegið út af borðinu. Hafrannsóknastofnun hefur ekki enn þá komið með fagleg handbær rök fyrir þessari ákvörðun að mati höfundar.
  • Ákvörðun 2018: Hafrannsóknastofnun gaf út fréttatilkynningu um væntanlegt tilraunaeldi í Ísafjarðardjúpi og hafa sérfræðingar stofnunarinnar eflaust áttað sig á að ekki væri heiðarlega unnið og 3.000 tonna heimildir stóðu eftir skv. reiknilíkani áhættumatsins þegar laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila á sunnanverðum Vestfjörðum höfðu fengið allt sitt. Ekkert heyrðist meira um þetta tilraunaeldi og eflaust hefur jafnræðisreglan og skortur á lagaheimildum átt þar hlut að máli.
  • Ákvörðun 2019: Það voru miklir hagsmunir undir og unnið var að því að fá heimild til eldis á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi af laxeldisfyrirtækjum, sveitarstjórnar- mönnum og fleirum og sendar voru fjölmargar umsagnir og athugasemdir við fiskeldisfrumvarpið áður en það var lögfest á Alþingi Íslendinga. Ísafjarðardjúp var áfram lokað og með samþykkt fiskeldisfrumvarpsins voru miklir fjárhaglegir hagsmunir erlendra fjárfesta og íslenskra fulltrúa þeirra tryggðir á kostnað íslenskra fyrirtækja.
  • Ákvörðun 2020: Við endurskoðun á áhættumatinu var Ísafjarðardjúp utan Æðeyjar opnað fyrir eldi á frjóum laxi. Það fól m.a. í sér að sjókvíaeldi á frjóum laxi sem íslenskt fyrirtæki hafði lagt upp með að stunda innar í Ísafjarðardjúpi varð ekki að veruleika en gerði öll fyrirhuguð áform laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila möguleg. Hafrannsóknastofnun hefur ekki enn þá komið með fagleg handbær rök fyrir þessari ákvörðun.
  • Ákvörðun 2023: Endurskoðun á áhættumatinu sem átti að gera fyrrihluta þessa árs hefur dregist verulega af einhverjum ástæðum
Að lokum

Það má alltaf deila um hvort heimila eigi eldi í sjókvíum með norskættuðum laxi í Ísafjarðardjúpi eða íslenskum fjörðum. LV bendir á að samkomulag við ríkisvaldið hafi verið brotið tvisvar sinnum. Það verður að teljast óheppilegt og er eingöngu til að skapa meiri ósátt. Hafrannsóknastofnun með sínum vinnubrögðum við innleiðingu áhættumats erfðablöndunar bætir um betur með aðför að íslenskum fyrirtækjum, með ófaglegum og óheiðarlegum vinnubrögðum, fyrst með lokun Ísafjarðardjúps og síðan opnun utan við Æðey.

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...