Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Að brauðfæða jörðina
Leiðari 9. júlí 2015

Að brauðfæða jörðina

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Bændasamtök Íslands urðu í maímánuði fullgildir aðilar að Alþjóðasamtökum bænda, World Farmers Organisation (WFO), á grundvelli samþykktar Búnaðarþings frá því í byrjun mars. WFO eru ung samtök, stofnuð á grunni Heimssamtaka búvöruframleiðenda sem liðu undir lok.

Um þessar mundir er heimssýningin EXPO-2015 haldin í Mílanó undir yfirskriftinni „Feeding the Planet, Energy for life“, sem í lauslegri þýðingu útleggst sem „Að brauðfæða jörðina – orka lífsins“. Það var því vel til fundið að halda allsherjarþing WFO í Mílanó undir sömu yfirskrift í borginni nú í lok júnímánaðar og ánægjulegt fyrir Bændasamtök Íslands að vera loks þátttakandi í því mikilvæga samtali sem þar fer fram.

WFO eru samtök bænda alls staðar úr veröldinni auk þess sem samvinnufélög bænda eru einnig aðilar að samtökunum. Víðast hvar í heiminum er litið á hagsmuni bænda og samvinnufélaga þeirra sem hina sömu. Sem dæmi eru Evrópusamtök bænda, COPA-COGECA, sameiginleg samtök bænda og samvinnufélaga bænda í Evrópu. Þó svo að dæmi séu um öflug samvinnufélög bænda á Íslandi er langt frá því að þessu rekstrarformi sé gefinn nægur gaumur hér á landi.

Mikilvægi þess að taka ábyrga afstöðu

Aðalritari Aameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, ávarpaði fundinn með hjálp nýjustu tækni og þar lagði hann áherslu á mikilvægi bænda af báðum kynjum við að tryggja fæðuöryggi með sjálfbærum landbúnaði. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) er þegar orðin aðili að starfi WFO og lýsti aðalritarinn sérstakri ánægju með það samstarf. Hann lagði einnig mikla áherslu á rekstur fjölskyldubúa og sagði að verkefni landbúnaðarins verði ekki leyst af hendi nema með aðkomu þeirra. Enn fremur lagði hann áherslu á það allir legðust á eitt í að útrýma hungri í heiminum og mikilvægi þess að taka ábyrga afstöðu til loftslagsmála. Áhugavert er að geta þess að Sameinuðu þjóðirnar telja samvinnufélög mikilvæg í baráttu gegn hungri í heiminum og hafa kallað þau „rekstrarform með samvisku“.

Það voru fleiri stórmenni sem létu frá sér heyra á þinginu. Frans páfi sendi kveðju og fagnaði þeirri áherslu sem lögð var upp þar, enda mikilvægt að þróa landbúnaðinn til að takast á þær miklu áskoranir sem fram undan eru við að brauðfæða heiminn sem þyrfti jafnframt að ræða í félagslegu samhengi.

Á þinginu kusu bændur nýjan forseta samtakanna og varð dr. Evelyn Nguleka fyrir valinu. Þar fer ung kona sem er menntaður dýralæknir og bóndi frá Zambíu. Hún er mjög frambærilegur og öflugur einstaklingur sem án nokkurs vafa á eftir að tala máli landbúnaðarins með sóma hvar sem hún kemur og halda hagsmunum bænda og samvinnufélaga þeirra á lofti.

Það er skemmtileg tilviljun að hún skuli vera kosin sama dag og síðasta Bændablað kom út, en í leiðara þess var ítrekað mikilvægi þess að konur tækju virkan þátt í félagsmálum bænda.
Í ályktun þings WFO er tekið á mörgum mikilvægum atriðum er varða starfsskilyrði bænda í heiminum og mikilvægi samvinnufélaga í virðiskeðjunni. Ljóst er að landbúnaður er afar breytilegur eftir heimsálfum og áherslur bænda eru mismunandi. Þrátt fyrir það er flest sem WFO fjallar um ekki fjarri því sem íslenskir bændur ræða á Búnaðarþingi og bændafundum um allt land, eins og sjá má hér að neðan þar sem helstu atriði ályktunar þingsins eru tekin saman.

Landbúnaður er kjarni sjálfbærrar þróunar

Þingið leggur áherslu á að landbúnaður er kjarni sjálfbærrar þróunar. Bændur og dreifbýlissamfélög bera ábyrgð á fæðuöryggi, fullnægjandi næringu og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Bændur skapa hagvöxt og atvinnu með framleiðslu afurða til frekari vinnslu og viðskipta. Með því bætum við hag samfélagsins í heild auk okkar sjálfra. Landbúnaðurinn mun leggja sitt af mörkum til að efla framleiðslu endurnýjanlegrar orku svo sem með lífeldsneyti, orkuframleiðslu úr lífmassa og annarri nýsköpun.

Ræktun skóga er eitt af því sem mun skipta verulegu máli til að vinna gegn loftslagsbreytingum og tryggja framboð á hreinu vatni. Bændur eru vörslumenn landsins og hafa hag af því að halda landinu ræktanlegu og frjósömu, enda gengur landbúnaður ekki upp án þess.

Samvinnufélög í landbúnaði, í krafti skipulags þeirra og uppbyggingar, ættu að geta átt verulegan hlut að því að minnka orsakavalda matarsóunar.

Landbúnaður hefur mótað landslag og menningu um allan heim. Landbúnaðarframleiðsla er undirstaða dreifbýlissamfélaga, bæði félags- og menningarlega, um leið og þau samfélög geta boðið upp á sjálfbæra ferðaþjónustu. Landbúnaðurinn hefur því bæði félagslegt og menningarlegt hlutverk. 

Sem markaðsdrifnir framleiðendur á heimsmarkaði leitast bændur sífellt við að framleiða meira með því að nota minna. Hagkvæm og skilvirk notkun aðfanga leiðir til aukinnar framleiðni og minni umhverfisáhrifa. Aðgengi að aðföngum þarf að vera tryggt svo sem að landi, auðlindum mörkuðum og fjármagni.

Bændur þurfa sanngjarnt afurðaverð. Í virðiskeðju þar sem bændur eru oft í þröngri stöðu á milli afurðastöðva og aðfangabirgja, hafa þeir oft lítið svigrúm til samninga. Við erum þakklát fyrir stuðning og traust neytenda og myndum vilja nánara samband þar á milli. Við þurfum allan þann stuðning sem mögulegt er til að styrkja stöðu bænda innan virðiskeðjunnar. Ef bændum er ekki umbunað á sanngjarnan hátt fyrir framleiðslu sína í formi afurðaverðs, þá verður ekki um neitt fæðuöryggi að ræða, engin framleiðsla endurnýjanlegrar orku og engin þróun í hinum dreifðari byggðum. Þangað verður ekkert að sækja.

Það er ljóst að hinar alþjóðlegu áskoranir fyrir landbúnað í heiminum eru miklar. Eftir að hafa kynnst viðhorfum og aðstæðum margra þingfulltrúa er ljóst að víða þarf gríðarlegt átak til að takast á við þessar áskoranir. Þar getum við vestrænu þjóðirnar orðið að liði, með því að styðja við uppbyggingu innviða og deila þekkingu.

Umræða um landbúnaðarmál hér á landi er oft á tíðum óvægin og hljómar stundum eins og markmið hennar sé eingöngu að tala niður íslenskan landbúnað. Ekkert er hafið yfir gagnrýni, en stundum er gott að horfa á hlutina í stærra samhengi.
Bændur um allan heim eru einfaldlega mjög mikilvægir … fyrir okkur öll.

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...