Endurbyggði eitt elsta hús Kópaskers
Tvíburasysturnar Halla og Hildur Óladætur minnast jarðskjálftans mikla árið 1976. Þrátt fyrir að meginefni þessa viðtals eigi að vera um uppbyggingu annars tveggja af elstu íbúðarhúsum Kópaskers og við eiganda þess, Hildi Óladóttur, er nánast ómögulegt að eiga við þá konu orð án þess að tvíburasystir hennar komi við sögu.
Þessar tvær eru nánast alltaf nefndar í einni setningu, Halla og Hildur eða Hildur og Halla, enda er hér um að ræða einstaklega nánar tvíburasystur, afar líkar í útliti og hafa í gegnum tíðina verið hvor annarri mikill styrkur í lífsins ólgusjó. Tíðindakona Bændablaðsins gerði sér ferð á Kópasker og hitti þessar gestrisnu og glaðlegu systur fyrir í Sviðastöðinni á Kópaskeri.
Hildur og Halla eru fæddar og uppaldar á Kópaskeri í stórum hópi systkina og eru númer sex og sjö af átta. Elsta systirin, Hugrún, er fædd 1953 og sú yngsta, Gunnlaug, var fædd 1972 en hún lést árið 2015. „Pabbi ætlaði sko aldrei að giftast eða eignast börn, hann var langyngstur níu systkina og hefur sjálfsagt fengið nóg af börnum,“ segir Halla hlæjandi. Hildur bætir við að þegar móðir þeirra kom sem búðardama á Kópasker voru örlög þeirra ráðin og þau bjuggu alla tíð í Skógum á Kópaskeri. „Pabbi stóð sig samt mjög vel sem pabbi, það vantaði sko ekkert upp á það,“ segir Hildur enn fremur.
Gleymd börn og stolið brauð
Á tímum óvenjumikilla náttúruhamfara á landinu er upplagt að ræða upplifun þeirra systra á stóra skjálftanum sem reið yfir Kópasker þann 13. janúar 1976. Skjálftinn mældist 6,4 stig og olli mjög miklum skemmdum á Kópaskeri, á húsum og lögnum og voru íbúar fluttir á snjóbílum í burtu í norðanstórhríð.
Þær systur muna vel þennan atburð enda þá orðnar tíu ára gamlar. „Við vorum búnar í skólanum því yngri börnin voru fyrir hádegi í skólanum og þau eldri eftir hádegi. Ég var komin yfir í læknishúsið því það var læknadagur þennan dag á Kópaskeri og ég var að passa börnin á efri hæðinni, bara pínulítil börn. Pabbinn var sofandi eftir næturvinnu en mamman sem var hjúkrunarfræðingur var komin í vinnuna á neðri hæðinni. Svo kemur þessi hryllingur, rennihurðir í íbúðinni fóru fram og til baka og allt lék á reiðiskjálfi. Ég auðvitað bara hentist niður stigann og mætti móðurinni í stiganum sem spurði hvar börnin hennar væru. Ég skildi þau bara eftir því ég var á leiðinni til minnar mömmu, enda bara 10 ára gömul. Ég vona að mér sé fyrirgefið að hafa ekki gert tilraun til að grípa litlu greyin með mér,“ segir Hildur og er talsvert skömmustuleg. Halla aftur á móti var stödd í verslun þorpsins með vinkonu sinni. „Við vorum svo heppnar að standa akkúrat við dyr því það hrundu allar hillur og allar vörurnar lágu úti um allt. Það voru reyndar tröppur við hliðina á okkur og við hrundum fram og til baka í þeim meðan þetta gekk á og við höfðum enga stjórn. Svo flýttum við okkur út þegar jörðin stöðvaðist og uppgötvuðum á leiðinni heim að vinkonan hafði ekki greitt fyrir brauðið sem hún hélt á, við urðum sammála um að það myndi sennilega vera í lagi.“ segir Halla og bætir við að Hildur hafi verið miklu hræddari en hún. „Hún fékk eiginlega taugaáfall og grét alla nóttina.“ Þær voru svo fluttar í snjóbíl að Leirhöfn á Sléttu og voru þar fyrstu nóttina. „Það var brjálað veður og jörðin skalf alla nóttina. Daginn eftir vorum við flutt í bílalest til Raufarhafnar á eftir snjóruðningstæki, ég held að veðurhræðsla mín alla tíð sé afleiðing þeirrar ferðar,“ segir Hildur og aldrei þessu vant fylgir ekki bros.
Stundarbrjálæði og ekkert annað
Hvað skyldi nú hafa fengið leikskólakennarann Hildi til að hefjast handa við svona stórt verkefni, að kaupa eldgamalt hús í hörmulegu ástandi og leggja svo í endurbyggingu? „Tja, það er ekki gott að segja,“ segir Hildur. Hún hafi verið í alvarlegri kulnun og veikindaleyfi á þessum tíma sem gerir ákvörðunina enn furðulegri. „En það er eitthvað í genunum að þurfa alltaf að vera eitthvað að brasa, jafnvel þegar allt er í veseni. Svo var Jón Kristján bróðir búinn að draga okkur öll systkinin inn í Mela og reyna að fá okkur til að kaupa húsið og laga og það lá auðvitað beinast við, þarna 2016 þegar ég var hvort eð er ófær um allt annað að ég og þáverandi sambýlismaður minn, Sigþór Heimisson, slógum til,“ segir Hildur.
Verkefnið var auðvitað miklu stærra en Hildi hafði órað fyrir. Allt þurfti að endurnýja. Húsið var skrælt að innan og utan og á Facebook-síðu Mela má sjá alls konar spennandi dót sem kom innan úr veggjum, til dæmis kjóll sem reyndist vera af stúlku sem ólst upp í húsinu en er nú látin. Gluggum var skipt út, sumir stækkaðir eða færðir og eins má segja um hurðir, allar lagnir endurnýjaðar og húsið drenað, múrað og málað. Tveir pottar voru fljótlega settir við húsið og í sumar hefur baðhúsið verið klárað og nú eru pottarnir á Melum opnir fyrir almenningi frá kl. 14– 19. „Mig langar til að gefa eitthvað af mér til samfélagsins, enda finn ég fyrir bæði áhuga og stuðningi,“ segir Hildur og vill gjarnan fá íbúa Kópaskers í pottana við Mela en bætir við að hún vilji að gestir hússins hafi aðgang að pottunum eftir kvöldmat eða á kvöldin „Svo er fólk í sjósundi,“ segir Halla en Melar standa uppi á malarkambinum við sjóinn og stutt að hlaupa út í og hlýja sér svo í pottunum á eftir.
Stúdíóíbúð og fjögur herbergi
„Við byrjuðum á neðstu hæðinni og unnum okkur svo upp. Þá gátum við farið að vera í húsinu meðan unnið var að viðgerðum utanhúss og svo tókum við hæð fyrir hæð. Öll járnsmíði er unnin af Sigþóri en hann er mjög laginn járnsmiður. Við gerðum litla íbúð á neðstu hæðinni, með öllum þægindum og voðalega notalega,“ segir húsráðandi stoltur en það má með sanni segja að þær systur báðar séu sérlega uppátækjasamar og hugmyndaríkar í hönnun.
Á efstu hæð eru fjögur herbergi, sum með svefnlofti og eitt með snyrtingu. Herbergin bera fuglanöfn, enda er Kópasker og Melrakkasléttan öll gósenland fuglaskoðunarfólks. Á miðhæðinni er opið rými með fullbúnu eldhúsi, svölum og snyrtingu og útsýnið þaðan er „milljóndollara“ virði svo slett sé upp á útlensku.
Þáttur Jóns Kristjáns og Sviðastöðin
Það er þó ekki hægt að nefna uppbyggingu á Melum án þess að tíunda þátt Jóns Kristjáns, bróður þeirra systra. Hann er forfallinn áhugamaður um endurbyggingar gamalla húsa og hefur sjálfur fært ótalmörg hreysi í nýjan, fallegan og íbúðarhæfan búning. Það má segja að hann hafi lagt gjörva hönd á endurbyggingu Mela. „Þetta hefði aldrei gengið án hans. Hann er búinn að leggja nótt við dag undanfarið við að klára aðstöðuna í Sviðastöðinni svo ég geti verið hér og leigt út allt gistirýmið á Melum,“ segir Hildur.
Umrædd Sviðastöð er elsta húsið á Kópaskeri, upphaflega byggt sem sláturhús árið 1912 en hefur gegnt mörgum og mismunandi hlutverkum síðan þá. Jón Kristján hefur átt húsið um skeið og hefur verið að taka það í gegn og núna er tilbúin snotur aðstaða í öðrum enda hússins.
„Við skulum bara hafa það á hreinu að ég er ekki ein í þessu verkefni, öll fjölskyldan og fullt af vinum hafa eytt ómældum tíma með mér í þessu og ég er svo innilega þakklát fyrir það,“ segir Hildur Óladóttir að lokum.