Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skólphreinsistöð í Trier í Þýskalandi.
Skólphreinsistöð í Trier í Þýskalandi.
Skoðun 28. maí 2021

Flottust í heimi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Það er ekki laust við að það fari kjánahrollur um menn þegar hlustað er á afrek Íslendinga í umhverfismálum og viðbrögð stjórnmálamanna við þeim. Það er nánast sama hvert litið er, alls staðar blasir við botnlaus vandræðagangur sem leysa á með þeim glimmerlausnum sem þykja vænlegastar til vinsælda á Facebook, Twitter, LinkedIn og hvað það nú allt heitir.

Það hefur ekki farið framhjá neinum sú ofuráhersla sem stjórnmálamenn hafa lagt á að draga úr losun kolefnis út í andrúmsloftið. Í sjálfu sér er það bara hið besta mál ef menn notuðu það mál ekki endalaust til að hossa sér á fölskum forsendum.

Reynt hefur verið að ná samkomulagi í loftslagsmálum á alþjóðvettvangi en gengið ærið misjafnlega. Helsta niðurstaðan er gjarnan að menn nái að sameinast um að berja á eigendum einkabíla fyrir sóðaskapinn. Stóru málunum, sem felast í losun frá þungaiðnaði og orkuframleiðslu, er þá alltaf sópað undir teppið.

Innleiðing rafknúinna ökutækja ætti að öllu eðlilegu að vera sú lausn sem hentaði Íslendingum best í umræðunni um orkuskipti í samgöngum. Þar hefur þó verið bent á alvarlega vankanta sem felast í rafhlöðunum sem notaðar eru. Þá er förgun þeirra í miklum ólestri. Vegna þessa m.a. eru helstu stórþjóðir heims komnar í kapphlaup um vetnisvæðingu í iðnaði og samgöngum. Inn í þá hringiðu er Ísland að dragast sem gæti vissulega orðið til góðs ef rétt er á spöðum haldið. Það snýst ekki síst um hvort íslenska þjóðin muni sem heild njóta góðs af þeirri auðlind sem raforkan er eða ekki. Miðað við forsöguna í meðferð Alþingis þarf svo sem ekki að búast við góðu í þeim efnum.

Í skólpmálum skila náttúruverndar­yfirvöld á Íslandi algjörlega auðu blaði. Á sama tíma og hreinleika landsins er hampað og milljarðar lagðir í slíkan áróður um allan heim, er eitt stórt núll á spurningalistanum um áform um meiri metnað í frárennslismálum. Samt reyna menn að hossa sér á afrekum í byggingu fyrsta stigs dælustöðva sem hlegið er að í flestum öðrum löndum.

Þá eru það sorpmálin, er bara ekki allt í lagi þar? – Stutta og líklega eina svarið er NEI. Í áratugi hafa menn verið að væflast með sorpmálin sem hafa verið til vandræða um allt land. Í mörg ár hafa menn losað sig við stærsta vandann með því að grafa sorpið í jörðu á Álfsnesi, við Akureyri og nú við Blönduós og víðar. Alvöru lausnir í líkingu við það sem aðrar þjóðir gera með byggingu sorporkustöðva hefur ekki mátt fara í vegna pólitísks rétttrúnaðar. Aðgerðarleysi í uppbyggingu sorpbrennslustöðva á Íslandi er nú að koma í bakið á mönnum.

Ljóst er að á árinu 2023 verður endanlega lokað fyrir urðun sorps í Álfsnesi, sem tekur við stærstum hluta sorps af landinu. Bendir þá flest til þess að þá hefjist stórfelldur útflutningur á sorpi, eða allt þar til byggð hefur verið ný hátæknisorporkustöð á Íslandi.

Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir veffundi mánudaginn 11. janúar um hátæknibrennslu sem framtíðarlausn. Þar kom fram að nú er ekki lengur neinn tími eftir til að velta vöngum yfir hvað skuli taka til bragðs. Tímaglasið er þegar tómt að mati flestra sem fluttu erindi á fundinum. Því þarf án tafar að taka ákvarðanir um næstu skref varðandi byggingu sorporkustöðvar fyrir um 100 þúsund tonn af sorpi á ári. Slíkt verkefni tekur 6–8 ár í framkvæmd. Nú eru bráðum liðnir fimm mánuðir frá þessum fundi og lítið heyrist af aðgerðum. – Já, en við erum nú samt flottust í heimi í umhverfismálunum – er það ekki? 

Skylt efni: Umhverfismál | loftlagsmál

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...