Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Kredda eða vísindi – hvort skal ráða för?
Mynd / ÁÞ
Skoðun 30. september 2016

Kredda eða vísindi – hvort skal ráða för?

Á síðum Bændablaðsins hefur mátt lesa greinar upp á síðkastið þar sem gert er lítið úr möguleikum erfðatækninnar til þess að takast á við matvælaöflun framtíðar og hún beinlínis talin skaðleg. 
 
Í þeim er margt á skjön við staðreyndir. Þann 25. ágúst mátti hins vegar sjá á RÚV athyglisverðan þátt frá BBC um kosti erfðatækninnar og þá möguleika sem hún býður upp á. 
 
Umfjöllun Bændablaðsins endurspeglar grundvallarmisskilning á eðli erfðatækni og beitingu hennar í plöntukynbótum. Gleymum því ekki að vísindi og aukin þekking hefur verið hornsteinn framfara í landbúnaði síðustu 100 árin. Frá 1960 hefur tekist að tryggja matvælaöryggi í heiminum, en frá þeim tíma hefur fólkinu fjölgað úr þremur milljörðum í rúmlega sjö milljarða en ræktarland hefur einungis aukist um 10%. Þarna hafa plöntukynbætur skipt sköpum.
 
Maðurinn hefur breytt erfðamengi nytjaplantna frá ómuna tíð og eiga þær núorðið lítið skylt við villta ættingja sína. Fyrir um 200 árum tóku menn vísindin í þjónustu sína og tækni við plöntukynbætur hefur þróast síðan í takt við aukna þekkingu á plöntuerfðafræði og skyldum greinum. Meginmarkmiðið er ávallt að koma gagnlegum genum inn í nytjaplöntur okkar sem gera þær hæfari til ræktunar eða bæta gæði þeirra. Í upphafi völdu menn úr náttúrulegum breytileika en fljótlega var farið að víxla saman ólíkum stofnum innan sömu tegundar og jafnvel tegundum til þess að ná í þá eiginleika sem sóst var eftir, hvort heldur það var til þess að auka uppskeru, bæta sjúkdómsþol eða næringargildi plöntunnar. Einnig hafa geislun og sterk efni verið notuð til þess að kalla fram stökkbreytingar á erfðamenginu og eru um 2500 yrki á markaði sem þannig hafa orðið til. Menn hafa því beitt ýmsum aðferðum og flókinni tækni til þess að fá fram ný og bætt yrki í áranna rás. Allt fellur þetta undir hinar svo kölluðu hefðbundnu kynbótaaðferðir. Þær eru hins vegar þeim annmörkum háðar að við víxlun tveggja einstaklinga fylgir ýmislegt annað með, umfram eftirsóttu genin, sem getur tekið langan tíma að losna við aftur.
 
Nýjasta tólið í plöntukynbótum er erfðatæknin (genetic engineering). Hún gerir okkur kleift að flytja eingöngu ‘góðu genin’ inn í erfðamengi plöntunnar og ruglar þar af leiðandi ekki erfðamengi hennar að öðru leyti. Nú er tæknin orðin það þróuð að unnt er að breyta einungis einum basa í erfðamenginu líkt og gerist við náttúrulegar eða tilbúnar stökkbreytingar. Munurinn er hins vegar sá að hægt er að stýra nákvæmlega hvar erfðabreytingin verður. Með þessari aðferð verða kynbæturnar miklu markvissari og taka skemmri tíma.
 
Ýmsu hefur verið haldið fram um erfðatækni og afurðir hennar. Því er brýnt að halda eftirfarandi til haga:
 
- Vísindastofnanir og eftirlitsaðilar um heim allan hafa ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að fóður og matvæli sem framleidd hafa verið með aðferðum erfðatækninnar séu jafnörugg eða jafnvel öruggari en annað þar sem öðrum kynbótaaðferðum hefur verið beitt.
 
- Ekki hefur verið staðfest að heilsu manna og dýra hafi verið ógnað í kjölfar neyslu slíkra afurða.
Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að ræktun erfðabreyttra planta getur dregið úr umhverfisálagi ræktunar og aukið líffræðilega fjölbreytni.
 
- Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að ræktun erfðabreyttra planta skilar bændum hagrænum ávinningi, einkum smábændum í þróunarlöndunum.
 
- Með erfðatækni má stýra nákvæmlega hvaða genum er bætt inn í erfðamengið eða breytt sem hefðbundnar kynbótaaðferðir ráða ekki við.
 
Það er ekki farsælt fyrir íslenska bændur að taka afstöðu gegn þessari tækni. Með því setja þeir framförum í landbúnaði, bæði hér og annars staðar, miklar skorður. Það eru engin rök fyrir því að afskrifa erfðatæknina sem slíka. Hins vegar þarf að koma í veg fyrir að henni verði beitt með óábyrgum hætti og því þarf að meta hverja afurð sérstaklega sem hún skilar af sér áður en henni er sleppt á markað. 
 
Það er brýnt að stjórnvöld og hagsmunaaðilar beiti sér fyrir því að bændur, hvar sem er í heiminum, geti haft gagn af þeim tækjum og tólum sem líftæknin býður upp á. Ávinningurinn er margfalt meiri en áhættan. Nýlega birtu 107 Nóbelsverðlaunahafar áskorun um að menn láti af andstöðu við nýtingu erfðatækni í landbúnaði þar sem hún byggist á afneitun þekkingar. Það er full ástæða til þess að taka undir áskorun þeirra.
 
Áslaug Helgadóttir, prófessor í jarðrækt og plöntukynbótum, LbhÍ
 
Emma Eyþórsdóttir, dósent í búfjárkynbótum, LbhÍ
 
Guðni Þorvaldsson, prófessor í jarðrækt, LbhÍ
 
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent í fóðurfræði, LbhÍ
 
Jón Viðar Jónmundsson, sérfræðingur í búfjárkynbótum
 
Jónatan Hermannsson, lektor í jarðrækt og plöntukynbótum, LbhÍ
 
Þóroddur Sveinsson, lektor í jarðrækt og fóðurverkun, LbhÍ
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...