Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem hafa gefið af sér þessa afbragðsfæðu í nær heila öld.

„Þeir voru að reyna að ná í ferðamennina – fá þá nær sér – en við sjáum það núna að þessi vegur er bara stórtjón fyrir byggðarlagið og vistkerfið. Við gáfum aldrei samþykki fyrir þessari leið og því voru löndin okkar tekin eignarnámi sem leggja á veginn um,“ segir Hjalti Egilsson, kartöfluræktandi í Hornafirði. Hann er einn þeirra bænda sem nýlega varð fyrir vatnstjóni á ræktarlandi sínu sem rekja má beint til veglagningar.

Framkvæmdir í Hornafirði eiga sér stað við hringveginn en þær fela meðal annars í sér lagningu 19 km langs vegar og byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa. Veglagningin hindrar náttúrulegt útfall Laxár og
Hoffellsár til sjávar. Í miklum rigningum á dögunum leiddi sú stífla til þess að kartöfluakrar fóru á kaf og skemmdu uppskeruna.

Endanleg áhrif þessara tilteknu flóða eru ekki komin í ljós en Sveinn Rúnar Ragnarsson, bóndi í Akurnesi, segir að langtímaáhrifin séu alvarleg, því nú séu svæði sem hingað til hafa verið örugg til ræktunar orðin áhættusamari til akuryrkju.

Í fréttaskýringu þessa tölublaðs er það rakið hvernig bæjarstjórn Hornafjarðar tók þá afstöðu að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir leið sem sýnt þótti í matsskýrslum að hefði óhjákvæmilega verulega neikvæð umhverfisáhrif. Bændur lýsa því jafnframt hvernig ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til áhrifa veglagningar á ræktarlöndin til dæmis með því að miða við nokkuð hæpnar forsendur fyrir flóðalíkani.

Samkvæmt lögum ber sveitarfélögum skylda til að setja fram
skipulagsáætlanir þar sem landbúnaðarland er skilgreint og verndað. „Þetta gerir sveitarfélögum kleift að skipuleggja nýtingu lands til landbúnaðar með það að markmiði að tryggja að landbúnaðarland fari ekki undir aðra starfsemi nema brýna nauðsyn beri til,“ segir Katrín Pétursdóttir, lögfræðingur Bændasamtaka Íslands, í grein sinni „Vernd landbúnaðarlands“ sem birtist í síðasta tölublaði Bændablaðsins. Þar segir hún að í jarðalögum sé landbúnaðarlandi veitt sérstök vernd og að ákvæði laga hafi þá þýðingu að allt land sem nú er í landbúnaðarnotum eða er nýtanlegt til landbúnaðar skuli vera það áfram.

Þrátt fyrir að bera þá skyldu að skilgreina og vernda landbúnaðarland hafa fæst sveitarfélög landsins ráðist í það að flokka landbúnaðarland eftir leiðbeiningum, samkvæmt Katrínu. Í fyrra sendi hún fyrirspurn til allra sveitarfélaga og var niðurstaðan sú að aðeins tíu af 63 sveitarfélögum höfðu farið í þá vinnu. Með slíka lausung í stjórnsýslu má ætla að ekki sé mikill metnaður lagður í að uppfylla skyldur um vernd þess lands sem nýta ber í matvælaræktun.

Ekki er hægt að lesa það úr ferli leyfisveitinga vegna veglagningar í Hornafirði að hugað hafi verið sérstaklega að vernd kartöfluræktarlands sveitarfélagsins. Ræktarlönd þessi eru einstaklega dýrmæt enda hefur svæðið þá sérstöðu að vera myglufrítt svæði og því er hægt að rækta þar sjúkdómafrítt útsæði. Það hlýtur að vera verndarinnar virði.

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...